15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Pjetur Ottesen:

Það hefir verið ráðist mikið á þessar brtt. okkar hv. þm. Str. (TrÞ). aðallega vegna þess, skilst mjer að hjer er að ræða um takmarkanir, sem af sumum hafa verið kallaðar bann. Þetta kom greinilega fram í ræðu hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). Þó sýnt sje fram á það með ljósum rökum, að þetta sje hinn mesti búhnykkur fyrir landbúnaðinn og nauðsynleg öryggisráðstöfun, þá vill hann fórna þessum hagsmunum og öryggi vegna þess, að það er hægt að heimfæra þetta undir bann. (ÓTh: Jeg hefi aldrei viðurkent neina hagsmuni!). Það þarf ekki viðurkenningar þessa hv. þm. fyrir því. Það er margsannað, að þetta er hagsmunamál enda viðurkent af öðrum.

Hæstv. atvrh. (MG) ítrekaði það, að það færi illa á því að hafa þetta ákvæði í þessu frv. Það færi utan við aðalatriði þessa frv. En aðalatriði þessa frv. er að fyrirbyggja það, að næmir sjúkdómar flytjist til landsins. Þetta er líka í fyllsta samræmi við annan meginþátt brtt. En jeg sje ekkert á móti því, að jafnframt sje hægt að fela í því aðra till., sem er til verulegra hagsmunabóta fyrir landið og þjóðina í heild sinni. Jeg álít, að slíkt geti vel farið saman. Hæstv. atvrh. ber fyrir brjósti Vestmannaeyjar. En það hefir verið bent á, að aukið framtak í ræktun landsins hefir einnig náð til Vestmannaeyinga. Það ætti að vera Vestmannaeyingum metnaðarmál, ekki síður en öðrum, að vera sjálfum sjer nógir í þessu efni. Auk þess eru þar á næstunni grasauðug landflæmi þar sem grasið verður árlega að sinu. Þeir ættu frekar að beina hugum sínum til meginlandsins til fóðuröflunar heldur en byggja griparækt sína á útlendu fóðri. Hæstv. atvrh. sagði, að það væri hart að meina mönnum að kaupa hey frá útlöndum, ef ekki fengist innlent hey með sama verði eða svipuðum gæðum. En það hefir verið sýnt og sannað hjer, að innlenda heyið er venjulega bæði betra og ódýrara. Svo er það og hefir verið að undanförnu. Þær upplýsingar, sem jeg aflaði mjer um þetta 1923, sýndu þetta 1jóslega. Þá kostaði hey, sem aflað var hjer við Reykjavík á ræktuðu landi, komið í hlöðu. 10 aura pundið, en þá var útlenda heyið á 16 aura. En útlenda heyið var samt keypt, þó það væri bæði verra og dýrara.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það ætti að vera metnaðarmál bænda að auka heyfeng sinn og bústofn jafnframt. Þetta er mikið rjett. En jeg skal nú benda á það, að að undanteknum búskap nærlendis kauptúnum og bæjum, er sauðfjárræktin langarðvænlegasta búskapargreinin. En það eru ekki altaf góð skilyrði fyrir sauðfjárrækt, þótt engjalönd sjeu góð. Þar eru góð beitarlönd, einkum þó góð afrjettarlönd, ekki síður undirstöðuatriði. Það er því eitt af skilyrðum til þess að geta notið ræktunar landsins, að eiga kost á því að selja heyið þangað, sem þörf er fyrir það. Hv. þm. sagði, að ekki væri að miða við heybirgðir nú, því að árferði hefði verið gott og góður vetur. Það er rjett. En þess ber að gæta, að aukin ræktun landsins tryggir það betur, að grasvöxtur verði góður, og minna þarf að gæta árferðis, er meira er bygt á ræktuðu landi en óræktuðu. Hann sagði, að ef takmörkin yrðu sett hjer, þá mundi verðið hækka mikið frá því, sem nú er. Það er næsta undarleg ályktun og gagstæð reynslunni. Framboðið er og hefir verið meira en nóg innanlands, og mundi verða nóg í framtíðinni. og verðið fer þó eftir framboðinu.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að hæstv. forseta hefði orðið það á að nefna 3. þm. Ísf., og kvað það ekki óeðlilegt, því að Ísfirðingar ættu rjett á því að hafa þrjá þm. Jeg sakna þess nú ekki, þótt þeir hafi ekki 3 þm. með þeim hugsunarhætti, sem fram kemur hjá þessum hv. þm. í þessu máli. Jeg fjekk ekki lesið annað út úr ræðu hans en að það væri bláber skaði að byggja búskap landsmanna á ræktun landsins eða innlendu heyi; það væri mun ódýrara og heppilegra að flytja hey inn frá útlöndum. Hann sagði, að ekki gæti farið saman umhyggja fyrir ræktun landsins og að sporna við því, að útlent hey flytjist til landsins, því að það hjálpi við ræktuninni. En við viljum, að það fóður, sem árlega fer til ónýtis hjer á landi, komi í stað hins erlenda fóðurs. Það kann að vera, að hv. þm. meini, að áburðurinn verði betri úr skepnum þeim, sem nærast á hinu erlenda fóðri, en ekki veit jeg satt að segja, hvernig hv. þm., með allri sinni athugun og vísindamensku fer að komast að þeirri niðurstöðu, þegar hið erlenda fóður er svo miklu lakara eins og raun ber vitni um. Hann sagði, að menn mundu hætta við að eiga skepnur, ef bannað væri að flytja inn erlent hey. Það kann að vera, að sá andi svífi yfir vötnunum í kjördæmi hans, en það mun vera undantekning, sem betur fer. Þá hjelt hann fræðandi fyrirlestur um fóðurblöndun. Það er rjett, að mikið ríður á því, að blandað sje í rjettum hlutföllum, en jeg hugsa, að það þurfi minni fóðurbæti þegar um er að ræða hey, sem hefir 12% meira næringargildi, og ætti því notkun innlends fóðurs að stuðla að minni fóðurbætiskaupum.

