27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1927

Ingvar Pálmasson:

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fjölyrða um brtt. háttv. fjvn. Sumpart þarf jeg ekki að minnast á þær og sumpart hefir það verið tekið fram af þeim, sem talað hafa, það sem jeg vildi sagt hafa.

Samt get jeg ekki látið hjá líða að minnast á brtt. nefndarinnar við 15. gr. Þegar maður lítur á þskj. 402, er það töluvert einkennilegt, hvað allar upphæðirnar eru jafnar.

Jeg lít svo á, að þegar um það er að ræða að veita styrki til listamanna — og jeg býst við, að flest af þessum till. við 15. gr. heyri undir það, — að það sje í mesta máta undarlegt, ef allir listamennirnir eru svo jafnir að hæfileikum, að það „passi akkúrat“ að láta þá alla þá jafnan styrk. Hæfileikar eru mismunandi, auk þess fjárhagur og aðstaða. Jeg vil sjerstaklega minnast á styrkveitinguna til Þórarins Jónssonar, sem fjvn. þessarar deildar hefir lagt til að lækka um 1000 kr. frá því, sem samþykt var í hv. Nd., og gera hann jafnan hinum. Því var ítarlega lýst í hv. Nd., að þessi maður er enginn hversdagsmaður. Jeg geri ráð fyrir því, að þessi hv. deild hafi kynt sjer, hvað þar hefir verið sagt. Jeg lít svo á, að ef Alþingi á annað borð sjer sjer fært að styrkja þennan mann, þá geti það varla boðið honum minna en 3 þús. kr. Þessi maður er kominn af bláfátækum foreldrum, á engin skyldmenni, sem geti rjett honum hjálparhönd. Það, sem hann er kominn, er að þakka góðvilja einstakra manna, sem kynst hafa hæfileikum hans. Þessir menn hafa nú þegar styrkt hann með fjárframlögum og ábyrgðum sem nemur alt að 11 þús. krónum. Jeg efa ekki, að einhverjir þeirra manna muni fúsir að styrkja hann enn, enda mun ekki af veita, ef hann á að ná því takmarki, sem hann stefnir að. Jeg held, að þingið hefði gert rjett í að klípa ekki af þessum 3000 krónum, því að hjer er um alveg sjerstaklega efnilegan mann að ræða, sem gæti orðið landi og þjóð til hins mesta sóma síðar meir.

Jeg skal ekki fjölyrða um aðra liði af þessu tægi. Hækkunina til Einars Markans tel jeg rjettmæta. Það stóð svo á í Nd., að klípa varð af upphæðinni til þess að till. kæmist að.

Það hefir verið minst á öldubrjótinn í Bolungarvík, og get jeg slept því að mestu. Þingið má ekki skilja svo við það fyrirtæki, að framkvæmdir falli niður, en það er víst, að Hólshreppur er ekki fær um að bera þennan kostnað. Mjer finst, þegar bornir eru saman þessir tveir liðir, hafnarbætur í Ólafsvík og öldubrjótur í Bolungarvík, kenna nokkurs ósamræmis, hjá nefndinni. Hún virðist kannast við, að Ólafsvíkurhreppur sje ekki fær um að leggja fram fje í bili, en sýnist álíta, að ef Hólshreppur geti ekki lagt fram fje, þá verði framkvæmdir að falla niður. Jeg mun ekki setja fót fyrir fjárveitinguna til Ólafsvíkurhrepps, en í trausti þess, að hinn liðurinn verði ekki feldur niður.

Þá skal jeg minnast á brtt. mínar á þskj. 418, og tek jeg þær í sömu röð og þær standa á þskj. Þá er fyrst till. um styrk til framhaldsnáms handa gagnfræðingum á Akureyri. Flyt jeg hana ásamt hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Hann hefir þegar talað svo rækilega fyrir till., að jeg hefi þar engu við að bæta, sem áhrif gæti haft. Læt jeg því nægja að vísa til þess, sem hann sagði.

