26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Benedikt Sveinsson:

Það hefir nú þegar verið talað mikið um þetta mál, en þó hefi jeg nú kvatt mjer hljóðs til þess að leggja þar orð í belg.

Jeg skal þá fyrst geta þess, að jeg held, að jeg geti skrifað undir hvern staf í ræðu hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), enda talaði hann mjög skýrt og skipulega um málið, og af einurð mikilli og röggsemi.

Jeg álít, að mál þetta hafi verið tekið upp á óheppilegum tíma. Þarf ekki annað en minna á það, að því hefir margsinnis verið lýst yfir, að fjármál ríkisins sjeu í mesta öngþveiti. Á styrjaldarárum varð hjer alt í uppgangi um atvinnuvegina, en svo kom hinn gríðarlegi afturkippur.

Þegar hæstv. fjrh, (JÞ) tók við völdum, átti hann því mikið og ærið vandasamt verk fyrir höndum, að rjetta við fjárhaginn. þá var á Alþingi stofnað hið svonefnda Sparnaðarbandalag, og upp úr því var soðinn Íhaldsflokkurinn. Átti það að vera aðalverkefni þess, að rjetta við fjárhag ríkisins. Á þessum árum hefir að vísu tekist að skrapa saman allmikið fje, en þrátt fyrir tvö veltiár hefir þessa fjár verið aflað með svo miklum harðindum og harðfylgi, að nú er eigi annað sýnna en að atvinnuvegirnir sjeu að komast í kalda kol.

Það má að vísu segja, að hið háa Alþingi eigi sök á þessu, því að það hefir lagt drápsklyfjar á þjóðina, eins og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) komst svo heppilega að orði. Í sparnaðarskyni var ráðist á Háskólann og fleiri menta og þjóðnytjastofnanir. Með þessu móti hefir verið dregið saman mikið fje, en undir eins og eitthvað er farið að rætast fram úr fjárhag ríkissjóðs, með þessu harðfylgi, þá á að fara að fleygja út miljónum í járnbraut!

Það er nú alllangt síðan, að fyrst var hreyft þessu sæla járnbrautarmáli, og um aldamótin komu fjörkippir í það, en svo var steinþagað um það á milli. Og þá kom afturkippurinn, og hann svo rammur, að það var líkast því, að málið hefði verið kveðið niður, eða því sökt, eins og þá er Sæmundur fróði sökti kölska forðum með saltaranum.

Eitt af því, sem málinu var talið til ágætis á þeim árum, var, að það væri gott fyrir Norðlendinga að fá járnbraut, og mundi hún geta bjargað þeim frá næsta hallæri. Undrar mig það, að svo miklir gáfumenn, sem að málinu stóðu, skyldu bera fram slíka firru. Hygg jeg, að þá er snjóalög eru eins mikil eins og 1914, þegar símastaurar fóru í kaf á bakkabrúninni í Húsavík, að t. d. Bárðdælingar mættu verða langeygir eftir því að fá heyhár flutt til sín með járnbraut. Þessi hugmynd var svo barnaleg, að nú eru allir horfnir frá henni fyrir löngu, nema dr. Valtýr Guðmundsson. Enginn efast um það, að hægt muni að leggja járnbraut til Norðurlands og nota hana á sumrin, en björg í harðindum verður hún aldrei. En þetta sýnir meðal annars þá oftrú, sem mál þetta kveikti.

Með þessari Suðurlandsbraut, sem hjer er fyrirhuguð, er ekki ráðgert að stíga eins stórt spor og í fyrstu var ætlað, því að brautinni er ekki ætlað að ná lengra en til Ölfusár, en þótt hún væri þangað komin, er þó enn æði langt til ýmissa bæja í Árness- og Rangárvallasýslum.

