29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

40. mál, yfirsetukvennalög

2163Einar Árnason:

Jeg þarf ekki miklu að svara því, sem fram hefir komið í ræðum hv. þdm. síðan að jeg settist niður. Það eru að eins útreikningar mínir, sem valdið hafa einhverjum misskilningi, og virðist þá helst koma fram um þá, að jeg hafi lært reikning á aðra bók heldur en þeir hafa gert, hv. þm. Snæf. (HSteins) og hv. frsm. (GunnÓ). Jeg sje því ekki betur en að jeg verði að taka upp aftur útreikninga mína, svo þetta atriði verði þessum hv. þm. ljósara, því þeim hefir ekki tekist með þeim rökum, sem þeir þóttust bera fram, að sannfæra mig um, að jeg hafi ekki rjett fyrir mjer.

Jeg sagðist hafa athugað lægstu launin, hvað þau gætu komist hæst, en jeg mintist ekki á meðallaun.

Eftir lögum frá 1919 eru lægstu launin 200 kr. og geta hækkað upp í 275 kr., og er sú hækkun miðuð við 25 kr. í hvert sinn í þrjú skifti.

Þá athugaði jeg, hvað lægstu launin geta komist hæst nú. Í brtt. nefndarinnar stendur: „Laun yfirsetukvenna skulu vera 300 krónur á ári og hækka 3. hvert ár um 50 krónur upp í 500 krónur.“ Og í næstu málsgrein á eftir segir svo: „Á laun þessi greiðist dýrtíðaruppbót eftir þeim reglum, sem gilda um starfsmenn ríkisins.“

Ef dýrtíðaruppbót er reiknuð 60%, sem ekki er hátt áætlað, þá verður hún (af 500 kr.) 300 krónur og geta þá lægstu launin komist upp í 800 krónur á ári samkv. brtt. nefndarinnar.

Þá kem jeg að frv. þar er gert ráð fyrir, að lægstu laun geti orðið 700 kr. og með 60% dýrtíðaruppbót komast þau þá upp í 1120 krónur. þegar menn nú athuga, að 275 kr. laun eins og þau eru nú samkv. lögum frá 1919 geta t. d. með því, sem frv. fer fram á, hækkað upp í 1120 krónur, þá er launahækkun orðin yfir 300%.

Það má vera, að það, sem skakkar hjer á milli í útreikningum okkar hv. þm. Snæf. (HSteins), sje það, að hann vildi ekki einhverra orsaka vegna telja dýrtíðaruppbótina laun, en það geri jeg, því hún er jafngóðir peningar og þeir, sem fengnir eru með föstum launum.

Jeg er þess fullviss, að það er ekki hægt með neinum rökum að hnekkja því, að minn útreikningur sje rjettur, svo jeg þarf ekki að dvelja við þetta atriði frekar en orðið er. Og um málið að öðru leyti þarf jeg litlu við að bæta, þangað til að það verður hrakið, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni.

Hv. frsm. sagði, að jeg væri ekki á móti brtt. En þó jeg greiði atkv. með þeim, þá er það af þeirri einföldu ástæðu, að mjer er farið eins og líklega flestum öðrum mönnum, að af tvennu illu kýs jeg það fremur, sem að mínum dómi er þó skárra, þó jeg sje alls ekki ánægður með það. Hinsvegar lofa jeg engu um það, hvort jeg greiði atkv. með frv. út úr deildinni eða ekki.

En því er jeg fylgjandi að greiða dýrtíðaruppbót af þeim launum sem nú eru greidd, samkv. lögum frá 1919.