26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

78. mál, notkun bifreiða

Árni Jónsson:

Hæstv. forsrh. (JM) benti á, að rjettara væri að ákveða, að atvinnumálaráðuneytið setti reglur þessu viðvíkjandi, og játa jeg það rjett vera. Þessi villa er komin inn af því, að jeg tók þetta orðrjett upp úr dönsku lögunum, en þar heyrir það undir dómsmálaráðherra.

Jeg get gert hv. frsm. samgmn. (JK) það til geðs að taka aftur brtt. mína til 3. umr., enda þótt mjer finnist hv. samgmn. hafa haft nægan tíma til þess að athuga málið: Auðvitað mun jeg láta henni í tje allar þær upplýsingar, sem jeg get.

Mjer hefir dottið í hug, að hækka mætti upphæðirnar, sem jeg hefi gert ráð fyrir í brtt., upp í 20 þús. kr. og 10 þús. kr. Í Noregi er venja að tryggja bifreiðar fyrir 30 þús. kr., og þegar tekið er tillit til þess, að iðgjöldin eru í Noregi 4,7‰ hæst, er þetta mjög sanngjarnt.