Þetta er alt bygt á hugmyndaþoku, en ekki glöggri mannvisku. Og það er geigur í öllum almenningi við að ræða málið. Blöðin hafa ekki minst á það í mörg ár, nema hvað Morgunblaðið hreyfði því fyrir tveimur árum. Síðan hefir verið þögn um það fram að þessu. Þá byrjar Valtýr Guðmundsson enn að skrifa, en undarlegt er það, að þótt greinin sje rituð í júlímánuði í sumar, þá kemur hún nú fyrst út á prenti, er þing kemur saman. Það sýnir ekki traust manna á málinu, að því skuli þannig hafa verið dembt inn á Alþingi athugunarlaust, og með rykkjum.

Því hefir verið haldið fram, að áætlun verkfræðinganna sýndi það, að þeir hefðu traust á málinu. En jeg veit nú satt að segja ekki, hverju trúa á. Þegar norski verkfræðingurinn, Sverre Möller, kannaði málið fyrst, sagði hann, að það borgaði sig ekki fyrir Íslendinga að vera að hugsa um járnbrautir, heldur ættu þeir að leggja góða akvegi. En nú er komin skýrsla og álit frá Geir Zoëga vegamálastjóra, þar sem hann mælir þjett með járnbrautinni. En þegar þetta álit hans er lesið, þá minnir það mig á sögu um Þorleif heitinn Repp. Hann var maður kíminn og keskinn, og sagði svo einu sinni um grein nokkra, að hún væri svo vel samin, að hún gæti ekki verið eftir Jón Sigurðsson, Jeg vil nú snúa þessu við og segja, að þessi ritgerð sje svo illa samin, að hún geti ekki verið eftir Geir Zoëga. —

Þessi hjeruð, sem brautin á að liggja um, hafa jafnan brosað við sól, og jeg fæ ekki sjeð, að þeim hafi verið sýnd minni rækt en öðrum hjeruðum. Það var byrjað á því að gera áveitu á Miklavatnsmýri, til þess að vita, hvort slíkar áveitur borguðu sig. Stóð á því verki í tvö ár. En um það bil er áhuginn algerlega horfinn, enda kom þá í ljós, að vatnið í Þjórsá var ekki nógu hátt, og svo sigu skurðirnir saman.

Þá er byrjað á öðru stórfyrirtækinu, sem er Skeiðaáveitan. Það verk var vel undirbúið, og enginn tálmi á verkinu fyr en kom að hinni þjóðfrægu „óbilgjörnu“ klöpp. Verkið varð fjórum sinnum dýrara en verkfræðingar höfðu reiknað. Þá var sagt, að það væri sorglegt, að fyrirtækið skyldi verða svo dýrt, og aldrei hefði verið snert á verkinu, hefðu menn vitað þetta. En við því varð ekki rönd reist.

Það sýnist nú svo, sem vel hefði mátt bíða eftir því, hvernig þetta dýra fyrirtæki reyndist, en í staðinn fyrir það var rokið í enn stærra fyrirtæki, hið stærsta jarðyrkjufyrirtæki hjer á landi, Flóaáveituna. Og áður en eitt einasta strá er farið að koma þar upp úr moldinni að tilstuðlun áveitunnar, þá eru menn farnir að sjá, að okkur vantar tilfinnanlega samgöngur við þetta Gósenland, og þá er heimtuð járnbraut.

Jeg fæ nú ekki betur sjeð en að Árnessýslubúar hafi sjálfir vantrú á framförum þess hjeraðs, því að hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði í ræðu sinni, að fólkið flýði úr Flóanum, þessari ágætu sveit, og þó hefir það fengið vegi, brýr, áveitu og mörg önnur fríðindi, t. d. banka. Þó leitar það á burtu úr þessu kostahjeraði, og er það næsta undarlegt. En þegar spurt er um ástæðuna til þessa, þá er svarað, að fólkið flýi vegna þess, að það vanti járnbraut.

Hv. flm. (JörB) hjelt því fram og taldi dauðasök að efast um það, að umferð og flutningar austur yfir fjall hefðu sexfaldast síðan árið 1921.

