14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Það er orðið svo langt síðan þetta mál var afgreitt frá nefnd, að jeg held jeg sje búinn að gleyma því, sem jeg átti að skila frá nefndinni. Eins og nál. á þskj. 144 ber með sjer, hefir fjhn. ekki orðið ásátt um frv. Meiri hlutinn leggur til, að það nái fram að ganga með lítilsháttar breytingum, en þó hafa einstakir menn í meiri hlutanum sjerstöðu um einstök atriði; þar á meðal hefi jeg óbundið atkvæði um, hvernig ráðstafað skuli tekjum happdrættisins. Að öðru leyti býst jeg við, að hinir, sem sjerstöðu hafa, muni gera grein fyrir henni.

Hinar almennu ástæður fyrir frv. þessu eru þegar teknar fram við 1. umr. þess, og auk þess er málið kunnugt frá undanförnum þingum og því óþarft að rifja þær upp. Hinsvegar skal jeg í stuttu máli víkja að ástæðum meiri hluta nefndarinnar til að leggja til, að frv. nái fram að ganga.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að meiri hlutinn vill ekki gera málið að verulegu kappsmáli, nje heldur einstök atriði frv., en telur hinsvegar sjálfsagt, að hv. deild gefist kostur á að láta í ljós álit sitt um það, og rjettmætt, að málið gangi fram. Það virðist vera einhver þrái eða tregða í þessu máli, sem veldur því, að það hefir verið borið fram svo að segja þing eftir þing síðustu árin. Í fyrsta sinn, sem það var borið fram — fyrir meira en 10 árum — var því svo vel tekið, að það var samþykt, þó að ekkert yrði úr framkvæmdum. Þetta, hvað málið hefir komið oft fram, virðist benda á einhverja lífseigju í því, sem bendir aftur til þess, að það verði ekki bælt niður til lengdar, enda munu þau kjör, sem nú eru í boði, vera þau bestu, sem kostur hefir verið á hingað til.

Höfuðástæður meiri hlutans til að mæla með frv. eru annarsvegar tekjuvonirnar og hinsvegar tekjuþörfin. Tekjuvonirnar eru á milli 100 þús. kr. og 800 þús. kr. Þótt eitthvað megi finna að þessari leið til þess að afla tekna, hefir hún þó þann stóra kost, að hún aflar þeirra án þess að íþyngja verulega gjaldendum, og þegar litið er til þess, hvað hefir orðið að ganga langt og nærri til þess að afla tekna, t. d. að leggja skatt á ýmsar almennar þurftarvörur, þá má teljast vel forsvaranlegt að fara þessa leið.

Önnur höfuðástæða meiri hlutans er hin sívaxandi ásælni erlendra happdrátta til viðskifta við landsmenn með alveg sömu annmörkum, sem happdrætti og önnur slík fjárhættuspil eru talin hafa, en þeim einum mun, að þau eru rekin fyrir erlenda hagsmuni, en við sitjum með tjónið eitt og ókostina. Íslenskt happdrætti mundi rýma burt að mestu þeim erlendu, einkum nú, þegar búið er með lögum að setja hömlur fyrir opinber viðskifti erlendra happdrátta við landsmenn. Af innlendu happdrætti hefðum við bæði skaðann og ábatann, og virðist það nokkru nær en að sitja uppi með skaðann einan, en erlendir njóti ábatans.

Þá ætla jeg að víkja að brtt. á þskj. 144. 1. og 2. brtt. eru einungis orðabreytingar til skýrari framsetningar á efni frv., en 4. og 6. brtt. eru tilfærslur á greinum frv., sem orsakast af því, að nefndin leggur til, að 2. gr. og 4. gr. falli niður.

Í 3. brtt. er lagt til, að 2. gr. falli niður. Nefndinni þykir ekki viðkunnanlegt að gera ráð fyrir í lögunum sjálfum ásælni við aðrar þjóðir, á sama tíma sem við viljum með lögum banna samskonar ásælni annara þjóða við okkur, enda telja fróðir menn það ólíklegt, að öllu meira myndi seljast innanlands en ákveðið var í greininni.

5. brtt. er um það, að 4. gr. falli niður. Meiri hluti nefndarmeirihlutans vildi ekki fallast á að ráðstafa tekjunum eins og frvgr. gerir ráð fyrir, heldur vill hann, að tekjurnar renni í hinn almenna sjóð, ríkissjóðinn. Aðrar þarfir eru ekki síður brýnar en þær, sem nefndar eru í frv. ef á annað borð ætti að ráðstafa tekjunum fyrirfram. Sumir nefndarmenn vildu, að lágmarkstekjur gengju til ellistyrktarsjóðsins, og mun jeg verða fylgjandi slíkri till., ef hún kæmi fram.

Jeg vænti þess, að hv. þdm. taki frv. skynsamlega og hleypidómalaust, og mun jeg ekki leggja mig fram til að karpa um þær almennu mótbárur, er fram kunna að koma. Þær eru fyrirfram kunnar og margræddar áður.

Tel jeg svo ekki ástæðu til þess að segja fleira að sinni. Happdrættishugmyndin er svo kunn, að hv. þdm. munu þegar hafa tekið afstöðu til hennar og frv. í heild, og langar umræður þess vegna þýðingarlausar.