27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki neina ástæðu til að vera óánægður með meðferð nefndarinnar á frv. Þvert á móti sýnist mjer hún hafa sýnt sómasamlega sjálfsafneitun að því er snertir takmörkun á hækkunartill., sem hún sjálf ber fram. Eins sýnist mjer henni hafa farist farsællega að leggja til um niðurfærslu og burtfellingu á nokkrum þeim liðum, sem inn voru komnir í Nd. og sýnast mega ýmist missa sig eða þola bið.

Það er svo, að fái frv. að fara gegnum þessa umr. með breytingum nefndarinnar einum saman, þá verður ekki sagt, að í því felist nein teljandi breyting á aðalniðurstöðu frv. Ekki nein breyting á tekjuhallanum, en eftir því, sem mjer sýnist, er dálítil umbót á meðferð fjárins.

Fáar af till. nefndarinnar gefa tilefni til að minst sje á þær. Jeg vil þó þakka nefndinni fyrir þá leiðrjettingu, sem liggur í 1. brtt. hennar, á reikningsvillu, sem stóð í stjórnarfrv.

Að öðru leyti vildi jeg segja örfá orð um 37. till. nefndarinnar, við 16. gr. Hún er um það, að niður falli eftirgjöf lána af ríkisféð til þriggja sveitarfjelaga. Till. um þetta hafa komið fyrir Nd., en voru feldar. En síðast voru þær sameinaðar í eina till., og var hún samþykt. Jeg vil þakka nefndinni fyrir að leggja til að fella þetta niður. En það er samt ekki af því að jeg sjái beinlínis eftir þessu fje, ef virkileg ástæða er til að veita þessar eftirgjafir. Það er af hinu, að það er órannsakað og ósannað mál, hvort það er meiri ástaða til að veita þessum sveitarfjelögum eftirgjöf á þessum lánum en að veita ýmisliegt annað hliðstætt. Þessi sveitarfjelög hafa ekki borið sig upp við stjórnina, eins og venja er sveitarfjelaga, sem hafa komist í kröggur. Þau vita vel, að þau eiga aðgang að atvinnumálaráðuneytinu til þess að bera upp sín vandkvæði. Allmörg sveitarfjelög hafa sjeð sig tilneydd að gera þetta nú seinustu árin. Og þar sem það hefir í raun og veru sýnt sig, að þörf var á aðstoð til þess að komast fram úr vandræðum, þá hefir það, eftir því sem jeg best veit, altaf tekist fyrir milligöngu atvinnumálaráðuneytisins að koma þeirri skipun á, sem hlutaðeigandi sveitarfjelag hefir getað sætt sig við. Ef nú þessi sveitarfjelög telja sig hafa sanngirnisrjett til eftirgjafar, þá má þó heimta það, að þau hvert í sínu lagi fari þessa sömu leið. Og ef við slíka rannsókn kemur í ljós, að einhverjar gildar ástæður mæli með því, að einhver tilslökun verði gerð, eða á annan hátt greitt fyrir þessum sveitarfjelögum, þá segi jeg það hiklaust, að frá minni hálfu skal ekki standa á því. Jeg skal ekki telja eftirsjá að fjárhæðinni í sjálfri sjer. Jeg álít vel farið, að þetta væri felt, eins og nefndin stingur upp á, og sveitarfjelögunum vísað á þessa leið. Það er meðal annars sjerstaklega æskilegt vegna þingmanna hlutaðeigandi kjördæma; því að það fer ekki hjá því, að þetta verði lagt út sem of mikið kapp af hálfu þeirra, þegar slíkar eftirgjafir eru knúðar fram með atkvgr. í þinginu.