Málið hefir verið rannsakað töluvert, en þó er jeg hræddur um, að það hafi ekki verið rannsakað til hlítar, og að menn viti ekki enn, hvernig fara muni um flutninga í hörðum vetrum, því að þótt nú hafi verið mildir vetur að undanförnu, þá mun þó enn sannast hið fornkveðna:

Dal í þröngum drífa stíf

dynur á svöngum hjörðum.

Það er öngvum ofgott líf

úti á Gönguskörðum.

Jeg giska nú helst á, að ýmislegt hafi gleymst, eins og hjerna um árið, þegar Rafveita Reykjavíkur var á uppsiglingu. þá hafði alveg gleymst að mæla árnar í frostum, og því fer nú sem fer, að ljóslaust er, þá er frost koma. Meira að segja, það má ekki koma kali, svo að eigi skyggi yfir Reykjavík. En þó mun vera verra fyrir austan, og kæmi mjer ekki á óvart, þótt eitthvað kunni að vera órannsakað af því, sem rannsaka þarf, svo sem að mæla snjóinn í þrengslunum á Hellisheiði.

Það er undravert, að verkfræðingunum skuli ekki bera saman í verkfræðilegum efnum, og kemur það manni á þá skoðun, að það eigi alls ekki að leggja járnbraut.

Sverre Möller hefir gert lítið úr kostnaðinum, og er þar ekkert í borið, og svo hefir þessi nýi verkfræðingur vor tekið undirstöðu brautarinnar og mjókkað hana um 1/10. Við það færist áætlunin niður um 200.000 kr. Tel jeg þetta vera mjög óheppilega ráðstöfun, því að ef brautin er lögð austur á annað borð, verður hún að vera stöðug og má alls ekki leika í lausu lofti.

Ef þetta mál ætti fram að ganga á þessu þingi, þá kæmi jeg með brtt. þess efnis, að hafa þetta eins og upphaflega var til ætlast, því að jeg álít, að ekki sje heimilt að fara strax að grafa undan járnbrautinni hjer á Alþingi á þennan hátt.

Aðalflutningsm. þessa máls, hv. 2. þm. Árn. (JörB), sagði í sinni löngu talnaskrá, að ekki myndi vanta fólk í Flóann. Þó myndi tífalt fleira fólk geta búið þar en nú er þar. Það er nú alls ekki fyrir það synjandi, að svo verði, en hv. flm. þessa máls hafa alls ekki sýnt fram á, hvaðan koma ætti fólk til að byggja Flóann. En þá hefir komið fram vitneskja um þetta úr annari átt, þar sem er grein í Morgunbl., eftir Valtý Guðmundsson. Valtýr er einarðari en fylgismenn þessa máls hjer á Alþingi, hann segir, hvaðan fólkið eigi að koma til að byggja Flóann. Hann segir, að fólk eigi að fá frá Danmörku, það eigi að byggja Flóann Dönum. Jeg skal játa, að Danir eru góð þjóð, en jeg býst við, að þeir uni vel í landi sínu.

En ætli það sje nokkurt samband á milli þessara hugmynda og þeirra manna, sem ganga með grasið í skónum á eftir Dönum og biðja þá að hirða landsrjettindi vor? Þótt jeg búist nú við því, að fáir Íslendingar myndu óska þess, þá eru þessar hugmyndir, að fá Dani unnvörpum inn í landið, vatn á myllu þeirra manna, sem vilja fá Dani til þess að láta oss afsala oss rjettindum vorum fyrir 1940. Jeg hefi tekið þessar hugmyndir beint eftir þeim manni, sem frá því fyrsta hefir stöðugastur staðið í járnbrautarmálinu, dr. V. G. En hann er þeim mun hreinskilnari og hagsýnni en fylgismenn hans á Alþingi, að hann vill, að Danir leggi brautina sjálfir. Það er undarlegt, að jafnskynsamur maður og jafnmikill stillingarmaður og hv. 2. þm. Árn. (JörB) skuli geta mælt aðra eins firru og þá, að enginn bifreiðavegur sje austur, og þótt umferðin á honum hafi sjöfaldast síðan 1916, eftir því sem hv. 1. þm. Árn. (MT) segir, þá vilja þeir ekki hafa hann, af því að hann hefir ekki kostað yfir 6 milj.

