09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2025)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Mjer kom það undarlega fyrir sjónir, þegar hv. meiri hl. allshn. vildi ekki fallast á þetta frv. Í fyrsta lagi af því, að það eru svo augljósar ástæður, sem mæla með því, að Hafnarfjörður verði sjerstakt kjördæmi, ef aðeins er litið til annara kaupstaða á landinu, sem eru sjerstök kjördæmi. Jeg fæ því ekki sjeð, að hægt sje með rökum að mæla á móti því, að Hafnarfjörður verði gerður að sjerstöku kjördæmi. Háttv. meiri hl. allshn. fjelst ekki á það, að sá munur sje á atvinnuvegunum í Hafnarfirði og hjeruðunum umhverfis, að skiftingin verði óhjákvæmileg af þeim sökum. Hv. meiri hl. hlýtur þó að vita, að atvinnuvegirnir eru talsvert ólíkir í Hafnarfirði og í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Í Hafnarfirði er mestmegnis rekin verslun og stórútgerð, og nær allir íbúar þess kaupstaðar eru daglaunamenn, þ. e. sjómenn eða verkamenn. En í sýslunum báðum eru smá-atvinnurekendur yfirgnæfandi, þ. e. bændur eða útvegsmenn (smábáta-útgerð). Þetta er því ekki sambærilegt, og þessvegna verður því ekki haldið fram með neinum rökum, að mismunandi atvinnuhættir geri ekki skifting kjördæmisins nauðsynlega.

Og því fremur verður skiftingin rjettmæt, er það er á allra vitorði, hv. meiri hl. líka, að atvinnuvegirnir í þessum sýslum, sjerstaklega í Gullbringusýslu, hafa á síðustu áratugum breytst mjög og eru enn að breytast. Sjávarútvegurinn gengur þar úr sjer, en landbúnaður færist í aukana.

Hitt var, að atvinnuvegir í Kjósarsýslu voru áður ólíkari atvinnuvegum Gullbringusýslu, en þetta er nú að færast í það horf, að mismunurinn, sem þar var, er að hverfa. Þessvegna er það sanngjarnt, að Gullbringu- og Kjósarsýsla hafi einn og sama þingmann, því þó að það sje rjett, sem hv. frsm. meiri hl. (PO) sagði, að í einum hreppi í Kjósarsýslu væri rekin stórútgerð (í Viðey), þá eru þar alveg sjerstakar ástæður til þess. Það er nálægð Reykjavíkur og ekkert annað, sem hefir orðið til þess, að þarna var hafin útgerð.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að málið væri varhugavert, af því það væri svo illa undirbúið. Jeg ætla þá að benda á annað samaháttar mál, sem ekki var betur undirbúið og náði þó samþykki þingsins á sínum tíma. Það er skifting Húnavatnssýslu í tvö kjördæmi. Á þeim þingum, sem það mál var rætt, voru allir nokkurnveginn sammála um það, og þó var það upplýst í umræðunum, að töluverður munur var á íbúafjölda í kjördæmunum eftir skiftinguna, Það er því alveg sambærilegt við mannfjöldann í Gullbringu- og Kjósarsýslu annarsvegar og í Hafnarfirði hinsvegar. Í Hafnarfirði eru nú nær 3000 íbúar, en í báðum sýslunum til samans um 4000. En hitt er að vísu rjett, að þá yrði Gullbringu- og Kjósarsýsla með mannflestu einmenningskjördæmum á landinu, en það er í sjálfu sjer ekki næg ástæða á móti skiftingunni. Jeg gerði ekki ráð fyrir því í frv., að Gullbringu- og Kjósarsýsla hjeldi tvo þm., en úr Hafnarfirði bættist einn nýr þm. í hópinn, því jeg hugði, að ef frv. væri þannig úr garði gert, mundi það mæta meiri mótspyrnu en ella.

Svo jeg víki aftur að því, sem gerðist á þinginu 1922, þegar skifting Húnavatnssýslu var samþykt, þá var þar enginn ágreiningur um það mál. Það var samþykt út úr Nd. með 17 shlj. atkv. — ekkert mótatkvæði. Að vísu var einn maður í allshn. Nd., sem hafði nokkra sjerstöðu í því máli, enda þótt hann ekki berðist á móti skiftingunni. Undirbúningur þess máls var þó, samkvæmt því, sem upplýst var við umræðurnar í Ed., aðeins tvær þingmálafundarsamþyktir, og þó hann væri ekki meiri en þetta, náði málið samþykki Alþingis, vegna þess að það var talið vera sanngirnismál. Af sömu ástæðum tel jeg, að hið háa Alþingi geti heldur ekki í þetta sinn vísað þessu frv. mínu á bug.

Mitt frv. er mun betur undirbúið en umrætt frv., því hjer liggur fyrir áskorun samþykt af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, og svo álít jeg þar fyrir utan, að hver þingmaður eigi að gera upp með sjálfum sjer, hvort málið sje rjettmætt eða ekki, og jafnvel þó að mótmæli hefðu komið fram úr Gullbringu- og Kjósarsýslu, sje jeg ekkert á móti því, að skiftingin færi fram samt, því jeg sje ekki betur en að allar ástæður mínar með þessu frv. sjeu mun betur rökstuddar en það, sem borið var fram til stuðnings skiftingu Húnavatnssýslu, sem enginn ágreiningur varð um og var samþykt í Nd. með shlj. atkv. og afgreitt frá Ed. nær því á sama hátt, (með 9:1 atkv.).

Jeg læt mjer svo nægja þessa rökstuðningu að sinni og endurtek aðeins, að jeg tel ástæðurnar fyrir frv. svo ríkar, að það eigi að samþykkjast viðstöðulaust, enda hefir hv. frsm. meiri hl. (PO) alls ekki getað hnekt þeim.