11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

83. mál, útrýming fjárkláða

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hjelt vissulega, að þessu máli lægi meira á en út lítur fyrir, að háttv. landbn. álíti. Jeg verð að segja, að jeg varð talsvert hissa, þegar jeg sá, að háttv. landbn. var sammála um að telja enga þörf á að flýta þessu máli, og það lítur út fyrir, að henni þyki ekki vera komnar nægar umkvartanir yfir kláðanum. Þó að það megi að vísu finna eitthvað að undirbúningi þessa máls, hjelt jeg þó, að það væri alveg óhætt að samþykkja þetta frv., þar sem framkvæmdir þess eiga að bíða þar til í ársbyrjun 1929. Jeg sje enga nauðsyn bera til að bera þetta mál undir álit hreppsnefnda út um land. Það er alkunna, að kláðinn er orðinn mjög útbreiddur, og jeg sje enga ástæðu til þess að bíða eftir því, að hann komist í sýslur, þar sem hann hefir ekki fundist í áður, — það er alveg víst, að þó þrifaböðunum verði haldið áfram, verður fjárkláðanum aldrei útrýmt með þeim, ekki síst ef baðlyfin eru misjöfn, eins og stundum hefir verið kvartað undan.

Jeg get því ekki mælt með þessari dagskrártillögu háttv. landbn.; jeg tel sjálfsagt að samþykkja frv., því það er að öllu leyti hægt að ganga svo frá þessu máli, að undirbúningur geti orðið sæmilegur, þar sem hálft þriðja ár er ætlað til þessa. Jeg held, að kláðinn sje allflestum svo kunnur og hvimleiður, að flestir muni fremur kjósa að losna við hann sem allra fyrst. Jeg tel því hreinasta óþarfa að fresta nokkurn hlut frv. þessu eða draga úr framkvæmdum til útrýmingar kláðanum.