08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Gunnar Ólafsson:

Jeg skrifaði undir nál. þetta með fyrirvara, eins og þskj. 528 ber með sjer, og með því hafði jeg aðallega fyrir augum, að ef brtt. á sama þskj. verður ekki samþ., þá myndi jeg vera hneigður til að vera á móti frv., en jeg skal geta þess, að í sjálfu sjer er jeg mótfallinn allri einkasölu yfirleitt, alstaðar þar sem hjá því verður komist, en þó jeg vilji ekki fara út í það mál hjer eða tildrög þess, þá er óhætt að geta þess, að á söluumboði þessarar vöru hafa orðið nokkuð mikil mistök. Það er auðvitað, að það kemur hjer með að fá vöruna ódýrari, og ekki síður þetta, að bændur eru afar óánægðir yfir því að hafa ekki alveg tökin á sölu þessa áburðar; jeg segi, að þeir sjeu óánægðir með þetta, en þar með segi jeg ekki, að sú óánægja sje á neinum rökum bygð, jeg held, satt að segja, að hún sje meira bygð á misskilningi, eða að óánægjan hafi komið út af þeim mistökum, sem urðu í þessu tilfelli. Mín skoðun er sú, að þetta hefði mátt laga alt saman með góðu, án íhlutunar löggjafarvaldsins, en úr því að svo er nú komið sem komið er, og þegar það nú liggur í loftinu, að Búnaðarfjelag Íslands geti innan skamms tíma fengið þetta einkasöluumboð, þá vil jeg fyrir mína parta ekki standa á móti því. Jeg vil nefnilega hjálpa þar til, að þessi áburður fáist svo ódýr sem frekast er hugsanlegt, að hann geti fengist, því að það er öllum ljóst, að það er eitt af meðulunum til að stuðla að jarðræktinni og þá um leið að velgengni þeirra, sem þá atvinnu stunda, en jeg skal ekki fara lengra út í þetta mál; jeg hefi aðeins lýst afstöðu minni til þess og læt það nægja.