Þetta brýtur alveg í bág við það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) segir okkur, að við sjeum vel á veg komnir með að leggja bifreiðaveg austur. Bifreiðar eru ekki svo vegvandar, að það þurfi að leggja stórfje til þess að komast um landið í þeim. Jeg veit ekki betur en að farið hafi verið í allan vetur austur yfir fjall á þeim. En hitt skal þó játa, að betra væri að hafa góðan veg, en þótt svo sje eigi, þá eru bifreiðar svo góð samgöngutæki, að komast má á þeim alla meðalbikkjuvegi.

Svo vil jeg benda á það, að bifreiðarnar eru á tilrauna- og byrjunarstigi, og eru framfarirnar svo stórkostlegar á því sviði, að undrum sætir. Ætli það hefði ekki þótt lýgilegt, ef það hefði verið sagt fyrir mannsaldri, að komast mætti í bil yfir endilanga Sahara og yfir þvera Afríku frá Atlantshafinu, eða þá frá Kaspíhafinu yfir Kákasus austur að Indus. Hjer kom maður að vestan fyrir skömmu, sem sagðist hafa ekið á eigin bifreið yfir þvera Ameríku. Blöðin hjer þora varla að segja frá þessu, af því að þau óttast, að það muni spilla fyrir járnbrautinni. En það miðar alt að því, að komast sem lengst í því að fullkomna bílvegina og bílana og hafa fastar og nægar bilferðir.

Í því sambandi vil jeg benda hv. þm. á það, að nú má komast í bíl alla leið austur að Hlíðarenda í Fljótshlíð, og það er hægt að fara á bíl upp allan Borgarfjörð, upp í Hvítársíðu og Þverárhlið og þaðan upp í Hnappadalssýslu, svo langt sem vegurinn nær. Það þarf ekki nema örlítinn vegarspotta og brú á 1 –2 sprænur, til þess að komast inn í Staðarsveit. Svo fullkomin tæki eru bílarnir. Og þegar kemur til Norðurlands, þá ganga bifreiðar frá Húsavík upp með Skjálfandafljóti, og þarf ekki að telja mönnum trú um, að það þurfi miljóna veg til að komast á bil upp Þingeyjarsýslu. Í hitteðfyrra fór maður á körfubíl frá Akureyri til Húsavíkur. Og ef Norður-Þingeyjarsýsla fær 15–20 þús. kr., eins og með þarf, til vega, þá er hægt að komast úr Köldukinn yfir Kelduhverfi og Axarfjörð norður á Sljettu og jafnvel til Þistilfjarðar. Auðvitað þarf að brúa árnar á leiðinni.

En það er eins og Sunnlendingar vilji ekki sjá neinar vegabætur, því að þeir halda, að þær myndu spilla fyrir járnbrautinni. Það er eins og þeir vilji láta vegina vera í sem allra verstu ástandi til þess að geta því fremur knúið fram járnbraut. Það er undarlegt að sjá Bakkaá í Ölfusi, sem er ófær vor og haust. Það er eins og þeir vilji ekki brúa hana, af því að þá myndi brautinni seinka. Og svo vilja þeir ekki endurbyggja veginn. Þeir láta hann liggja í Smiðjulaut, en bifreiðastjórarnir sáu út veg 20 föðmum ofar. Svo er fönnin á Sandskeiðinu farartálmi mikill. — Ef nú væri hægt að ryðja úr vegi þessum 2 farartálmum, þá myndi greiðfær verða vegurinn austur.

