26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

83. mál, útrýming fjárkláða

Bernharð Stefánsson:

Jeg vil tjá hv. nefnd þakkir fyrir það, að hafa tekið þær bendingar til greina, sem jeg gaf henni við 2. umr. málsins, því hv. nefnd flytur nú brtt., sem ganga í sömu átt og jeg óskaði.

Eins og jeg hjelt fram við 2. umr. álít jeg aðeins tvær skynsamlegar leiðir í þessu máli:

1. að láta sitja við það, sem nú er, í nokkur ár.

2. að gera gangskör að útrýmingu fjárkláðans, í því formi, sem frv. fer fram á. En nú eru komnar fram brtt. á þskj. 420, er mjer finst miða að því að fara hjer mitt á milli, svo að framkvæmdin yrði tómt kák. (ÁJ: Heyr!). Get jeg því ekki greitt þeim brtt. atkvæði.

1. till. er um það, að útrýmingarböðun skuli því aðeins fara fram, að skoðun hafi sýnt, að mikil brögð sjeu að kláða í landinu. En skoðunin mundi ekki sýna hið sanna í þessu efni, einkum ef hún færi fram á þeim tíma, sem ráðgert er í till., því kláðinn kemur vanalega fyrst fram seinna. Þessarar skoðunar er og varla þörf, því upplýsingar eru um það, að kláðinn sje í mörgum sýslum. Hv. 2. þm. Skagf. (JS) vjek og að því, að enda þótt skoðun væri framkvæmd á heppilegasta tíma, þá er hún aldrei ábyggileg. Og til þess að ganga úr skugga um, að ekki sje maur á kind, þarf svo nákvæma skoðun, að hún verður ekki framkvæmd, svo að ábyggilegt sje. Því að maur getur verið á kind, þótt hún sje ekki orðin sýkt af kláða.

Ver lýst mjer þó á till. á þskj. 420 um að undanþiggja vissa hluta landsins. Það er engin trygging fyrir því, að kláðinn geti ekki leynst þar. Og þá er ver á stað farið en heima setið, að leggja í mikinn kostnað til útrýmingar, en gera þó ekki það, sem hægt er, til að sigrast á kláðanum. Jeg skil ekki, að hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og hv. þm. V.-Sk. (JK) geti ábyrgst, að enginn kláðamaur sje í þeirra hjeruðum.

brtt., sem á mestum rökum er bygð, er till., hv. þm. Str. (TrÞ), um að fresta megi böðun vegna yfirvofandi fóðurskorts, það er veruleg ástæða, sem sjálfsagt er að taka til greina. En sá galli er á henni, að hún er brtt. við brtt., sem ekki má samþ. Jeg get því ekki greitt henni atkv., en mun koma fram með skriflega brtt. við frv. sjálft, sem gengur í sömu átt og till. hv. þm. Str. (TrÞ).

Þá er komin till. um að vísa málinu til hæstv. stjórnar. Þótt jeg álíti, að mikil nauðsyn sje á því að hefjast handa, álít jeg betra að taka það ráð, að vísa málinu til stjórnarinnar, heldur en samþykkja brtt. á þskj. 420. Þó sú leið verði tekin, sýnist mjer, að framkvæma megi böðunina á sama tíma og frv. gerir ráð fyrir, ef lög um það yrðu samþ. á næsta þingi, og er þá ekki mikill skaði skeður, þótt málið yrði ekki afgreitt nú, og er það vænlegra heldur en að stórspilla því, eins og gerð er tilraun til með brtt. á þskj. 420. En verði þær brtt. feldar, mun jeg greiða atkv. með frv.