Þá er næst athugasemd um, að af fje, sem í fjárl. er ætlað til barnaskólabygginga, gangi 12000 krónur til barnaskólans í Nesi í Norðfirði. Barnaskólabyggingar eru þær verklegar framkvæmdir, sem einna minst hefir verið sint í þessum fjárlögum, og í undanfarandi fjárlögum hafa fjárveitingar til þeirra verið svo smáar, að þeirra hefir ekki gætt. Þetta hefir verið afsakanlegt til þessa, vegna þess að fjárhagur ríkissjóðs hefir verið þröngur, tímarnir örðugir og byggingarefni í háu verði. Nú hefir þetta lagast töluvert. Efni hefir lækkað mikið, verkalaun nokkuð og fjárhagur ríkissjóðs kominn í sæmilegt lag. Jeg verð að ætla, að það stafi af einhverjum misskilningi, hve smáa upphæð hæstv. stjórn hefir sett í fjárlagafrv. í þessu skyni. Þegar litið er á, hve miklu fje er varið til þess að verjast berklaveiki, þá furðar mig, að stjórnin skuli ekki leggja meiri rækt við að koma upp barnaskólahúsum, sjerstaklega í sjóþorpum og bæjum. Það er mitt álit, og margir fleiri er sömu skoðunar, að einhver áhrifamesta orsök til útbreiðslu berklaveikinnar sje slæm húsakynni skólanna. Þau eru víða óforsvaranlega slæm. Jafnhliða því, sem varið er fje til að útrýma berklaveikinni, þarf að verja miklu meira en gert er til barnaskóla. Það er auðvitað gott og nauðsynlegt að fjölga sjúkrahúsum í landinu og reyna að bæta berklaveikum mönnum heilsuleysi þeirra. En hitt er ekki óskynsamlegra, að reyna að koma í veg fyrir það, að annarhver unglingur í landinu verði berklaveikur. Jeg hefði helst kosið að hækka þennan lið að miklum mun. Jeg hefði komið með brtt. í þá átt, ef jeg hefði búist við, að hún næði samþykki. Það kveður nú við, að fjárlögin sjeu orðin svo útlits, að ekki megi auka við tekjuhallann. Það getur samt verið talsverður ábyrgðarhluti að vanrækja svona framkvæmdir eins og barnaskólabyggingar og mikil hætta stafað af þeirri vanrækslu. Jeg hefi tekið það ráð að reyna að binda nokkuð af þessum styrk við ákveðinn skóla. Jeg þarf ekki að taka það fram, að knýjandi ástæður eru til þess að byggja barnaskóla á Norðfirði, og verður ekki hjá komist að framkvæma það verk. Barnaskólahúsið, sem þar er nú, er gott það sem það nær. Það er bygt 1910 og samsvaraði þörfum kaupstaðarins þá. En bærinn hefir vaxið svo síðan, að nú eru þar skólaskyld börn milli 80 og 90. Skólinn er aðeins tvær kenslustofur og ætlað rúm 15 eða 16 börnum í hvorri. Nú hefir þurft að hafa þar yfir 20 börn og auk þess tvísetja í báðar kenslustofurnar. Það má geta nærri, að þegar illa viðrar og ekki er hægt að loftræsa, þá muni ekki heilnæmt loft í þessum stofum, þegar búið er að kenna þar 10 tíma samfleytt. Um nauðsynina þarf því ekki að fjölyrða. Hún liggur í augum uppi. Því miður verður að játa, að þetta er ekkert einsdæmi, því víða mun ástandið vera eitthvað í þessa átt. Jeg býst við, að deildinni þyki ekki aðgengilegt að binda þessa fjárveitingu við einn skóla. En jeg vænti þess, að hún samþykki þá hækkunartill. á þessum lið, sem jeg mun bera fram við 3. umr., ef þetta verður felt.

Þá á jeg brtt. við 16. gr. 43, um skipulag bæja, þar sem jeg vil hækka fjárveitinguna úr 5000 kr. upp í 10000 kr. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að starf þetta gengur mjög seint, og er fjárskorti um kent. Nú stendur svo á, að hjer er fjöldi kauptúna, sem bygð hafa verið upp mjög óskipulega síðustu árin. Þessi kauptún eru í hröðum vexti og sama skipulagsleysið helst. Það væri mjög æskilegt, að á þetta kæmist gott skipulag sem fyrst. Með þeirri fjárveitingu, sem nú er, gengur þetta starf svo hægt, að það tekur líklega 20 ár. Af því leiðir mikið tjón, og vænti jeg þess, að háttv. deild fallist á að samþykkja þessa hækkun.

