14.05.1926
Sameinað þing: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

121. mál, þúsund ára hátíð Alþingis

Forsætisráðherra (JM):

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), en hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) lítillega. Jeg get ekki viðurkent, að hv. allshn. Nd. hafi sint stjfrv. Það kom fram nógu snemma á þinginu til þess, að nefndin hefði getað tekið afstöðu til þess á þessu þingi og málið síðan sætt venjulegri meðferð. En það gagnar ekki, að nál. kemur nú fyrst, á seinasta starfsdegi þingsins, og er nú útbýtt hjer rjett í þessari andránni. Þetta kalla jeg ekki að sinna frv.

Um samkomulagið við Þingvallasveitarbúa er það að segja, að nokkuð hefir verið reynt um það af stjórnarinnar hálfu, og skal jeg ekki tala frekar um það.

Þá var talað um, að engin heimild væri til frá Alþingi um skipun Þingvallanefndar. Stjórnin þurfti enga heimild til þess að skipa þá nefnd, er engin laun tekur fyrir starf sitt. Það hafði stjórnin fulla heimild til að gera.

Jeg get ekki verið hv. allshn. Nd. samdóma um það, að ekki hafi verið ástæða til þess að sinna öðruvísi þeim till., er fram hafa komið frá Þingvallanefnd.