15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Pjetur Ottesen:

Það hefir verið fundið til foráttu brtt. okkar hv. þm. Str. ( TrÞ) af hæstv. atvrh. (MG) og fleiri mönnum, að ákvæði þessi ættu ekki þarna heima, sakir þess, að þau væru óskyld efni frv. Þetta er nú e. t. v. ekki yfirskynsástæða ein hjá þessum hv. þm., en er þó vart á fullum rökum bygt. Því að vitanlega er það aðaltilgangurinn með till. okkar að sporna á móti því, að húsdýrasjúkdómar berist til landsins. Því að hjer er um að ræða innflutning á heyi frá löndum, þar sem munn- og klaufnasýkin er landlæg eða altaf á næstu grösum. Það getur hæglega staðið svo á, að þessi sjúkdómur liggi í landi, en sje ekki fram kominn, og sje heyið smitandi. Enda þótt sjúkdómurinn sje um garð genginn, getur hann falist í heyinu og borist með því. Sjúkdómurinn getur því borist hingað, hvað sem líður öllum varúðarráðstöfunum, öðrum en beinu innflutningsbanni á heyi. Og sakir þess óskapa tjóns, sem þessi sjúkdómur hefir valdið í öllum þeim löndum, sem hann hefir gengið yfir, þykir mjer full ástæða til, að við heitum allri varkárni. En það er meiri ástæða til að banna innflutning á heyi en á öðru fóðri, sökum þess, að langmest hætta er á, að sjúkdómurinn berist með því. — Það má raunar segja, að með brtt. okkar sje ekki alveg girt fyrir þetta, því að gert er ráð fyrir, að flytja megi hey til landsins, þegar sjerstaklega standi á. En jeg geri ráð fyrir, að þetta verði ekki skoðað öðruvísi en sem ákvæði til bráðabirgða. Frá öryggissjónarmiði eru innflutningshömlur og helst algert innflutningsbann á heyi alveg nauðsynlegt. Það er harla undarlegt — og ekki í sem bestu samræmi við annað — að eftir því, sem ræktun landsins vex og heyöflunarskilyrðin verða betri, þá sje verið að dyngja inn í landið ósköpum af útlendu heyi til þess að hnekkja og draga úr ávöxtum þessara framfara. Sjeu heyöflunarskilyrðin notuð, þarf ekki að vera að tala um neina fóðurþröng; það er svo langt frá því. Það er misskilningur og vanþekking á þeim gæðum, sent landið hefir að bjóða.

Það má vera, að jafnframt hafi blandast inn í þetta metnaðaratriði, eða að það sje búhnykkur fyrir landið að framfæra sem mest af sínum búpeningi á innlendu fóðri. Enda sýna þær rannsóknir, sem hv. þm. Str. gaf yfirlit yfir, að landsmenn hafa mjög keypt köttinn í sekknum, þar sem þetta útlenda hey er. Útlenda heyið er 12% lakara að fóðurgildi en gott innlent hey, og verðmunur að auki. Það getur nú verið, að þessi rannsókn opni augu manna, en jeg held þó, að það sje tryggilegra að búa svo um hnútana, sem við hv. þm. Str. leggjum til. — Ýmsir gamlir og gætnir menn, sem reynt hafa útlent hey, hafa veitt því eftirtekt, að það er lakara til gjafar, en hið innlenda. T. d. komu þær upplýsingar á þingi 1923 frá Guðjóni Guðlaugssyni, fyrv. alþm., nú bónda hjer í Reykjavík, að honum hefði reynst útlenda heyið mun lakara. Hann hvaðst hafa getið þess, við ýmsa Reykvíkinga, en þeir ljetu ekki sannfærast og hjeldu áfram kaupunum í þeirri trú, að það væri búhnykkur. Það lítur svo út um suma menn, sem þeir sjeu beinlínis fíknir í að kaupa það frá útlöndum, sem þó er hægt að fá miklu betra hjer heima. Mjer er t. d. sagt, að svellþykkir og ágætir ullarsokkar, úr eintómu þeli, sjeu á boðstólum hjer í bænum, en samt vilja fjöldamargir heldur útlenda sokka, þessar gresjur, vildu heldur vera síkaldir á fótum, til þess að tolla í tískunni, og beygja sig bljúgir undir alla þá kvilla og illa líðan, sem af fótakuldanum leiðir, og arfgenga óhreysti.

