17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

65. mál, milliþinganefnd til þess að íhuga landbúnaðarlöggjöf landsins

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Þess er getið í Landnámabók, að með Hrafna-Flóka, er hingað kom næstfyrstur manna til lands, hafi bóndi nokkur verið, er Þórólfur hjet. Þegar heim kom til Noregs, sagði hann, að hjer drypi smjör af hverju strái, og var hann fyrir því kallaður Þórólfur smjör.

Menn skyldu nú ætla, að ef þessi ummæli Þórólfs hefðu haft við rök að styðjast, þá stæði landbúnaður þessa lands með miklum blóma. Jeg hygg nú, að ekki láti fjarri, að Þórólfur hafi haft rjett fyrir sjer í ummælum sínum um landkosti hjer, því að þeir eru áreiðanlega miklir og góðir og landið mjög kjarngott. Hinsvegar bendir það ekki á þessi landgæði, hvernig landbúnaðinum hjá okkur nú er komið, því að áreiðanlegt er, að við stöndum nágrannaþjóðum okkar langt að baki í öllu, er lýtur að framförum í landbúnaði. Það er fyrst nú á síðustu árum, að kominn er nokkur skriður á það mál. Má það því merkilegra heita, sem þessi þjóð hefir til síðustu ára að mestu leyti lifað á landbúnaði einum saman. Sjávarútvegurinn hefir fram til síðustu aldamóta aldrei verið öðruvísi atvinnugrein en aðeins til styrktar aðalframfærsluatvinnuvegi þjóðarinnar, sem landbúnaðurinn hefir verið.

Nú fyrst á þessari öld hefir komist alvarlegur skriður á sjávarútveginn, og það í svo stórum stíl, að borið saman við efni og fólksfjölda landsins má hann teljast mjög þýðingarmikill atvinnuvegur fyrir þjóðina. Honum hefir fleygt fram á síðustu árum, enda eigum við sennilega langbestu fiskimið í heimi, og oft og einatt hefir arður sá, sem þessi atvinnuvegur hefir fært oss, verið geysimikill, en peningum þeim, sem hann hefir skapað oss, hefir auðvitað verið beitt honum til eflingar, og er í sjálfu sjer ekkert við það að athuga, á meðan ætla má, að atvinnuskifting þjóðarinnar milli þessara atvinnugreina, landbúnaðar og sjávarútvegs, sje á þá lund, að örugt megi telja um afkomu þeirra; og það er heldur ekkert um það að segja, þó að sjávarútvegurinn vaxi mun hraðar en landbúnaðurinn, ef afkoma þjóðarinnar er með því móti vel trygð. En þó hygg jeg, að nú sje svo komið, að ekki megi teljast hyggilegt, ef sjávarútvegurinn á að vaxa mikið fram úr því, sem nú er um langa stund, því að það er öldungis víst, að þótt landbúnaðurinn sje tekjurýrari, eða seinteknari tekjur af þeirri atvinnugrein, þá verður hann öruggara bjargræði fyrir þjóðarafkomuna, og því meiri röskun sem verður á því, hve mikill hluti þjóðarinnar vinnur að sjávarútvegi, og hve mikill að landbúnaði, því meiri hætta er á því, þegar illa árar, að þjóðin eigi erfitt með að bjargast.

Það má sjálfsagt með nokkrum rjetti segja, að sjávarútvegurinn hafi mjög unnið sig upp sjálfur; en því er þó ekki hægt að neita, að honum hefir verið látið mikið í tje af því fje, sem skapast hefir af atorku manna við önnur störf. Hinsvegar verður tæplega sagt um landbúnaðinn, að mikið hafi til hans gengið af fjármunum. Því hefir m. a. valdið, að landbúnaðurinn getur ekki borgað eins háa vexti og sjávarútvegurinn, þegar vel gengur, en þar sem veltufje og peningasöfnun í landinu er nær engin, segir það sig sjálft, að á meðan ekki ræður annað um útlán til þessara atvinnuvega en eftirspurn og það, að geta borgað háa vexti, þá fær sjávarútvegurinn miklu meira fje til umráða en landbúnaðurinn. — Nú mætti segja, að það væri sök sjer, ef landbúnaðurinn hefði haldið í horfinu, en það verður þó tæpast sagt, að svo sje. Á seinni árum hefir kveðið mjög mikið að því, að fólki fækki í sveitunum. Það hefir stefnt til sjávarins, og veldur því mest hraðfara aukning sjávarútvegsins á seinustu árum. En það veldur líka nokkru þar um, að fólki í sveitum hefir ekki vegnað eins vel og fólki við sjóinn, og því meira sem fækkað hefir í sveitunum, því erfiðara hefir alt orðið fyrir þeim, sem haldið hafa kyrru fyrir upp til sveitanna.

