17.03.1926
Neðri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

15. mál, útsvör

Þorleifur Jónsson:

Jeg á ekki neinar brtt. við frv. að þessu sinni. Vil jeg þó leyfa mjer að gera fáeinar athugasemdir. Mjer finst engum efa bundið, að ýmislegt sje í þessu frv. mjög athugavert. Jeg gæti best trúað, að ekki liðu mörg ár þar til kröfur kæmu um breytingar, ef það yrði samþykt nú eins og það liggur fyrir.

Það er sjerstaklega eitt atriði, sem jeg vildi minnast á. Það er þessi skifting útsvaranna milli sveitarfjelaga. Jeg hjó eftir því hjá hæstv. atvrh., að hann sagði, að þetta fyrirkomulag væri þekt á Norðurlöndum og hefði gefist nokkurnveginn vel. Hjer fanst felast í orðunum, að hann væri ekki allskostar ánægður með þetta. Það er líka svo, að þetta fyrirkomulag er óþekt hjer, og þó að það kunni að eiga við í nágrannalöndunum, er óvíst, að það eigi við okkar landshætti. Ef skifta á útsvörunum milli sveita eftir ákvæðum frv., leiðir óhjákvæmilega af því vafstur og skriffinsku og tímatöf fyrir hlutaðeigandi sveitarfjelög, og jeg held, að þetta fyrirkomulag muni fljótt mæta óánægju.

Jeg skal nefna þann stað, sem jeg þekki best til, Hornafjörð. Þaðan er haldið úti bátum frá Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Norðfirði, Mjóafirði og Seyðisfirði, og jafnvel frá Eyjafirði. Jeg er hræddur um, að það verði tafsamt, þegar farið verður að heimta part úr útsvörum á öllum þessum stöðum. Jeg álít rjett að takmarka, að sveitum sje íþyngt vegna aðkomufólks, og það er gert í þessu frv. En þar sem atvinna er stunduð fleiri mánuði, tel jeg rjett, að sveitarstjórnir hafi leyfi til að leggja á hlutaðeiganda, eins og verið hefir. Hjer er aðalgallinn á frv. Þótt hæstv. atvrh. teldi þetta grundvallaratriði, sem ekki mætti missast, tel jeg, að það eigi að fara. Hinsvegar vil jeg geta þess viðvíkjandj brtt. hv. minni hl. allshn. (PÞ), á þskj. 127, við 8. gr. frv., þar sem talað er um skip, sem leggja afla á land og hvernig ná skuli af þeim útsvari, og er þar sagt, að útsvarsupphæðin megi aldrei hærri vera en sem svari 1% af verði afla, sem lagður hefir verið á land, að jeg tel þarna ekki nógu nákvæmlega til orða tekið og hefi það aðallega að athuga við þetta, að ekki verður sjeð af orðalagi brtt., hvort miða skal við verð aflans óverkaðs — þ. e. blautfisksverðið — eða hvort það á að miða við verð aflans í verkuðum fiski, þegar þetta 1% útsvar er reiknað út. Þetta bið jeg hv. minni hl. að taka til athugunar til næstu umræðu, hvort ekki megi orða þetta ljósar.

Þá vil jeg geta þess í sambandi við þetta, að það getur ekki komið til mála, að hægt verði að fallast á brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 125, um að láta slíka báta, sem leggja afla á land og dvelja í veiðistöðvum svo og svo lengi, sleppa alveg við að greiða útsvar. Það var að vísu til í lögum áður, að ekki mætti leggja útsvar á skip eða báta nema sjerstaklega stæði á. (PO: Þetta er hliðstætt því). Nei, enda var þá ekki um neina stórútgerð að ræða, þegar þetta var sett í lög; þá var ekki til nema smábátaútgerð (róðrarbátar), og var átt við það með þessum ákvæðum. Þá er og þess að gæta, að þeir, sem útgerð stunda í öðrum hjeruðum en þeir eiga heima í, njóta allra þeirra hlunninda, sem þau hjeruð hafa að bjóða, er þeir hafast við í, og auk þess geta þessir aðkomumenn valdið hjeraðsbúum ýmsum óþægindum með þarveru sinni. Jeg get t. d. tekið það fram, þessu til skýringar, að í Hornafirði þýðir nú alls ekki að fara á sjó á róðrarbátum síðan aðkomumenn fóru að stunda þaðan mótorbátafiski, en áður en þeir komu til, var þar góður afli oft og tíðum á róðrarbáta. Á róðrarbátunum stunduðu menn handfæraveiði, en nú þýðir ekki neitt að reyna með handfærum innan um alla línukássuna. Þá geta og þessir aðkomumenn orðið til þess að spilla eða eyðileggja önnur hlunnindi, sem þar eru, t. d. æðarvarð. Bátafjöldinn og alt það ónæði, sem af honum stafar, fælir fuglinn á brott af varpstöðvunum, svo eftirtekjan af varpinu verður minni eða alls engin. Það nær því engri átt að nema alveg úr lögum skyldu þessara manna til að greiða útsvar: jeg verð ákveðið á móti því.

Þá er enn eitt atriði, sem jeg vil fara um nokkrum orðum, þ. e., að jeg tel það töluvert óhagkvæmara að fela yfirskattanefndum að skera úr útsvarsþrætum, í stað þess að sýslunefndir geri það framvegis eins og hingað til. Þetta mundi t. d. verða mjög óþægilegt í framkvæmd í Austur-Skaftafellssýslu, ef menn þyrftu að sækja kærumál sín fyrir yfirskattanefndinni, sem þar er í Vestur-Skaftafellssýslu, í stað þess að geta skotið þeim til sýslunefndarinnar í Austur-Skaftafellssýslu. Það getur staðið svona á víðar, þar sem tvær sýslur eru um einn og sama sýslumann, að yfirskattanefndjn sje aðeins á einum stað. Jeg veit heldur ekki til þess, að sýslunefndir hafi farið þannig að ráði sínu í þessu, að það þurfi að taka af þeim það vald, sem þær hafa áður haft í þessum málum. Skattanefndir, sem eiga heima langt í burtu, hljóta að hafa verri aðstöðu að ýmsu leyti að úrskurða sanngjarnlega heldur en sýslunefndir. Þess vegna tel jeg skattanefndirnar miður hæfar til að fjalla um þessi kærumál.

Jeg hafði ýmislegt fleira að athuga, bæði við frv. og þær brtt., sem fram hafa komið við það, en af því að jeg á sjálfur enga brtt. og málið sjálft er svo stórt og umfangsmikið, að erfitt er að átta sig á því í skjótu bragði, læt jeg hjer staðar numið að þessu sinni.