Jeg vil láta menn líta skynsamlega á þetta mál. Jeg mótmæliþví algerlega, að þetta sje hreppapólitík hjá Norðlendingum, sem veldur andstöðu þeirra. En það er að minsta kosti stærsta hreppapólitíkurmál, sem fyrir Alþingi hefir komið, eins og það kemur frá hendi hv. flm. En hjá okkur hefir aldrei komið fram nein hreppapólitík gagnvart Sunnlendingum, heldur þvert á móti. Einmitt jeg og annar Norðlendingur á Alþingi urðum til þess að laga Kambaveginn, svo að bifreiðar gætu farið þar um, en framfaramennirnir austanfjalls, þingmenn Árnesinga, voru á móti þessu, þótt þeir væru annars ekki vanir að liggja á liði sínu í hreppapólitíkinni. Af hverju voru þeir á móti? Af því að þeir álíta eins og aðrir, að ekki megi koma aðrar samgöngubætur en járnbrautir. Þetta er ekki ósvipað hjer og í Danmörku. Vegaverkfræðingurinn segir í skýrslu sinni, að reynslan sje sú í Danmörku, að járnbrautirnar standist alls ekki bifreiðarnar. Skýrsla hans hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Danmörku var á síðast liðnu ári slíkum ferðum haldið uppi á yfir 600 vegarköflum, sem flestir eru stuttir, að meðaltali um 27 km., en bifreiðarnar eru, að telja má, eingöngu notaðar til fólksflutninga, og yfirleitt er ferðum hagað í sambandi við járnbrautirnar og nú orðið ekki leyfðar þar, sem samkepni yrði við þær.“

— Ekki leyfðar! Þetta segir verkfræðingurinn. Af hverju ekki leyfðar? Af því að járnbrautirnar myndu ekki verða notaðar. Og þá hefir atorka þessara manna gengið í þá átt að leggja stein í götu bifreiðanna, til þess að koma járnbrautunum að.

Það er ekki hægt að neita því, að reynslan hefir verið sú í öðrum lönd- um, Englandi, Kanada og víðar, að járnbrautarfjelög hafa farið unnvörpum á hausinn, af því að þau hafa ekki getað kept við bílana. Það er að vísu dýrt að halda veginum við fyrir þá, og hefir mikið verið um það talað, en getur nokkrum manni dottið í hug að hætta við bílvegi, þótt járnbraut komi. Það yrðu þó a. m. k. að liggja bílvegir út frá endastöðum brautarinnar heim á bæina í Árnessýslu

Eins yrði hjer innanbæjar, þótt lögð yrði braut frá Skell og niður á Arnarhólstún, þá þyrftu að geta verið til bílar til umferða um bæinn. En þetta er nú samt aukaatriði, sem jeg geri lítið úr.

Hæstv. atvrh. (MG) miklaði það, að búið væri að leggja fram 100 þús. kr. til rannsókna þessa máls, og þessvegna yrði eitthvað að gera. En jeg vil segja það, að ef rannsókn málsins hefir sannað, að ekki sje hægt eða fært að leggja járnbraut, þá hefir þessu fje ekki verið á glæ kastað. Það er betra að fleygja 100 þús. kr. en miljónum. Annars talaði hæstv. atvrh. (MG) gætilega og sagði, að ekki yrði í þetta ráðist, nema ný rannsókn færi fram. Úr því að ekki á að byrja á verkinu fyr en 1928, þá getum við ljett því af samviskunni að samþykkja frv. þetta til næsta þings að minsta kosti.