Þetta, sem hjer hefir átt sjer stað á síðari árum, bendir á, að hjer muni halda áfram að fækka fólki í sveitum, svo framarlega sem velgengni sjávarútvegsins heldur áfram eins og verið hefir síðustu árin, og svo framarlega sem Alþingi með löggjöf sinni gerir ekki eitthvað verulegt til að ljetta undir með starfsemi manna í sveitum. Jeg hefi ekki hitt neinn hugsandi mann fyrir, sem ekki viðurkenni, að það sje oss lífsnauðsyn að hugsa svo um landbúnaðinn, að hann gangi ekki saman frá því sem nú er, og hygg jeg, að menn, bæði til sjávar og sveita, sem eitthvað láta sig þessi mál skifta, telji, að oss beri að gera eitthvað í þessu efni, sjerstaklega til þess að auka ræktun landsins.

Ennfremur er það öldungis víst, að ef landbúnaðurinn á að standast líka samkepni og verið hefir á síðustu árum, þá verður að gera eitthvað meira fyrir hann en gert hefir verið, því að við höfum enn sama búskaparlag og getið er um að verið hafi á landi hjer stuttu eftir að það bygðist, og máske í einstökum tilfellum breytt til hins verra. Það er t. d. ekki nema stutt síðan bændur fóru að leggja stund á ræktun landsins, og það er aðeins á sárfáum stöðum, að hægt er að nota vjelar, svo að nokkru nemi. Það er sannfæring mín, að svo framarlega sem landbúnaðurinn á ekki að komast í kaldakol á allstórum svæðum, verði eitthvað að gera honum til ljettis og viðreisnar, og þó að hver einstaklingur verði að sjálfsögðu að leggja fram krafta sína til liðsinnis þessari atvinnugrein, má þó ekki gleyma því, að löggjafarvaldið getur gert mjög mikið landbúnaðinum til eflingar með starfsemi sinni og íhlutun, og það er meining mín, að til þessa beri okkur skylda, sem nú höfum með höndum löggjafarstarfsemi þjóðarinnar, og ekki síst nú fyrst og fremst að sinna þessu máli.

Jeg hefi leyft mjer að bera fram þessa till., er fer fram á það, að skipuð verði þriggja manna nefnd til að íhuga landbúnaðarlöggjöf vora, sem nú er, en jafnframt til að koma með þau nýmæli, er henni kann að þykja að orðið geti til styrktar þessari atvinnugrein. Jeg drap á það áður, að á síðustu árum hefði verið gert nokkuð til styrktar landbúnaðinum, frá því að Búnaðarfjelag Íslands varð til og fram til þessa tíma. Það hefir m. a. verið talsvert að því unnið að vekja áhuga manna fyrir ræktun landsins, en það getur líka naumast heitið, að fram til síðustu ára hafi verið gert neitt verulegt annað, því að það er aðeins á síðustu árum, sem farið er að gera frekari ráðstafanir. Sú stofnun, sem hefir látið sig mestu skifta um þetta mál, er Búnaðarfjelag Íslands. Það hefir nú ýmsar framkvæmdir og ýms málefni landbúnaðarins með höndum og veitir þeim forsjá. Á frv. því til fjárlaga, er nú liggur fyrir, er Búnaðarfjelaginu veitt, beint og óbeint til þeirrar starfsemi, á fjórða hundrað þús. kr., og má heita, að það ráði mestu um það, hvernig þessu fje er varið. Þetta er líka öldungis eðlilegt, þar sem þetta er stofnun, sem á að hafa aðalforsjá í ræktunarmálum; en svo vill þó til um þessa stofnun, að hún starfar ekki samkvæmt neinum lögum, er Alþingi hefir sett. Búnaðarfjelagið hefir að vísu sínar samþyktir að styðjast við, sem Búnaðarþingið hefir gert, en landslög eru engin til um starfsemi þess. Þetta tel jeg óheppilegt, og það því athugaverðara, sem fjelagið fær meira og meira verkefni til meðferðar, og þar sem vænta má, að það komi máske til með að ráða yfir miklu meira fje en það hefir nú, þá hygg jeg, að það sje í alla staði nauðsynlegt að setja lög um Búnaðarfjelagið sjálft, hvernig það skuli starfa. Þetta finst mjer að ekki geti verið neitt ágreiningsatriði á milli manna, því að það er í alla staði sjálfsagt, að Alþingi, sem veitir þessari stofnun afarmikið fje, ráði einnig yfir meðferð fjárins, eða að það búi svo um hnútana, að nokkum veginn sje sjeð fyrir því, að ekki hendi veruleg mistök um ræktunarmálin. Jeg hygg, að atburður einn, sem gerst hefir fyrir stuttu, bendi í þá áttina, að þetta sje rjett, en annars skal jeg ekki fara út í það nú. Jeg get drepið á nokkur þau mál, sem Búnaðarfjelagið hefir nú með höndum. Þar er m. a. jarðræktarlögin, sem það hefir annast allar framkvæmdir á, sömuleiðis um sandgræðslu, svo og umsjá með öllum búnaðarfjelögum landsins.

