11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) spurði um það, hvaða vissa væri fyrir því, að þetta mál yrði afgreitt á næsta þingi, ef því verður nú frestað? Þessu er ekki hægt að svara alveg ákveðið, það liggur í nauðsyn málsins sjálfs, hversu hún verður talin mikil. Í dagskránni er farið fram á það, að bændur verði spurðir að því, hvort þeir telji nauðsyn á því, að láta böðunina fara fram. Ef þeir svara þessu játandi, tel jeg vissu fyrir því, að útrýmingarböðunin verði lögleidd. — Það er einmitt þetta, sem nefndin vill; hún vill ekki, eins og háttv. 1 þm. Rang. (EP) tók fram, láta lögskipa allsherjarböðun, án þess að raddir frá bændum hafi verið heyrðar áður. Það er vitanlegt, að allmargir bændur eru þessu mótfallnir og vilja komast hjá því, ef hægt er. Jeg tel víst, að háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) sje það fullkunnugt, að auk kostnaðar, sem útrýmingarböðunin sjálf hefir í för með sjer, þá fylgir þar með ýmislegur annar kostnaður og óþægindi fyrir bændur, svo sem fóðurbirgða-eyðsla o. fl.

Nefndin hafði þetta alt fyrir augum, er hún ákvað að baka ekki bændum stór fjárútlát og aukinn kostnað, ef hægt væri að komast hjá því, og því vill hún láta þá segja til um það, hvað þeir telja rjett að gera í þessu máli, og jeg álít, að ráð þeirra sjálfra verði hollast í þessu efni.