Þetta, að vilja helst kaupa alt frá útlöndum, en líta lítilsvirðingaraugum á hin hollu gæði, sem landið hefir að bjóða bæði til fæðis og klæðis, það er sjúkdómur, sem hefir gagntekið þjóðina.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gat þess sem ástæðu móti brtt., að nú væri víða í sveit svo örðugt um fólk, að bændur ættu erfitt með að fullnægja sinni eigin þörf hvað þá meiru. Það er alveg rjett, að víða mun vera skortur á nægum fólksafla hjá bændum. En það var um tíma töluvert algengt, að einstakir menn úr kauptúnum, sem ekki eru bændur, tóku á leigu slægjulönd til heyskapar og seldu síðan heyið. Þessir menn notuðu þannig þau slægjulönd, er bændur komust ekki yfir að nota sjálfir. Nú hefir dregið úr þessu; hefir mest strandað á því, að þessir menn hafa haft ónógan markað fyrir hey sitt síðan farið var að dyngja útlenda heyinu inn í landið, og svo verða þessi slægjulönd ónotuð fyrir bragðið. Þá er sú breyting einnig orðin á nú á síðustu árum, að margir bændur geta framleitt miklu meira hey en nokkru sinni áður, með minna vinnukrafti. Þetta gera heyskaparvjelarnar, sláttu- og rakstrarvjelar, og svo auknar jarðabætur. Víða hafa orðið stórfeldar framfarir, eins og í Skagafirði, með aukningu á áveitum, auk þess sem verulegar framfarir hafa orðið í venjulegri ræktun. Nú er mjer tjáð, að á Norðurlandi sje allmikið hey á boðstólum, og það afbragðshey, óhrakið og vel þurkað. Norðlendingar hafa flutt allmikið hey suður, t. d. til Hafnarfjarðar, en þó hafa þeir enn meira hey á boðstólum, en það gengur ekki út; útlenda heyið situr í fyrirrúmi. Jeg veit því, að síðastliðið ár hefði ekki þurft að flytja inn eitt einasta strá af útlendu heyi. Og eftir verð- og gæðamuninum hafa Reykvíkingar og aðrir, sem nota útlent hey, stórskaðast á kaupum sínum á norska heyinu. Það styður því alt að því, að um verulegan búhnykk sje að ræða, ef bannaður er innflutningur á útlendu heyi.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) var að væna okkur flm. um það, að okkur gengi ekki til umhyggja fyrir kaupstöðunum, því að áður, er við hefðum borið þetta fram, hefðu ekki legið fyrir neinar skýrslur um verð eða gæðamun. Skýrslur um efnafræðilega rannsókn lágu raunar ekki fyrir, en okkur hafði verið færður heim sannur um þetta af góðum og gætnum mönnum, sem höfðu sjeð þetta af reynslunni áður en vísindalegar rannsóknir höfðu fram farið. Auk þess held jeg, að það sje yfirleitt hagur að geta framleitt sem mest í landinu sjálfu af því, sem nota þarf. Það er ekki eingöngu til hagnaðar fyrir þann, sem vöruna framleiðir, heldur fyrir landið í heild, og það álít jeg mest um vert.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) vildi nota þetta til að „agitera“ fyrir járnbraut. En jeg vil leyfa mjer að benda þeim hv. þm. á það, að margar góðar engjasveitir liggja þannig við samgöngum, að engir örðugleikar eru á að koma heyinu á markaðinn. Og þótt strandferðirnar, þar sem til þeirra þarf að taka til heyflutnings, sjeu hvergi nærri góðar, eru þær þó svo tíðar, að engin frágangssök ætti að vera að koma heyinn á markað. Enda veit jeg ekki betur en að ágætlega hafi tekist um heyflutninga frá Norðurlandi síðastl. haust og í vetur.

Jeg ætla nú ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vona, að hv. deild taki vel í brtt. okkar, því að þetta er sannarlegt þjóðþrifamál.