Jeg gaf í Nd. skýrslu um efnahag þessara þriggja sveitarfjelaga samkv. síðustu reikningum þeirra, frá fardagaárinu 1923–'24. Og það varð yfirleitt ekki sjeð á þeim reikningum, að þessi sveitarfjelög væru bágstödd, og síst af öllu það, sem á að hafa hæsta eftirgjöfina. Reikningarnir sýndu þvert á móti fremur góðan hag. Það var sagt, að reikningarnir gæfu ekki rjetta mynd. Jeg get ekki sagt um það; en ef svo er, þá finst mjer sveitarfjelögin ættu að senda sín skilríki til hlutaðeigandi ráðuneytis og bera fram sínar málaleitanir þann veg.

Þá ætla jeg það sje ekki nema síðasti liðurinn, sem snertir viðlagasjóðslánin, sem jeg tel mjer sjerstaklega viðkomandi. Það er 44. till. nefndarinnar, þar sem hún leggur til að fella niður lánveitingarheimild til spunavjelakaupa til nafngreinds manns hjer í bænum, sem hefir komið upp tóvinnuverksmiðju eða kembivjelum. Jeg get ekki fallist á ástæðuna, sem nefndin færir fyrir því, að ekki sje gerandi að veita þessa lánsheimild. Það er að vísu svo, að viðlagasjóður hefir veitt lán til einnar ullar- og dúkaverksmiðju hjer í nágrenni og á náttúrlega hagsmuna að gæta um það, að því fyrirtæki farnist vel. En jeg verð að segja, að það verður þá æðilangt að bíða þess, að upp komi hjer á landi sá ullariðnaður, sem fulltrúar bændastjettarinnar á Alþingi óska eftir, ef af þessum ástæðum, sem tilgreindar eru nú, má ekki rjetta öðru örsmáu fyrirtæki hjálparhönd á svipaðan hátt og gert hefir verið með flest ullariðnaðarfyrirtæki, sem hafa verið stofnuð hjer á landi, ef ekki öll. Þau hafa fengið aðstoð hins opinbera í þessari mynd, að veitt var til þeirra lán úr viðlagasjóði.

Þar sem svo mikið er enn innflutt af ullarvörum, þá get jeg ekki skilið, að rjett sje að álíta, að hætta verði að styðja þessi fyrirtæki af því að viðlagasjóðurinn sje kominn svo langt á þá braut, að ef hann færi lengra, væri hætt við, að samkepnin færi að baka honum fjártjón og koma þeim fyrirtækjum á knje, sem hann hefir áður upp komið.

Hins vegar, get jeg líka sagt það, að lánsheimildir eru ekki komnar svo margar, að ekki sjeu líkur til, að þeim verði öllum fullnægt. Og fje viðlagasjóðs er nú haldið algerlega aðskildu frá ríkissjóði. Það er ætlað til útlána einungis, og engin skynsamleg ástæða til annars en lána út gegn góðum tryggingum, það sem inn kemur í afborganir á hverju ári.

Vil jeg því heldur mæla með því, að þessi lánsheimild, sem var samþykt í hv. Nd., fengi að standa. Geri jeg heldur ráð fyrir, að hún verði spor í þá átt að auka ullarnotkun í landinu.

Aftur á móti verð jeg að segja um 45. till., sem er lán til Boga Brynjólfssonar sýslumanns til embættisbústaðar, að þar er farið inn á nýja braut. Þessi sýslumaður hefir búið í sínu eigin húsi í allmörg ár. Mjer skilst þetta því eiga að vera venjulegt fasteignaveðlán út á hús, sem þegar er til. Fjeð á ekki að nota til að koma neinu því í framkvæmd, sem nú er ógert. Þetta er, að jeg hygg, brot á þeirri. grundvallarreglu, sem hefir verið fylgt um viðlagasjóðslánin. Jeg get að vísu ekki haft neitt sjerstakt á móti því, að þessum sýslumanni væri veitt fasteignalán úr viðlagasjóði, ef ekki væri annað nauðsynlegra við fje hans að gera. En jeg bendi á þetta, að þótt heimilt hafi verið að lána sýslumönnum til embættisbústaða, hefir það verið gert til þess að koma upp húsum þar, sem sýslumaðurinn átti ekki hús áður og var erfitt eða ókleift að koma sjer upp viðunanlegu húsnæði.