Till. nefndarinnar við 17. gr. er viðvíkjandi styrk til verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Þessi styrktarsjóður mun vera stofnaður 1919 eða 1920 með gjaldi, sem ákveðið var að greiða af andvirði botnvörpuskipa, sem seld voru út. Átti sjóðurinn að tryggja almenning, sem yrði fyrir mestri atvinnuskerðingu af þessari sölu. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, mun þessi upphæð hafa verið nokkuð yfir 100 þús. kr. og mun hafa verið skift þannig, að um 100 þús. kr. voru lagðar í þennan styrktarsjóð, en 20 þús. kr. munu hafa gengið til Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Einhverju af þessu fje var varið til bókasafns. Nú hefir þessi sjóður verið styrktur af bæjarsjóði Reykjavíkur og fjelagsmenn hafa lagt í hann, karlmenn 1 krónu og kvenmenn eitthvað minna. Mjer hefir verið tjáð, að víðsvegar af landinu njóti menn styrktar þessa sjóðs, því að meðlimir þessa fjelags eru dreifðir víðsvegar út um landið og styrkveiting ekki bundin við sveitfesti og uppruna. Mjer er einnig tjáð, að mjög mörgum hafi verið bætt tjón af slysum og veikindum, og þær upphæðir nemi miklu. Það virðist því, að þessi sjóður hafi orðið til mikils gagns og það sje full ástæða til, að Alþingi styrki hann áfram. Nú leggur þessi brtt. til að fella styrkinn niður, en í stað þess á aftur að koma 2 þús. kr. tillag til Sjúkrasamlags Reykjavíkur, til þess að vinna að því að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga á landinu og stofna ný sjúkrasamlög. Jeg lít svo á, að ekki sje rjett að svifta styrktarsjóð verkamanna þessum styrk, sem í fjárlögum stendur; en hins vegar tel jeg till. nefndarinnar eiga fullan rjett á sjer. Hefi jeg þess vegna borið fram brtt. við hana, sem hefir það sama inni að halda og brtt. nefndarinnar. en kemur bara inn á öðrum stað í fjárlögunum og gerir það að verkum, að styrkurinn undir 5. tölulið í 17. gr. fellur ekki burt. Vænti jeg þess, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja brtt. mína og að þessar 3500 kr. fái að standa áfram. Þar, sem sjúkrasamlögin hafa komist á fót, hafa þau gert afarmikið gagn. En því miður hafa þau víðast utan Reykjavíkur átt við erfiða kosti að bíta. Jeg tel nauðynlegt að veita fje til þess, að unnið verði að því að koma á sambandi milli þeirra, svo að þau leggist ekki af. Sumstaðar á Austurlandi veit jeg til, að gengið hefir illa að halda þeim uppi, mest að jeg hygg fyrir misskilning þeirra, sem styrks eiga að njóta. T. d. er sjúkrasamlag á Norðfirði, sem nú er orðið svo fáment, að það getur ekki notið styrks úr ríkissjóði. Fólkið skilur ekki gagnsemi þess. Jeg tek það enn fram, að jeg tel nauðsynlegt, að fjárveiting þessi nái fram að ganga, en hins vegar ótækt að veita hana á kostnað styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Geri jeg ráð fyrir, að hv. deild hafi nú skilið meiningu mína með þessari brtt. og vona, að hv. þdm. ljái henni fylgi sitt.

