27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (1910)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg tel sjálfsagt, að allshn. athugi fyrir 3. umr. löggjöfina um sjóveð í skipum, eins og hæstv. atvrh. (MG) hefir farið fram á. En út af því, sem hann sagði, vil jeg geta þess, að aldrei verða lögveð látin hrúgast á skipin. Það er aðeins þegar skipin þurfa að fá afgreiðslu á þeim tíma, þegar erfitt er að ná inn gjöldum hjá þeim, að þessu ákvæði er beitt. Jeg held ekki, að þetta sje neitt hættulegt, enda kemur það alls ekki til mála með stærri skip, t. d. togara. Þeir hafa skrifstofur í landi, og gjöldin eru greidd jöfnum höndum. Um erlend skip er það að segja, að þau yrðu látin greiða sín gjöld áður en þau færu. Það liggur í hlutarins eðli, að það er skipunum til mikilla hlunninda að kyrsetja þau ekki, hvernig sem á stendur, en gjöldin verða innheimt jöfnum höndum, þegar það er hægt.