Þá kom hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) fram á vígvöllinn til þess að skakka leikinn. Hann sagðist gera það samkv. áskorun frá hv. þm. Str., líklega sem sjerfræðingnr. Hann kvaðst álíta, að aukin ræktun hefði aukinn búskap í för með sjer. Þetta er að vissu leyti rjett. En það er ekki altaf, að samfara aukinni ræktun sje þegar í stað hægt að auka bústofninn í samræmi við hana. Til þess útheimtist fleira. Það þarf mikið fjármagn til þess að auka bústofninn á skömmum tíma að verulegum mun, reisa búpeningshús og fleira. En aftur á móti er það þannig í kaupstöðum sumstaðar, að nautgriparæktin eykst meira en ræktun landsins, vegna nauðsynar á að fá mjólk. Nú vil jeg spyrja hv. 2. þm. G.-K., sem jeg veit að er góður Íslendingur, að því, hvort honum finnist nú ekki rjettara að uppfylla fóðurþörf kaupstaðanna með því að nota hina auknu ræktun landsins á hinum ýmsu stöðum í landinu, að því leyti, sem bústofninn ekki eykst í samræmi við hana, til þess að uppfylla þessar þarfir kaupstaðanna, heldur en sækja heyið til útlanda. Jeg veit það, ef hann athugar þetta, þá er hann okkur samdóma um, að þetta sje þjóðhagsatriði og metnaðarmál.

Þá komst hann út í bannið og kvað það hart að banna beljunum að jeta útlent hey. Það kann nú að vera, að þessi útlendi maður sje nú ekki bundinn við manneskjurnar einar, kýrnar sjeu nú líka orðnar smitaðar af honum. — Og það getur vel verið, að það fari svo, að hv. 2. þm. G.-K. verði að ósk sinni um það, að meiri hluti þingmanna reynist svo gáfaður, að öryggi og auðsæir hagsmunir þjóðarinnar verði að lúta í lægra haldi fyrir tískunni og að beljurnar fái að jeta sitt útlenda hey í friði.