01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1927

Ingvar Pálmason:

Jeg skal ekki vera langorður, því að jeg á aðeins eina brtt. á þskj. 457,XI, við 14. gr., um að hækka styrkinn til byggingar barnaskóla úr 20 þús. upp í 30 þús. kr. Við 2. umr. fjárlagafrv. flutti jeg brtt. þess efnis, að ákveðin upphæð yrði veitt til barnaskólabyggingar á Nesi í Norðfirði. Þessi tillaga var feld, og má vera, að gildar ástæður hafi verið fyrir því, þótt jeg gæti ekki sjeð þær. En það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. þá viðurkenning á því, að þó að upphæðin væri ekki áætluð hærri, mundi hún tæplega fullnægja þörfinni á byggingu barnaskóla yfirleitt. Jeg lýsti þessu að nokkru við 2. umr., og þá sjerstaklega á Norðfirði, og skal jeg ekki taka það upp aftur hjer. Það mun vera mjög víða svo, að bygging barnaskóla getur ekki dregist lengur. Ástæðurnar til þessa eru auðvitað erfiðleikar undanfarinna ára, fjárhagsörðugleikar bæði hjá sveitarfjelögum og ríkinu, og auk þess geysihátt verðlag á byggingarefnum. Það er því mjög eðlilegt, að þörfin komi greinilega í ljós nú, þegar framkvæmdir í þessu efni hafa svo að segja legið niðri mörg undanfarin ár, og kröfurnar verði háværar um að hafist sje handa til að bæta úr þessu.

Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að þörfin fyrir húsabætur á prestssetrum hefir nú verið fullkomlega viðurkend og altaf verið að hækka þann lið fjárl. frá ári til árs. Er þó þörfin á því sviði tæplega brýnni en bygging barnaskólanna. Jeg tel það mjög varhugavert að skera mjög við neglur sjer þessa upphæð til barnaskólabygginga, því að þar er mikið í húfi, að þeir sjeu í góðu lagi. Í skólunum á öll hin uppvaxandi kynslóð þessa lands að búa að miklu leyti um fjögra ára skeið, og því þarf ekki að lýsa, hve mikil hætta þjóðinni getur stafað af því að ala börn sín upp í óhollum og ófullkomnum húsakynnum. Því að svo sje nú komið með fjárl., að nokkur tekjuhalli sje á þeim orðinn, finst mjer jeg geta með góðri samvisku lagt það til, að þessi liður verði hækkaður. Hæstv. stjórn hefir líka sjeð sig knúða til að hækka hliðstæða liði, þrátt fyrir hið illa útlit með fjárlögin.

Jeg skal geta þess, að þó jeg fari fram á þessa hækkun, geri jeg það ekki aðeins vegna þess sjerstaka skóla, sem áður er nefndur, heldur og einnig vegna þess, að, jeg veit, að þörfin er bæði mikil og álmenn fyrir styrk til slíkra bygginga. Hinsvegar vænti jeg þess, verði þessi till. samþykt, að það hjerað, sem jeg ber sjerstaklega fyrir brjósti, standi þá nær með að fá styrk af þessari fjárveitingu. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta, en vona, að hv. deild kannist við sanngirni þessarar brtt.

Um aðrar brtt., sem liggja fyrir, sje jeg ekki ástæðu til að tala, en læt nægja að sýna afstöðu mína við atkvgr. Við 2. umr. flutti jeg, eins og hv. deildarmenn muna, till. um að heimila stjórninni að ábyrgjast alt að 80 þús. kr. rafveitulán til Neshrepps. Till. var feld, og jeg sá ekki vænlegt að taka hana upp aftur lækkaða. En jeg minnist á þetta nú af því, að það kom fram í ræðu hv. frsm. fjvn., að honum virtist það nokkuð hár skattur á íbúum kauptúnsins, sem eru um 1000, sem þeir tækju á sig með því að ráðast í þetta fyrirtæki, og taldist honum svo til, að það yrðu um 80 kr. á nef að jafnaði.

Í sambandi við þetta vil jeg benda hv. frsm. á hvort honum þyki það ekki nokkuð hár skattur á þessum mönnum, að þeir greiða nú í tollum og sköttum til ríkissjóðs sem nemur um 240 kr. á nef að jafnaði. Honum þykir þetta ef til vill ótrúlegt, en það er nú tilfellið, svo mjer blöskrar það alls ekki, þó að ráðist væri í fyrirtæki, sem mundi kosta 80 kr. á nef.

Jeg segi þetta ekki af því að jeg sje að berja lóminn fyrir lönd Norðfjarðar, enda er ekki ástæða til þess. Jeg álít þvert á móti, að kauptúnið sje svo stætt fjárhagslega, að það geti jafnvel ráðist í þetta fyrirtæki án ábyrgðar ríkissjóðs, en hinsvegar var þess að vænta, að hægt hefði verið að ná betri vaxtakjörum á lánum til fyrirtækisins, ef ábyrgðin hefði verið veitt. Jeg álít sem sje, að það hefði ekki verið neitt gustukaverk, en hinsvegar sanngjarn stuðningur af ríkisins hálfu við svo þarft fyrirtæki, ef það hefði orðið til þess, að hægt hefði verið að ná betri vaxtakjörum en annars.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. Við 2. umr. var tekin aftur svipuð till. frá hv. þm. Vestm. Hefir hann nú flutt hana breytta við þessa umr., og skal jeg lýsa því yfir strax, að jeg mun fylgja henni, því að jeg álít hana sanngjarna, þó að það sje vafasamt, hvor aðilinn. Vestmannaeyjar eða Norðfjörður, eigi að ganga fyrir. Hins vegar mun jeg, ef þessi heimild handa Vestmannaeyjum verður samþykt, reyna að gera ráðstafanir til þess, að svipuð heimild handa Norðfirði komist að við eina umr. í hv. Nd. Jeg bið svo hv. deild velvirðingar á því, að jeg fór út fyrir efnið um till. mína á þskj. 457, en það var af því, að mjer gafst ekki tækifæri að svara hv. frsm. við 2. umr., en mjer þótti hlýða að láta þessi orð falla yfir moldum till. minnar um ábyrgðarheimildina, sem þessi hv. deild feldi. Að öðru leyti mun jeg láta mjer nægja að sýna afstöðu mína við atkvgr.