31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

40. mál, yfirsetukvennalög

Einar Árnason:

Jeg skal nú ekki tefja tímann lengi. Því var haldið fram við 2. umr. þessa máls, og hefir verið haldið fram nú, að yfirsetukonur hafi orðið harðast úti, er launalögin frá 1919 voru samin. Mjer dettur ekki í huga að neita því, að þetta sje rjett, og vil nú sýna það í verkinu, með því að bæta launakjör þeirra um fullan þriðjung. En það verður í þessu tilfelli að bera laun þeirra saman við laun annara starfsmanna ríkisins, og liggur þá beinast við að bera saman við laun barnakennara í sveitum. þeir hafa orðið að eyða 2–4 árum til þess að afla sjer undirbúningsmentunar og verða að starfa samfleytt 6 mánuði ársins. Laun þeirra eru 300 krónur, að viðbættri 60% dýrtíðaruppbót, og er það 480 kr. Auk þess fæði í 6 mánuði, sem í sveitum reiknast ca. 500 kr. þá eru laun þeirra samtals 980 kr., eða 180 kr. hærri en laun yfirsetukvenna í sveit, eftir frv. Þó held jeg, að starf barnakennara og ljósmæðra í sveit sje ekki sambærilegt. Hv. 3. landsk. (JJ) benti á þá leið, að sameina umdæmin og stækka þau. Þá leið vil jeg ekki fara og álít hana lakasta neyðarúrræði. Ferðalög eru svo erfið í sveitum á vetrum, að tjón gæti stafað af, ef umdæmin væru mjög stór. En ef umdæmin eru lítil, er starfið lítið, og þurfa því launin ekki að vera eins há.

Hæstv. fjrh. (JJ) taldi ekki nógu ljóst orðað í brtt. okkar, hvort dýrtíðaruppbótin ætti aðeins að greiðast á ríkissjóðsframlagið eða á öll launin. En það er ljóst, að hún á að greiðast af öllum laununum. Hún er sniðin eftir tilsvarandi grein í lögunum um laun barnakennara, en barnakennarar fá laun sín að hálfu úr sveitarsjóði, en að hálfu úr ríkissjóði. En sú grein hefir aldrei valdið misskilningi. Ríkisjóður hefir borgað dýrtíðaruppbót af öllum laununum.

Þá er ljósmóðurfæðin. Það má vera, að það vanti ljósmæður, og er það allþung röksemd með því, að hækka beri launin. En jeg hefi ekki trú á því, að úr því verði bætt með 2–3 hundruðum. Það munu og vera aðrar ástæður, sem valda þessu, en launaspursmálið. Landlæknir mun vera borinn fyrir því, að ljósmæðraskólinn útskrifi nógu margar ljósmæður. En hvað verður um þær? Þetta eru ungar og ógiftar stúlkur, sem vita, að hvaða launakjörum þær hafa að hverfa, er þær ganga í skólann. En því hverfa þær frá fyrirætlun sinni, þegar þær eru búnar á skólanum? Ástæður geta verið margar, meðal annars giftingartækifæri. Jeg áfellist þær ekki, þó að þær taki slíkt fram yfir hitt. En jeg hygg, að þær sitji sig ekki úr færi með að gifta sig, hvort sem launin eru hækkuð um 2–3 hundruð krónur eða ekki.