27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal fyrst geta þess, að mjer þykir vænt um, að hv. fjvn. hefir ákveðið, hvernig skift skuli styrknum til læknavitjana. Álít jeg þá ráðstöfun heppilega, því að þegar hreppar bættust við, varð fjárveitingin of lág til þess að ná eins langt og þingið œtlaðist til og varð því að taka vissa hundraðstölu af hverjum hreppi.

Jeg býst við, að það sje skynsamlegra að veita meira fje til heilsuhælis Norðurlands næsta ár en nú, því að kostnaðurinn verður eflaust meiri heldur en gert var ráð fyrir, þegar fjárveitingin kom inn í fyrra, en engin málaleitun hefir komið til stjórnarinnar um það.

Það er aðeins ein brtt. frá hv. fjvm., sem jeg vil gera verulega að umræðuefni, sem sje um að fella burt fjárveitingu til sendiherra. Mjer þykir leitt, að hluti af hv. fjvn. skuli þykjast þurfa að gera þetta. Það hefði verið æskilegt, að öll nefndin hefði getað fallist á till. stjórnarinnar í þessu efni, og holt fyrir þjóðina, ef fjvn. hefði gert það. Jeg ætti ekki að þurfa að minna hv. deild á, hve mikil barátta hefir um langan tíma staðið um utanríkismálin. Þó er eins og það þurfi að minna á þetta, því að það er í raun og veru satt, sem sagt hefir verið, að það er eins og menn hjer á landi hafi sofnað eftir 1918 og ekki munað, að þessi mál væru till. Menn verða að muna það, að hvert þjóðfjelag á ekki einungis sín heimamál, heldur einnig mál, sem snúa út á við, ef það vill ekki vera undirlægja annara þjóða. En sú var tíðin, að menn voru vel vakandi um þessi mál, enda gerðu þau mestan erfiðleikann á því að komast að samkomulagi við Dani. Að vísu voru vegirnir misjafnir að takmarkinu, en mjer er óhætt að segja, að Íslendingar yfirleitt vildu hafa ráð yfir utanríkismálum sínum, og það var erfiðasti hjallinn að fá það viðurkent. Loks varð það að niðurstöðu, að við fengum það viðurkent, að þessi mál væru vor og undir vorum yfirráðum, en það varð að samkomulagi, að Danir færu með þau um stund í voru umboði. Mörgum var ljóst, að þetta var ekki áhættulaust, einkum vegna þess, að þegar búið var að fela annari þjóð að fara með málin, var nokkur hætta á því, að menn bæði hjer og annarsstaðar athuguðu ekki, að málin eru eftir sem áður vor mál. En það er auðvitað, að mikill þáttur í sjálfstæði hverrar þjóðar er það, að hafa ráð yfir utanríkismálum sínum. Sjálfstæð og fullvalda er þjóðin annars ekki. Það var heldur ekki svo, að við ljetum Dani fara með öll okkar utanríkismál. Vjer höfum sendiherra í Kaupmannahöfn. Vjer getum sent sendimenn með diplomatiskum erindum hvert sem er.

Jeg verð að játa það, að jeg hafði ekki nógu vakandi auga á þessum málum í fyrstu og á þýðing þeirra. En augu mín hafa á síðari árum opnast fyrir því, að okkur sje óumflýjanlegt að gæta vel utanríkismálanna, og að það er ekki samboðið þjóðarsómanum að hafa ekki sendiherra, búsettan í Kaupmannahöfn. Nú er það svo, að segja má, að við höfum getað komist af með þá lausn í bili á utanríkismálum, sem staðið hefir tvö árin síðustu. (TrÞ: Var þá þjóðarsóminn ekki í veði?). Nei, það skilur hv. þm. Str. undur vel, að svo var ekki, enda hefði þá ekki verið að því ráði horfið að leggja sendiherraembættið niður um stundarsakir, þó að hinsvegar væri vitanlegt, að sú ráðstöfun gæti á engan hátt orðið til frambúðar. Starfræksla utanríkismála okkar hefir verið góð þessi tvö ár, en þó svo, að þetta væri ekki nema til bráðabirgða.