Þegar hins vegar er litið á löggjöfina um landbúnaðinn, sjer maður fljótlega, að ekki er hægt að segja, að hún sje í sem heppilegustu samræmi. En sitthvað af því, sem ber á milli, mætti betur fara, ef hún væri endurskoðuð í heild. Þannig er um ýms lagafyrirmæli, er snerta ýmsar stofnanir, er Búnaðarfjelag Íslands á að sjá um, og auk þess ýmislegt fleira, er samkvæmt eðli sínu ætti að heyra undir Búnaðarfjelagið. Skal jeg þar t. d. nefna búnaðarskólana, sem nú eru undir eftirliti atvinnumálaráðuneytisins, en ættu að sjálfsögðu að vera undir umsjá Búnaðarfjelagsins, sem er undir eftirliti þess ráðuneytis. Svo er og um skóggræðslu og þjóðjarðir, að þau mál heyra nú undir atvinnumálaráðuneytið, en ættu að mínum dómi að heyra undir Búnaðarfjel., því að jeg lít svo á, að þeirri stofnun sje nauðsynlegt að vita sem glöggust skil á öllu því, sem landbúnað varðar. Ræktunarsjóðurinn er undir umsjá fjármálaráðuneytisins, og má ef til vill með sanni segja, að ekki sje ástæða til þess að breyta þar um, vegna þess að það er fjármál, en samkvæmt eðli sínu væri þó rjett, að Búnaðarfjelagið hefði umsjá hans á hendi. Þó legg jeg ekki mikið upp úr því, að þessu sje breytt. Aftur á móti ætti umsjá með kirkjujörðum, sem nú heyrir undir dómsmálaráðuneytið, að vera undir um- sjá Búnaðarfjelagsins, a. m. k. umsjá þeirra kirkjujarða, sem prestar hafa ekki til ábúðar.

Þá ætla jeg að víkja að nokkrum atriðum, sem drepið er á frekar í þáltill., en jeg skal fara þar fljótt yfir sögu og lengja ekki umræður meir en þörf er á. Skal jeg þá fyrst minnast á 3. liðinn, um skifting jarða og stofnun nýbýla. Löggjöf um þetta efni er gömul og fyrirmælin þar um ekki fullnægjandi. Þau lúta að því eingöngu, ef teknar eru eyðijarðir eða óræktað land í afrjettum eða almenningum til nýbýla, en engin fyrirmæli eru til um það, hvernig eigi að skifta jörð, sem er í ábúð. Það er að vísu rjett, að mestur hluti landsins kemur ekki til greina í þessu efni, að jörðum verði skift vegna nýbýla, eins og nú er ástatt. Það á aðeins við um sjerstakar sveitir, þar sem stórfeldar jarðabætur, svo sem áveitur, hafa verið gerðar, eins og er í Ámessýslu. Jeg geri fyllilega ráð fyrir því, að ef þau áveitufyrirtæki hepnast vel, þá geti býlum fjölgað þar að miklum mun, en til þess að það geti orðið þarf löggjöf um heppilega skiftingu jarðanna, því að annars verður skiftingin af handahófi og ekki sem heppilegust upp á ræktun landsins eða afkomu þeirra, sem nýbýlin stofna. Einnig gæti farið svo, að of mjög yrði gengið á hluta þeirra, sem gæfu kost á skiftingu jarða sinna í þessu skyni.

Jeg hljóp yfir 2. lið till., enda ætla jeg mjer ekki að fjölyrða um hann. En jeg skal þó geta þess, að lagafyrirmæli um þetta efni, not á erfðafestulöndum og leigulóðum, eru mjög á reiki og mismunandi, eftir því hvar á landinu er. Stundum ræður mat óvilhallra manna, en stundum aðeins samkomulag aðilja. En þetta verður oft og einatt til þess að tefja fyrir ræktun landsins, og er því nauðsynlegt að setja föst ákvæði um það efni.