Hæstv. atvrh. (MG) miklaði þann kostnað, sem það hefði í för með sjer, að leggja fullkominn bílveg austur. það kostar nú aldrei meira en 31/2 milj., og er miklu minna fje en það, sem fer til lagningar brautarinnar. Svo er þess að gæta, að það fer í miklu minna mæli út úr landinu, en aftur á móti færi fjeð fyrir járnbrautarlagninguna að miklu leyti út úr landinu. Það er líka horfandi í það,því að þá gengi illa að halda krónunni uppi. Það er því örðugra að halda henni uppi, því meira fje sem fer út úr landinu. Jeg erþví ekki á sama máli og hæstv. atvrh. (MG). Brautin má bíða, en hinsvegar væri eitthvert vit íþví að leggja fje í góðan bifreiðaveg austur. það yrði aldrei stórfje, sem í það færi, a. m. k. yrði það 50% minna en það, sem járnbrautin á að fá.

Mjer þykir leitt, að hv. 1. þm. Árn. (MT) er ekki viðstaddur. Jeg hefði haft gaman af að minnast á tillögur hans.

Hann var með gletni og gamanyrði, að því er virtist, sagði, að úr því að brautin lægi gegnum þrengslin, þá væri það tákn þess, að hún ætti örðugt uppdráttar á Alþingi, en að lokum kæmist hún þó gegnum hinn þrönga veg. Hv. þm. notar mikið biblíumál, enda er hann biblíufastur maður, en jeg vil spyrja: Hvað tekur við hinumegin? Ætli það verði ekki breiði vegurinn, og hvert stefnir hann? Sami hv. þm. sakaði Sverre Möller um það, að áætlun hans væri of varfærin. En jeg ætla mjer ekki að fara að gera athugasemd við það.

Þetta mál hefir nú verið talsvert rætt, og nenni jeg tæplega að koma með fleiri athugasemdir. Jeg held því sjerstaklega fram og tek undir þau orð hv. fjrh. (JÞ), að tiltölulega litlir erfiðleikar sjeu á því að koma hverju hjeraði í samband við annað með bifreiðum, og vona jeg því, að hv. þdm. falli nú frá þessu uppátæki, að vera á þessu þingi að koma með vanhugsað, illa undirbúið og alveg ómögulegt fyrirtæki. Talað hefir verið um, að þetta væru aðeins heimildarlög og að ekki yrði í þetta ráðist, nema ríkissjóði og fyrirtækinu sje fjárhagslega borgið. En jeg held, að ef hæstv. stjórn nýtur einhvers trausts, að altaf megi fá henni þessa heimild í hendur seinna, og komandi stjórnum einhvern tíma í framtíðinni, ef menn halda, að þetta sje besta samgöngubótin austur í sveitir.

Því hefir enn verið haldið fram, að vegurinn austur geti verið lokaður 5– 6 mánuði af árinu, ef eingöngu eigi að hlíta bifreiðum. En getur ekki farið eins með járnbraut, að hún geti tepst í snjóþyngslum? Það er ekki að marka það, þótt hún hefði getað gengið í vetur, þegar varla hefir fest fönn á sljettlendinu. Hún getur áreiðanlega tepst. Þó má fyrirbyggja það með því að grafa sig í gegnum fjöll, en það má eins gera með bifreiðum. Eins má byggja yfir, jafnt fyrir hvorttveggja. Hjer er því ekkert sönnunargildi fyrir ágæti járnbrautanna.

Það hefir verið minst á það, að Reykjavík ætti að taka þátt í kostnaðinum,því að brautin snertir hana. það má skella 2 milj. á hana, og þá vil jeg, að Árnessýsla fái 1 milj. Yrði það að vera meira en það, sem landssjóður leggur til, þar sem hann leggur annars aðeins ¼ hluta fram til samgöngubóta. (MJ: Hvað leggja hjeruðin til strandferðaskipanna?). Það væri nú gaman að sjá, hvort þeir færu ekki að megrast í Flóanum eins og í Fjörðunum, ef engar siglingar væru til landsins.

Jeg hefi nú drepið á flest þau atriði, sem máli skifta, og nefnd sú, sem fær þetta mál, á að líta á, ef það á annað borð kemur til nefndar. En frá nefnd býst jeg tæplega við að það komi.