28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Björn Líndal):

Þetta litla frv. er svo úr garði gert, að greinargerðin á þskj. 377 er alveg fullnægjandi fyrir hv. þm. til að átta sig á því. það, sem er aðalatriði þessa frv., er 2. gr. Eins og greinargerðin ber með sjer hefir borist erindi til þingsins um sjerstakan sjómannaskóla á Ísafirði. En sjútvn. hefir ekki talið það hyggilegt, heldur viljað fara þá leið, að samræma smáskipaprófin og undirbúa þau með námskeiðum á nokkrum stöðum.

1. gr. þessa frv. er einnig flutt að tilhlutun forseta Fiskifjelagsins og fiskiþingsins, og felur það í sjer, að menn eigi að hafa siglt í 20 rúmlesta skipum í stað 12 nú, í minst 12 mánuði af þeim 24 mánaða sjómenskutíma, sem krafist er. Er það gert til þess, að menn hafi sjeð meira af ströndum landsins áður en þeir fá sjálfir rjett til skipstjórnar. Einnig er þeim til hægðar, sem hafa verið formenn á 6–10 rúmlesta bátum, ákveðið, að það megi nægja til smáskipaprófs.

3. gr. þessa frv. er aðeins tekin upp til þess að fella megi úr gildi lögin nr. 49 frá í fyrra. Að öðru leyti get jeg vísað til greinargerðar nefndarinnar.