Jeg sagði í fyrra, að þessi skipun utanríkismálanna væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun og afsakanleg vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs. En nú er ekki hægt að bera þeirri afsökun við; ríkissjóður er fær um að taka á sig þessa byrði, og því ekki forsvaranlegt að sætta sig lengur við þá ráðstöfun, sem gerð var aðeins um stundarsakir. Hjer er líka um þann þjóðarmetnað að ræða, sem okkur ber fremur að glæða en rýra. Og þó að ýmsum vaxi í augum kostnaðarhlið málsins, eða hin beinu útgjöld við það að hafa sendimann búsettan erlendis, þá ber og að líta á það, að utanríkismálin snúast oft og einatt um stórkostleg fjárhagsatriði. Því verður ekki neitað með neinum rökum, að okkur sje mikils virði að hafa fulltrúa í öðru ríki, sem við getum beint ýmsum vanda til, sem að höndum ber, og sent hann í erindum okkar víða um lönd, eins og við gerðum á meðan við höfðum sendiherra búsettan í Kaupmannahöfn. Því neitar heldur enginn, að við höfum margfaldlega uppborið þann kostnað, sem sendiherra embættið í Kaupmannahöfn nam, og eru það þá litlar þakkir fyrir starfið, að vilja ekki endurreisa embættið, þegar sýnt er, að fjárhagsvandræði ríkisins eru því ekki lengur til fyrirstöðu. En vitanlega er það afarmikils virði, að sendimaðurinn sje að góðu kunnur ytra, og nú stendur einmitt svo vel á, að við eigum völ á manni, sem unnið hefir sjer traust og virðing erlendra sendimanna, þeirra er hann hefir kynst við. Mundi jeg því telja það illa farið, ef ekki yrði að því ráði horfið að grípa nú tækifærið og fela þessum manni sitt fyrra trúnaðarstarf, er hann rækti þá sjer og landinu til sóma.

Jeg sagði í fyrra, og drap á það líka áðan, að til bráðabirgða hefði mátt una við þá skipun, sem gerð hefir verið um utanríkismál okkar nú um stund. En nú get jeg gefið þær upplýsingar, að við eigum ekki kost þess að halda slíku áfram. Sá maður, sem farið hefir með þessi mál undanfarið og í alla staði vel, hann hefir nú lýst því yfir, að hann geti ekki lengur haft þetta starf með höndum. Það sje alt of mikið til þess að gegna því í hjáverkum. Og þegar sjeð er, að við eigum ekki lengur kost á Jóni Krabbe, þá liggur í augum uppi, að sú breyting, sem óhjákvæmilegt er að verði á utanríkismálum okkar, hlýtur að kosta talsvert meira fje en háttv. fjvn. gerir ráð fyrir með brtt. sinni. Brtt., eins og hún er borin fram, er ómöguleg í alla staði, eins og fljótt mundi koma á daginn, ef svo óhamingjusamlega skyldi til takast, að hún næði fram að ganga.

Fjárveiting sú, sem nefnd er í frv. til endurreisnar sendiherraembættis í Kaupmannahöfn, er tiltekin eins og sá maður, sem allir eru á einu máli um að skipa eigi í stöðuna, telur að þurfi að vera. Með þessari fjárhæð er stilt svo í hóf um útgjöldin, að gert er ráð fyrir, að ekki þurfi að veita meira um fyrirsjáanlegan tíma.

Þó að svo slysalega hafi nú tekist til, að meiri hl. hv. fjvn. leggist á móti því að taka upp aftur sendiherraembættið í Kaupmannahöfn, þá ber jeg það traust til hv. þdm., að þeir sjái og skilji nauðsyn þessa máls og fallist á, að till. stjórnarinnar í þessu efni nái fram að ganga.

Jeg er ekki í neinum vafa um, að okkur er afarmikils virði að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, beint sendan hjeðan heiman. Og þótt engum sje það ljósara en mjer, hve ágætum manni vjer höfum haft á að skipa, þar sem Jón Krabbe er, þá er hann þó ekki íslenskur þegn, og getur því ekki til lengdar farið með sendiherraembætti fyrir oss.

Að sumir hv. þm. virðast ekki skilja þetta, sýnir einmitt þetta, sem jeg sagði í upphafi, að þeir skilja ekki þýðing þeirra mála, sem beint sendiherrasamband þarf til, nje þýðing sendiherraembættis, eru sofandi að þessu leyti og hugsunarlausir um hin mestvarðandi mál vor.