11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2247)

83. mál, útrýming fjárkláða

Guðmundur Ólafsson:

Háttv. form. landbn. (EP) er hissa á því, að jeg skyldi taka til þess, að nefndin væri sammála. Það gerði jeg heldur ekki; jeg var ekki hissa á því, að nefnd var sammála, heldur á því, að hún var sammála um þetta. Hann vill vanda afgreiðslu þessa máls meir en frv. um útsvör, sem nú er nýlega útkljáð í þinginu, og var hann ekkert hræddur við að afgreiða það án þess að bera það undir dóm almennings. En við þetta mál er hann hræddur. (EP: Breyting á sveitastjórnarlögunum og fátækramálunum hefir einmitt verið borin undir allar sveitastjórnir). Jeg er óhræddur við það, þó að bændur fái að vita það með samþykt þessa frv., að þeir eigi að losna við fjárkláðann eftir 2 ár; þeir vita allir að þetta kostar eitthvað, bæði þá sjálfa og ríkissjóð.

En hvaða vissu getur háttv. landbn. gefið mönnum um það, ef frv. verður nú frestað, að því verði ekki hnýtt aftan í einhver önnur mál, sem samtök eru um, að megi ekki ganga fram að sinni, eins og t. d. bankamálin?