08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. flm. (JJ) hefir gert að umtalsefni ummæli frá mjer á fundinum í Borgarnesi í haust. Vil jeg því endurtaka það hjer, sem jeg sagði þá, svo að það sjáist í Alþt. Jeg sagði, að steinolíusamningur ríkiseinkasölunnar mundi hafa orðið til þess, að ullartollurinn var hækkaður í Bandaríkjunum. (JJ: Hvers vegna þurfti þá að senda mann vestur?). Lækkunin á tollinum var ekki komin í kring, þegar sendiförin var ráðin, en málið var mjög mikilsvarðandi fyrir bændastjett landsins. Og ef um það á að ræða, hverjum beri að þakka það, að ullartollurinn fjekst lækkaður, þá er það þingið í fyrra, sem samþykti afnám einokunar á steinolíu. (JBald: Hvaðan hefir hæstv. ráðh. þetta?). Jeg hefi fullkomnar ástæður fyrir mínu máli, og þær geta komið fram, ef mjög fast er gengið eftir þeim.

Annars finst mjer, að allvel megi una við það, hvernig þessu máli er nú komið, og hvernig sem á það verður litið, hvaða rætur liggja að þáltill. þeirri, sem hjer liggur fyrir, þá fullyrði jeg, að stjórnin hefir haft fullan vilja á því að gera alt, sem unt var, til að kippa ullartollinum í lag.