10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í D-deild Alþingistíðinda. (3274)

114. mál, aðstaða málfærslumanna við undirrétt

Forsætisráðherra (JM):

Hv. þm. hefir tekið fram ýmislegt frá almennu sjónarmiði um þetta atriði, og jeg hefi ekkert við það að athuga. Jeg hefði vel getað hugsað mjer aðra skipun á hjeraðsdómnum en nú er; og hv. flm. (JJ) er kanske kunnugt um, að jeg ásamt fleirum hefi lagt til, að þetta væri öðruvísi. Get jeg því vel tekið í það, að það er athugavert, hvort ekki væri heppilegt að skilja dómsvaldið frá umboðsvaldinu hjer líka. En það yrði of langt mál að fara að tala um það nú, enda þykist jeg vita, að hv. flm. ætlist ekki til þess. En hvað snertir till. sjálfa, þá er það um hana að segja, að hún er áskorun á landsstjórnina að gefa skýrslur. Fullnæging á því er eiginlega ekki möguleg fyr en búið er að samþ. till. Og mjer finst í raun og veru, að ef hv. flm. hefir ætlast til svars, hefði hann átt að koma með þetta í fyrirspurnarformi. En jeg hefi ekki búið mig undir að svara þessu í dag, af því að um þáltill. var að ræða. Það er nokkuð mikil fyrirhöfn að svara þessu, því að það þarf að ganga í gegnum nokkuð mikið til þess. Setudómarar eru skipaðir ekki einungis í Reykjavík, heldur hingað og þangað. Upplýsingar um fjárhæðir þessar liggja miklu fremur á reiðum höndum í fjármálaráðuneytinu heldur en dómsmálaráðuneytinu, og þar er að ganga fyrst og fremst fyrir endurskoðendur og svo fjárhagsnefnd. Er því óþarfi að spyrja stjórnina um þetta. Jeg hefi sem sagt ekki athugað þetta. Nokkurn kostnað leiðir af þessu, en hvað oft og hvað mikið, veit jeg ekki og get ekki sagt nema með nokkurri fyrirhöfn. — En eftir því, sem hv. flm. segir, þá er þetta í raun og veru aukaatriði, því að mjer skildist hv. þm. leggja mesta áhersluna á, hvort þetta væri yfirleitt heppilegt að öðru leyti. Jeg veit, að hv. þm. lætur sjer þó ekki detta það í hug, að eins og nú er ástatt, sje mögulegt að banna nokkrum heiðarlegum manni, hvort sem hann er skyldur eða óskyldur, að færa mál fyrir undirrjetti, og það því síður, sem ekki eru nein ákvæði um það, hverjir megi flytja mál við undirjett. Það eru ekki til neinir möguleikar, hvorki fyrir stjórn nje þing, að hindra, að hver og einn sem vill flytji mál fyrir undirrjetti, aðeins að hann hafi þau almennu skilyrði að hafa ekki orðið fyrir þungri almennri hegningu. En það er rjett, ef svo stendur á, eins og í Reykjavík, að sonur dómarans fæst við málaflutning, einkum ef hann hefir mikið að gera, að þá getur það verið nokkur kostnaður fyrir ríkissjóð. En jeg skal ekki fara frekara út í þetta einstaka tilfelli, því fremur, sem hv. flm. (JJ) virtist þó viðurkenna það, að þetta einstaka tilfelli væri í rauninni aukaatriði.

En svo kemur önnur hlið, álit málfærslumanna Rvíkur. Hv. þm. sagði, að þeir væru óánægðir með þetta mál. Jeg segi það eins og það er, að jeg hefi alls ekki orðið var við það. Þeir hafa alls ekki komið til mín, og jeg hefi ekkert heyrt um það. Og jeg sje satt að segja ekki, hvernig á því mætti standa, og get ekki látið mjer skiljast, að þeir hafi neina ástæðu til að vera óánægðir. Þeir hafa verið spurðir um það alveg nýlega, hvort þessi þáltill. væri nokkuð frá þeirra rótum runnin. Hafa þeir neitað því brjeflega, að þetta væri frá þeirra fjelagi runnið, enda alls ekki verið rætt neitt um þetta hjá þeim. Þykist jeg alveg sannfærður um, að þótt þeir yrðu spurðir um þetta, myndu þeir svara, að þeir hefðu ekki neina ástæðu til að fínna neitt að því.

Hvað 3. liðinn snertir, skal jeg láta þess getið, að jeg skil ekki, hvað hv. flm. (JJ) meinar með honum. Það eru nefnilega að þessu leyti nákvæmlega sömu reglur um hæstarjett og undirrjett, hvenær dómarar eiga að víkja dómarasæti vegna skyldleika. Syni dómara er ekki bannað að flytja mál við hæstarjett. Afleiðingin er aðeins sú, að dómarinn verður að víkja sæti. Svo að það myndi ekkert bæta úr að taka upp ákvæði hæstarjettar um þetta.

Það er að vísu rjett hjá hv. flm. (JJ), að höfuðdómarinn sje sennilega vissari og betri dómari en setudómarinn. En jeg get ekki hugsað, að það hafi nein áhrif á þann mann, sem vill fara í mál. Jeg er alveg viss um, að sá, sem yfir höfuð fer í mál, hann vill fá sem bestan dómara. Jeg get ekki skilið, að nokkur fari í mál treystandi því, að málið dæmdi óæfður dómari, og þess vegna ynni hann það heldur, sjerstaklega þar sem viðkomandi aðili getur ekki vitað með vissu, hver fer með málið.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í ummæli hv. flm. (JJ), vegna þess að hann talaði um þetta meira frá almennu sjónarmiði, því sjónarmiði, að það gæti verið eitthvað, sem þyfti að athuga um dómaskipun við undirrjett. Þetta er ákaflega stórt mál, sem verður sjálfsagt ekki hægt að ræða mikið á þeim tíma, sem eftir er þings, Jeg skal drepa á viðvíkjandi því, að hv. þm. óttaðist, að till. kæmi ekki á dagskrá, að jeg hefi ekki orðið annars var en að hæstv. forseti hafi jafnan óhlutdrægt látið málin koma þegar í stað að undirbúningi þeirra loknum, ef kostur var á. Tel jeg því, að ástæðulaust hafi verið að óttast, að þetta mál yrði látið dragast úr hömlu.