Þá kem jeg að brtt. við 18. gr. 2. i. 7. Það er fjárveiting til Nikólínu Bjarnardóttur ljósmóður. Það má segja, að þetta þing sje ljósmæðraþing, og er mjer óhætt að bera hv. Ed. þann vitnisburð, að hún hefir verið ljósmæðrum velviljuð. En þótt mest hafi borið á velvilja hennar til ljósmæðra á þessu þingi, hefir það einnig komið í ljós á undanförnum þingum, þannig að þingið hefir tekið að sjer allar júbilljósmæður á landinu. Þetta er mjög gleðileg viðurkenning frá Alþingi. Þó að þessar júbilljósmæður sjeu alls góðs maklegar, tel jeg samt sem áður geta komið til greina, að ástæða sje til að styrkja fleiri ljósmæður. Enda hygg jeg, að nú sje í fjárlagafrv. ein slík. Jeg veit, að það er af góðum rökum gert. Sú ljósmóðir, sem jeg ber fram, hefir ekki þjónað nema 40 ár. Hún hefir orðið að segja af sjer vegna þess, að hún er ófær til vinnu sem stendur, og sennilega hjeðan af, enda er hún 67 ára að aldri. Í apríl 1925 var hún sótt til ljósmóðurstarfa æðilangan veg; þurfti fyrst að fara sjóveg, en síðan á hesti. Þegar hún hafði skamt farið af landleiðinni, datt með hana hesturinn. Slasaðist hún mjög mikið, bæði herðablaðsbrotnaði og viðbeinsbrotnaði, og lá mest af síðastliðnu sumri. Verður hún aldrei jafngóð.

Jeg vænti, að þegar svona stendur á, sýni hv. deild sóma þessari öldruðu ljósmóður. Gott starf og mikið hefir hún af hendi leyst. Hún hefir tekið á móti á annað þúsund börnum, og hygg jeg, að ýmsar standi henni þar ekki framar, þótt þjónað hafi 50 ár. Þessi kona er einstæðingur, á ekki mjer vitanlega neitt nákomið skyldmenni, hefir aldrei gifst, en alið upp stúlku og dvelur nú í skjóli hennar. Þar sem þessi kona varð fyrir þessu stóra slysi við að gegna embættisskyldu, þá finst mjer þinginu ætti að vera ljúft og ríkissjóði skylt að veita henni lítilsháttar ellistyrk. Jeg fer ekki fram á nema 300 kr., þótt venjan sje að veita ljósmæðrum 500 kr. Er það af því, að jeg ætlast til, að sýslusjóður veiti henni einhver eftirlaun.

