15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Ólafur Thors:

Jeg vil ekki misbjóða hv. deild með því að lengja umr. um slíkt hjegómamál. En þó verð jeg að gera stutta athugasemd, vegna þess að að mjer var veist sjerstaklega.

Hv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg svara því, að munur er á því að beygja sig fyrir nauðsyninni á banni og hinu, að samþykkja alveg ónauðsynlegt bann. En flm. brtt. hafa einmitt sannað það með ræðum sínum hjer í dag, að bann það, sem þeir stinga upp á, er með öllu ónauðsynlegt. Hv. þm. Str. tók það greinilega fram, að af því að menn vissu ekki það, sem skýrsla hv. flm. sýnir, þá ljetu þeir ginnast til þess að kaupa útlent hey. Jeg vil nú skora á hv. þm., sem ræður yfir blaði, að láta prenta skýrsluna og skrifa rækilega um hana. Er tilganginum þá að fullu náð án laga, og því kann jeg best. Jeg nefni það einnig sem sönnun þess, að hjer sje um óþarft mál að ræða, að hv. þm. Borgf. (PO) gat þess, að bústofn manna í kaupstöðum ykist meira en svaraði ræktun landsins. (PO: Ræktun landsins í kaupstöðum). Það sýnir ljóslega, að ekki er rjett að fara fram á slíkt bann.

Það er rjett, að jeg nefndi bændur meðal þeirra, sem erlent hey nota, en jeg veit vel, að till. háttv. þm. Str. þarf ekki að falla vegna minna „kæru kjósenda í Kjósinni“, eins og hv. þm. (TrÞ) orðaði það. En þeir hafa heldur engan hag af henni, svo að hún er þeim alveg gagnslaus. En hún getur verið öðrum mönnum skaðleg, eins og t. d. bóndanum í Laufási, sem jeg er vanur að kalla svo.

Hv. þm. Str. sagði, að jeg hefði brugðist vonum sínum í þessu máli. Jeg vona, að fleiri háttv. þm. geri það. Og jeg vil benda háttv. þm. (TrÞ) á það, að mjer þykir líklegt að jeg muni bregðast vonum hans oftar, ef það á fyrir okkur að liggja að dvelja samvistum. Jeg vil aðvara hann um það að vera sjer ekki of glæsilegar vonir um mig.