14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

125. mál, seðlaútgáfa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir ástæða til að gera nokkra grein fyrir frv. þessu.

1. gr. frv. er ekki annað en samskonar ársfrestur á endanlegri skipun seðlaútgáfunnar og á þrem undanförnum þingum, og er því aðeins bráðabirgðaráðstöfun, sem er nauðsynleg meðan þessum málum er ekki ráðið til lykta. Nú hefir það enn ekki tekist, og er því þetta frv. fram komið.

2. gr. frv. er ný. Er hún þar komin vegna þess, að nú er inndrætti Íslandsbanka svo langt komið, að hann hefir ekki í umferð nema 5 milj. Verður því altaf meiri og meiri seðlaumferð Landsbankans, sem fer með seðlaútgáfuna fyrir hönd ríkissjóðs. Það má því segja, að nú sje seðlaútgáfan komin í hendur beggja bankanna. En seðlaútgáfunni fylgir sú skylda að halda uppi gjaldeyri landsins. Þarf oft fjárútlát til þess, enda hefir seðlabankinn vanalega arð af seðlaútgáfunni. Eftir núgildandi lögum hefir Íslandsbanki að því er þetta snertir stuðning af arði þeim, er seðlaútgáfan gefur, en Landsbankinn aftur á móti ekki, þar sem allur arðurinn af henni rennur í ríkissjóð. En þetta er óeðlilegt og órjettlátt, þar sem Landsbankinn hefir tekið að sjer þær skyldur seðlabankans að halda uppi gildi gjaldeyrisins. Ef arðurinn rennur í ríkissjóðinn, má líta svo á, að honum beri þá einnig að taka á sig skyldur seðlabankans. Í frv. er stungið upp á, að arðurinn verði lagður í sjerstakan reikning, til þess að vera tiltækur í því skyni, sem greinin hermir. Það er auðvitað sama og að arðinum megi verja til þess kostnaðar, sem Landsbankinn kann að hafa af því að halda uppi gjaldeyri landsins. Þetta er og bráðabirgðaráðstöfun, til þess að gera jöfnuð á aðstöðu Landsbankans til seðlaútgáfu ríkisins og aðstöðu Íslandsbanka til seðlaútgáfu sinnar.

3. gr. frv. fer fram á, að feldur verði niður frekari inndráttur á seðlum Íslandsbanka þetta ár. En eftir lögunum frá 1921 á hann að draga inn 1 miljón á ári. Það er þó ekki eftir ósk Íslandsbanka, að þetta er sett í frv., heldur eftir bendingu frá einum af bankastjórum Landsbankans, sem sjer fram á, að óþægindi muni leiða af inndrættinum sem stendur. Inndrátturinn hefir ekki aðra þýðingu en að Íslandsbanki verður skuldunautur Landsbankans fyrir jafnhárri upphæð og inndrættinum nemur, en Landsbankinn fær tilsvarandi seðlaupphæð frá ríkissjóði. En það mun valda óþægindum fyrir Landsbankann að fara lengra inn á þá braut að gerast lánveitandi Íslandsbanka meðan ekki er komið endanlegt skipulag á seðlaútgáfuna.

Jeg hefi gert grein fyrir brtt. á þskj. 590, sem fer fram á, að 3. gr. falli burt. Svo er hjer brtt. á þskj. 594 frá minni hl. fjhn., sem jeg skal um leið taka afstöðu til. Brtt. fer fram á, að í staðinn fyrir, að Landsbankinn á nú að greiða gjöld af seðlum í umferð 2% undir forvöxum, skuli hann greiða 2%. Það hafði komið til orða í Ed. að slaka þannig til, að bilið milli forvaxta og seðlagjalds hækkaði upp í 3%. Þetta var borið undir einn af bankastjórum Landsbankans, og benti hann á, að eini hemill í lögum á seðlaútgáfu hjer væri sá, að Landsbankinn yrði að greiða svo hátt gjald, að honum væri ekki gróði að því að gefa út seðla. Væri vikið frá þessu án gulltryggingar, væri úr löggjöfinni slept öllum hömlum á seðlaútgáfu, en það getur ekki talist rjett. Því síður væri rjett að samþykkja þessa brtt., þar sem með því væri seðlagjaldið fært enn þá. meira niður og seðlaútgáfan gerð arðvænlegri. En sjerhver aukning seðlaútgáfunnar ætti að heimta aukna gulltryggingu.