01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2044)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Björn Kristjánsson:

Frv. þetta er borið fram af háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), og eftir því, sem hann segir, samkvæmt ósk bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði. Jeg ætlaði að fá að sjá þessa ályktun bæjarstjórnarinnar, en gat það ekki, því að hún var sögð töpuð. Get jeg því lítið um þetta mál sagt.

Það er ekki nema eðlilegt, að Hafnfirðingar óski eftir að fá sjerstakan þingmann, þar sem Hafnarfjörður er orðinn annar stærsti kaupstaður landsins.

Jeg hefi nú ekki orðið var við, að aðrir hlutar kjördæmisins óski eftir þessu, og þar sem Hafnarfjörður er þó ennþá í minni hluta að því er snertir kjósendafjölda, væri vitanlega æskilegt að fá álit kjósenda sem víðast úr kjördæminu.

Í Gullbringusýslu eru nú 1082 kjósendur, í Kjósarsýslu 577. Er þannig í báðum sýslunum 1659 kjósendur. En í Hafnarfirði eru þó ekki nema 1336 kjósendur. Eru sýslurnar þannig í töluverðum meiri hluta. Verður því að sjálfsögðu að taka töluvert tillit til óska þeirra, — en þær liggja engar fyrir. Aftur á móti hefir sýslunefndin í Gullbringu- og Kjósarsýslu í tilefni af þessu máli samþykt á aðalfundi sínum svohljóðandi tillögu:

„Að gefnu tilefni mótmælir sýslunefndin því, að Hafnarfjarðarkaupstaður verði gerður að sjerstöku kjördæmi við kosningar til Alþingis, án þess að álits kjósenda sýslnanna sje leitað um slíka breytingu, sem alls eigi ætti að komast í framkvæmd nema að því fulltrygðu, að sýslurnar hefðu eftir sem áður 2 þingmenn.“

Þetta er þá álit sýslunefndanna á málinu. Jeg get nú ekki sjeð, eftir því sem þessu kjördæmi er háttað, að hægt sje að bæta úr þessum óskum Hafnfirðinga á annan hátt en með breytingu á allri kjördæmaskiftingu í landinu, eða þá að Alþingi vilji ganga inn á að bæta við einum þingmanni fyrir Hafnarfjörð. Læt jeg svo háttv. deild ráða, hvernig hún fer með málið.