29.04.1926
Efri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

83. mál, útrýming fjárkláða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. þetta er flutt af landbn. hv. Nd., og jeg held, að landbn. beggja deilda hafi unnið í sameiningu að undirbúningi þess. Þessvegna tel jeg hæpið, að vísa þurfi því til nefndar hjer, en legg það á vald hv. deildar.

Ástæðan til þess, að frv. er fram komið, er sú, að skæðasti fjársjúkdómur; er við höfum átt við að stríða, breiðist nú út um landið, er magnaður í einni sýslu þetta ár, en brýst svo út í annari á næsta ári. Reynslan hefir nú sýnt, að þrátt fyrir það, þótt kláðanum sje haldið í skefjum um nokkur ár með böðunum, gýs hann upp aftur og fer þá eins og logi yfir akur. Á síðustu 4 eða 5 árum hefir þessi faraldur gengið um flestar sýslur landsins, en eins og stendur mun hann vera einna skæðastur í Dalasýslu. Um 100 þús. kr. hefir það kostað ríkissjóð á síðustu 5 árum að halda kláðanum í skefjum, og hefir hann þó ekki lagt annað til en baðlyfið, þar sem kláða hefir orðið vart, þessvegna er það skoðun margra, að það mundi borga sig fyrir ríkissjóð að leggja fram allháa upphæð til útrýmingarböðunar, til þess að reyna að útrýma þessum sjúkdómi, sem mjög hefir staðið fyrir þrifum landbúnaði vorum í ýmsum sveitum landsins. Þó má ekki gera sjer alt of miklar vonir um, að takast muni að reka þennan vágest alveg af höndum, en kláðanum má þó halda í skefjum, það sýndi almenna böðunin, sem fram fór laust eftir aldamótin.

Það hafa komið fram raddir frá þeim sýslum, sem engan kláða hafa, að þær skuli undanþegnar skylduboði. En slíkt er fjarstæða, því eins og kunnugt er, gengur fje saman á afrjettum, svo enginn getur með vissu sagt, hvenær röðin kemur að þeim sveitum, sem nú eru ósýktar. Jeg veit ekki sem stendur nema um tvær sýslur, Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjar, sem talið er, að lausar sjeu við kláða. Gæti þá komið til mála að ívilna þeim, eins og t. d. með því að láta þar fara fram 2 baðanir í stað 3 annarsstaðar. En að baða þar alls ekki, finst mjer ekki koma til neinna mála.

Þær raddir voru uppi í hv. Nd., að frv. væri tæplega nógu vel undirbúið, og bent á í því sambandi, að engar skýrslur lægju fyrir um það, hvað víða kláðinn væri. Jeg geri lítið úr þessu. Mjer er kunnugt um, að kláðinn er víða að breiðast út sem stendur, og frá gamalli tíð þekki jeg, hve óðfluga þessi faraldur breiðist yfir. Í vetur hefir ekki mikið borið á honum, enda tíðin góð og fjeð lífið í húsi, en versti tíminn er líka eftir, þegar fer að vora og hlýna í veðri.

Ef einhverjir vilja, að málinu sje vísað til nefndar, hefi jeg ekkert á móti því, en tel það óþarft.