Næsta brtt. mín mun kannske þykja stórtækari. Þó eykur hún ekki halla fjárlaganna, aðeins heimild fyrir stjórnina að ábyrgjast lán. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. fjrh. (JÞ) sje frábitinn þessari heimild, og hefir hann sjálfsagt sín rök fyrir því. En jeg sje ekki neina ástæðu til að taka þetta svo mjög til greina; því að þetta er ekki nema heimild, og hann getur þá sýnt það í verkinu að framfylgja henni ekki, ef hún er honum mjög á móti skapi. Eins og á þskj. sjest, er farið fram á 80 þús. kr. ábyrgð fyrir rafveituláni í Neshreppi á Norðfirði. Það er nú talið töluvert varhugavert fyrir sveitarfjelög að leggja út í þessi fyrirtæki, og skal jeg ekki neita, að slíkt ber vel að athuga á undan framkvæmdum. En hjer stendur dálítið sjerstaklega á, sem jeg álít, að geri það að verkum, að hreppsnefndin er neydd til að hafa glögt auga með þessu atriði og verði neydd til að koma á almennri rafveitu áður langt líður. Eftir því sem mælingar hafa leitt í ljós, er ekki hægt að fá nægilegt vatnsafl nema með mjög mikilli vatnsmiðlun, og er mjög óvíst, að sú vatnsmiðlun sje framkvæmanleg. Er vatnsafl þetta, ef á annað borð gæti verið um það að ræða, í 11 km. fjarlægð frá kauptúninu. Af þessu hefir leitt, að nokkrir einstakir mann eru þegar búnir að koma upp rafveitu; eru þær þrjár sem stendur og ein af þeim aðeins notuð af einstökum manni; hinar selja afl. Nú vilja menn hvað af hverju fara að verða aðnjótandi gæða rafmagnsins. En það er álit okkar, að afl frá þeim stöðvum, sem nú eru, sje alt of dýrt. Það hefir stundum á undanförnum árum kostað kr. 2.50 kwst. Nú sem stendur mun það vera selt, eftir því sem jeg veit best, kr. 1.50. Til þess að fyrirbyggja þessa alt of dýru raflýsingu verður hreppsnefndin, hvort sem hún vill eða ekki, að reyna að koma á almennri raflýsingu. Það er langt síðan farið var að athuga þetta mál hjá okkur, en hingað til hefir strandað á því, að tilboð hafa altaf þótt alt of dýr, sem eðlilega stafar af því, að alt efni og vinna við þesskonar hefir verið í mjög háu verði. Í fyrra var 125 þús. kr. lægsta tilboð, sem við gátum fengið. Nú í vetur hefir komið tilboð um rafveitu með leiðslum og tilheyrandi upp á 65 þús. danskar krónur. Veit jeg ekki fyrir víst, hvort þessu tilboði hefir verið tekið. Síðast var mjer sagt, að ætti að svara tilboðinu endanlega 15. apríl. Jeg hefi símleiðis verið beðinn að láta vita um, hvenær ríkisábyrgð fæst til rafveitunnar. En hvort sem þessu tilboði hefir verið tekið eða hafnað, þá virðist mjer útlitið þannig, að það geti ekki verið nema tímaspursmál, hvenær við hefjumst handa og komum á almennri raflýsingu. Jeg geri ráð fyrir, hvernig sem fer, að þessi ábyrgð, sem hjer er farið fram á, muni nægja. Þótt svo kynni að fara, að mannvirki þetta kostaði meira, þá tel jeg engin vandkvæði á, að hreppurinn geti sjeð fyrir því. Jeg get líka gert mjer von um, að ábyrgðin þurfi ekki að vera svona há. En hún myndi sennilega ekki vera notuð hærri en þörf krefði, þótt jeg hafi hana svona háa til vara. Jeg skil ofurvel, að hæstv. fjrh. vilji fremur vera laus við slíkar ábyrgðir. Mun það sjerstaklega af því, að ábyrgðir kunni að leiða af sjer eftirgjöf og fjárútlát fyrir ríkissjóð. Jeg ætla engu að spá um það, hvernig mundi fara í þessu tilfelli. En ekki á jeg von á, að ríkissjóði muni koma ábyrgð þessi til gjalda. Þessi krafa okkar Norðfirðinga virðist ekki ósanngjörn, þegar þess er gætt, að nú 2 síðastliðin ár hafa tekjur ríkissjóðs af Norðfirði verið það miklar, að þessi upphæð mun nema tæplega 1/3 af þeim tekjum. Jeg verð að segja það, að úti um land mundi það þykja heldur óliðlegur landsdrottinn, sem ekki vildi ábyrgjast fyrir leiguliða sinn 1/3 af eftirgjaldi jarðar. Mjer finst þetta tvent dálítið hliðstætt, og þar sem þetta sveitarfjelag hefir mjólkað ríkissjóði eins vel og reynslan hefir sýnt, finst mjer þetta vera sanngirniskrafa. Eins og málið horfir við nú get jeg ekki sagt um, hvort ráðist muni verða í framkvæmdir á þessu ári. Það verður ekki í neitt ráðist fyr en búið er að rannsaka og undirbúa málið rækilega, og á því hefir aðallega staðið hingað til, að viðkomandi hreppsnefnd hefir viljað draga málið, þangað til efni og vinna fjelli í verði, en nú hygg jeg, að tvísýnt sje, hvort efni til slíkrar byggingar og vinna við hana falli úr þessu. Jeg hygg því, að nú verði unnið að því að fá tilboð í bygginguna og undirbúa hana. Um lán til fyrirtækisins get jeg ekkert sagt með vissu ennþá. Jeg hygg samt, að ekki sje vonlaust að fá það hjer á landi, en vextir hjer eru mjög óhagstæðir, og býst jeg við, að tilraun verði gerð til þess að fá lánið annarsstaðar að með vægari vöztum, en þá verður ábyrgð ríkissjóðs að vera á bak við.

Jeg vænti þess, að hv. fjvn. leggi ekki á móti þessu, bæði af því að jeg hugsa, að hún telji enga hættu á, að þetta muni verða ríkissjóði byrði, og einnig af því, að jeg býst við, að hún muni sjá það og viðurkenna, að nú er óumflýjanlegt að ráðast í þessa byggingu.

Vil jeg svo fela háttv. deild brtt. mínar og vona, að hún sýni þeim velvild.