27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1882)

21. mál, lokunartími sölubúða

Sigurður Eggerz:

Þetta frv. mun nú hafa verið samþ. 3 sinnum í háttv. Nd., en hinsvegar hefir það víst tvisvar verið felt hjer í þessari háttv. deild. Nú víkur þessu máli dálítið öðruvísi við en áður, er nú hafa tveir nýir menn tekið sæti í þessari háttv. deild, svo að hún er nú dálítið á annan veg skipuð en áður. Þá ber og að íhuga það, að þetta mál er sýnilega mikið áhugamál í háttv. Nd., er hún fylgir því fram með jafnmiklu kappi og raun ber vitni. Það er því sjálfsagt, að þessu máli verði hjer sýnd sú athygli, að það fái að ganga til nefndar og verða þar rækilega athugað, til þess að það verði ljóst, hvað liggur á bak við þetta mál, sem háttv. Nd. leggur svo mikinn áhuga á. Jeg hefi heldur aldrei getað skilið, hvernig á þeirri mótstöðu stendur, sem þetta mál hefir mætt hjer undanfarið í þessari háttv. deild. Jeg hefi talið þessa kröfu rakaranna mjög eðlilega, og jeg hefi talið það sjálfsagt og eðlilegt, að bæjarstjórnin hefði heimild til að setja reglur um lokunartíma þessara búða eins og annara, enda er og fordæmið til um þetta, þar sem eru hinar almennu sölubúðir.

Mjer finst sjálfsagt, að tillit sje tekið til þessarar kröfu rakaranna, sem hefir komið fram með svo miklum krafti, að það er augljóst, að þar hlýtur eitthvað það að liggja á bak við, sem skiftir máli fyrir þessa stjett. Hinar stærri rakarabúðir, þar sem margir menn eru í vinnu, geta ekki haldið áfram starfsemi sinni, vegna þess að menn munu eigi fást til að vinna þar, ef vinnutíminn er óhóflega langur. En það skiftir mjög miklu máli, að þar sje alt í góðu lagi, ekki síst hvað hreinlæti snertir og annað, sem almenning varðar, á þessum stöðum, sem hafa mikil viðskifti við almenning. Jeg legg því áherslu á, að þessu máli verði veitt viðeigandi athygli, og tel það sjálfsagða kurteisisskyldu gagnvart háttv. Nd. að láta þetta mál ganga til nefndar og að það verði þar athugað vel.