14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjármálaráðherra (JÞ):

Sú tekjuöflun, sem frv. fer fram á, getur orðið með tvennu móti. Í fyrsta lagi með sölu happdrættismiða erlendis, en um það efni get jeg tekið undir með hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að á því eru svo miklir annmarkar, að sú sala getur ekki orðið að farsælli tekjulind. Afstaða okkar er sú, að við getum ekki vænst eftir sölu á happdrættismiðum, nema í næstu löndum eða Norðurlöndum eingöngu, en þar er slík sala bönnuð. Og það er varhugavert fyrir lítið land að ætla sjer að fremja lögbrot í nágrannalöndum sínum.

Hinu verður ekki neitað að afla mætti nokkurs fjár með sölu happdrættismiða innanlands. En ef fara á að stofna happdrætti í þeim eina tilgangi, þá er það ekki annað í raun og veru en að auka nýjum þætti inn í skattalöggjöf landsins, og ráða menn því sjálfir, hverja hugmynd þeir gera sjer um það, hvað sá skattur verði ljúflega greiddur eða komi vel niður. En jeg álít, að það verði ekki með sannindum sagt, að hann komi vel niður, og viðsjárverð sú spilafýsn, sem verið er að örva með þessu, því að hún getur ekki síður bitnað á hinum fátæku heimilum heldur en þeim ríku.

Jeg álít, að skattalöggjöfin sje nú þegar komin svo langt í því að leggja álögur á landsbúa, að sem stendur sje ekki ástæða til þess að fara lengra í þeim efnum.

Út frá þessu sjónarmiði get jeg ekki verið með frv. og get fyrir mitt leyti ekki annað en ráðið hv. þd. til þess að fella það. En ætti því að verða lífs auðið, tel jeg brtt. meiri hl. nefndarinnar til bóta og að það beri þá að samþykkja þær.