25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Það var þetta smyglunarmál, sem hv. þm. Str. (TrÞ) var að áfellast stjórnina fyrir áðan. Mjer hefir nú verið skýrt frá, að því víki svo við, að tollþjónar hefðu ekki innsiglað um borð í skipinu alt það áfengi, er uppgefið var. Daginn eftir fundust óinnsiglaðar birgðir, og hjeldu menn þá, að þeim hefði verið skotið undan. En er hið sanna vitnaðist, áleit dómarinn þetta ekki smyglun og dæmdi eftir því. Lögreglustjóri hefir aldrei talað um áfrýjun þess dóms við mig. Held jeg því, að hv. þm. (TrÞ) sje alstaðar á villugötum.

Þá er það þessi árás á dómarann, sem hv. þm. (TrÞ) sagði, að stjórnin hefði átt að taka til greina, vegna þess að hún kom frá fyrv. sýslumanni Sigurði Þórðarsyni. Jeg tel árásina ekki merkilega, þótt hún sje komin frá þessum manni. Jeg veit ekki, hvers vegna sú árás ætti að vera merkilegri en það, sem hann skrifar um ýms önnur mál og „Tíminn“ hefir stórlega fordæmt. Vilji hv. þm. (TrÞ) nú undirskrifa alt það, sem stendur í „Nýja sáttmála“, þá held jeg að hann geri samverkamanni sínum órjett, því að jeg man ekki, betur en að mjög harður dómur væri nýlega kveðinn upp yfir bókinni í blaði því, er hv. þm. (TrÞ) stjórnar. Hann ætti því ekki að vera að veifa þessu vopni; það bítur ekki eins og á stendur, nema sjálfum honum syngi of höfði.