15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf ekki að segja margt, því að hv. þm. Borgf. (PO) hefir svo rösklega svarað þeim, sem hafa andmælt okkur. En af því að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) gat þess, að hann hefði talað vegna óska minna, þá vil jeg mæla nokkur orð til hans. Mjer þótti gott að heyra, að hann tekur sjerstaklega tillit til óska minna. Og jeg vil skora á hann sem fulltrúa bændanna í Kjósinni að taka á fleiri sviðum tillit til óska minna, og mun þá ekki verða á honum lággengi þar. En því miður brást hann vonum mínum. Fulltrúi bændanna í Kjósinni snerist öndverður gegn till., sem við flytjum vegna þess, að við álítum hana gagnlega hagsmunum bænda og landbúnaðarins í landinu. Hann bar fram tvær ástæður fyrir því, að hann væri á móti þessari brtt. Mjer skildist á honum, að hann teldi sig bera meiri umhyggju fyrir bændum en við. Sagði hann, að það væru aðallega bændur, sem notuðu útlenda heyið. Hann er þá líklega á móti þessari brtt. vegna þess, að hann heldur, að bændurnir í Kjósinni fóðri kýrnar sínar á norska heyinn. En þetta er mesti misskilningur. Það eru sárafáir bændur, sem nota útlent hey. Það eru menn eins og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem reka búskap í kaupstöðum, sem neyðast til að kaupa slíkt hey. Hv. 2. þm. G.-K. má ómögulega vera á móti þessari brtt. vegna bændanna í landinu. Er hann fær þessa betri fræðslu, þá vænti jeg þess, að hann fari að óskum þm. Str. og fylgi brtt.

Hin ástæðan til þess, að hann var á móti þessari brtt., var sú, að hjer væri um bann að ræða. Mjer finst það undarlegt, að hann skuli þá ekki fyr hafa snúist á móti þessu frv., sem hjer er um að ræða. Þetta frv. er um bann. Það heitir meira að segja frv. til laga um innflutningsbann á dýrum. Allar greinar frv. hljóða um bann. Og brtt. okkar hv. þm. Borgf. gengur aðeins út á það að breyta svolítið skipulagi á þessu allsherjarbanni, sem hjer er um að ræða. Ef hv. þm. (ÓTh) væri sjálfum sjer samkvæmur, þá væri hann á móti frv. í heild sinni, úr því að hann er á móti öllum bönnum. Jeg er, nú samt ekki að óska þess, að svo fari. En það er ef til vill svo með háttv. þm. (ÓTh), að hann vilji hjálpa til þess að flytja inn bakteríur og annan slíkan óþverra. Og þegar búpeningur bænda er fallinn af völdum þessa innflutnings, þá verður auðvitað frv. eins og þetta óþarft.