10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg þarf ekki að segja mörg orð. Nál. gerir grein fyrir, hverjar breytingar verða frá því, sem nú er, ef frv. verður samþykt eins og það nú liggur fyrir. Ef þetta frv. er borið saman við helgidagalöggjöfina frá 1901, þá sjest, að nokkrar tilslakanir eru gerðar. Hinsvegar er farið fram á allmikla skerpingu í sumum atriðum. Samkvæmt lögum frá 1897 er leyft að ferma og afferma skip á helgidögum. Þessu er nú breytt svo, að slík störf megi ekki fara fram á föstudaginn langa nje á stórhátíðum og á öðrum helgidögum ekki frá kl. 11 f. h. til 3 e. h. Þó má afgreiða strandferðaskip á þessum tíma.

Þessa skerping verður að telja til bóta. Hún mun fram komin með samþykki útgerðarmanna hjer og í Hafnarfirði, og má því vænta, að þetta ákvæði verði ekki dauður bókstafur, eins og oft vill verða um lög.

Nefndin er þeirrar skoðunar, að rjett sje að ganga að frv., og leggur til, að það verði samþykt óbreytt.