Þá kem jeg að 4. lið till., um það, hvort ekki muni rjett að breyta lögum um búnaðarskólana í þá átt, að nemendur sjeu skyldugir til þess að stunda þar verklegt nám, eða í sambandi við þá. Það var stuttu eftir aldamótin, að búnaðarskólunum var breytt í það horf, sem nú er. Áður var þar bæði bókleg og verkleg kensla. Árið 1905 voru sett ný lög um það, að nemendur væru ekki skyldir til þess að stunda þar verklegt nám. Þetta verð jeg að telja mjög óheppilega breytingu. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Hitt væri nær, úr því að breytingin var til hins verra, að breyta aftur í gamla horfið. Það er sannfæring mín, að þótt gott og gagnlegt sje fyrir bændaefni að stunda bóknám, þá sje þeim ekki síður nauðsynlegt að fá verklega þekkingu. Og það hefir við mikil rök að styðjast, sem sagt hefir verið, að ræktun landsins sje skamt á veg komin vegna þess, að verkleg kunnátta okkar sje enn í bernsku. Þess vegna er í alla staði nauðsynlegt að skylda búnaðarskólanemendur til ekki minna verklegs náms en áður var.

Það er áreiðanlegt, að sveitamenn skortir ekki fyrst og fremst bókþekkingu. Sveitirnar skortir menn, sem kunna að vinna af dugnaði og hagsýni. Jeg skal þó játa það, að bókfræði er bændum til styrktar í starfi sínu, en án verklegrar þekkingar nægir hún alls ekki.

Jeg hefi með vilja orðað þennan lið till. eins og hjer stendur, vegna þess, að svo getur staðið á, að í skólunum sjálfum sje ekki hægt að koma við ýmsum búnaðarframkvæmdum, en þó svo nærri, að nemendur geti tekið þátt í þeim störfum, og það er rjett, að þeir eigi kost á þesskonar lærdómi, enda þótt ekki sje hægt að koma honum við á skólasetrunum sjálfum.

Jeg hygg, að menn geti ekki deilt um það, að þessar breytingar sjeu nauðsynlegar og að þessu þurfi að kippa sem fyrst í lag.

Þá er 5. liður till., um endurskoðun jarðræktarlaganna. Jeg tók þetta atriði með, vegna þess, að þessi endurskoðun liggur við borð hvort sem er. Mjer þætti eðlilegt, að þeim lögum væri breytt á þann hátt, að fleira væri tekið upp í þau, en jeg skal þó ekki fjölyrða um það nú.

6. liðurinn er um endurskoðun laga um bygging, ábúð og úttekt jarða. Þessi lög voru góð á sínum tíma og sennilega með bestu lögum, enda má sjálfsagt megnið af þeim standa. En þó eru þar ýms atriði, er betur mættu fara á annan veg, t. d. ákvæðin um ábúð og jarðrjettindi leiguliða. Jeg held, að það væri heppilegt að hafa í lögunum ákvæði um erfðaábúð, þ. e. a. s. að afkomendum ábúanda sje trygður forgöngurjettur að jarðarábúð, að öðru jöfnu. Með því móti hafa menn meiri hvöt til þess að stunda jarðabætur, ef þeir eiga þess von, að þeir eða afkomendur þeirra njóti uppskerunnar af starfinu og kostnaðinum. En nú eru ákvæði laganna þau, að niðjar hafa ekki meiri rjett til ábúðar en hver annar maður, sem sækir um jörðina til ábúðar. Ýms önnur ákvæði mættu og betur fara, en þetta finst mjer mestu máli skifta.

Þá er síðasti liður till., er lýtur að því, að nefndin komi fram með þær umbætur aðrar, er hún kynni að koma auga á, nýmæli eða annað. Þetta tel jeg nauðsynlegt og býst við, að fleiri sjeu þar á sama máli, að við verðum í náinni framtíð að láta okkur ræktun landsins meira máli skifta en verið hefir.

Jeg skal ekki fara að tína alt til, sem fyrir mjer vakir í þessu sambandi. Vænti jeg þess, að þeir, sem álíta, að till. hafi rjett á sjer, geti ekki verið á móti henni af þeirri ástæðu, að eitthvað sje ekki tekið þar sjerstaklega fram.

Að lokum skal jeg geta þess, að mjer er ekki neitt kappsmál, hver á að skipa nefndina. Þegar jeg hugsaði till., var jeg að velta því fyrir mjer, hvort betra mundi, að þingið skipaði nefndina eða stjórnin, en mjer liggur í ljettu rúmi, hvort ofan á verður, því að jeg treysti því, að valið á mönnunum megi takast svo, að sitthvað gott og gagnlegt geti leitt af starfi nefndarinnar. Erlendar þjóðir láta sig þetta mál miklu skifta og með löggjöf er sjerstökum mönnum þar falið að starfa að því. Þetta er mikið verkefni og vandasamt og hlýtur að taka langan tíma. Og þótt einhverju verði ábótavant, þótt ekki næðist hinn ákjósanlegasti árangur af starfi nefndarinnar, þá er jeg þess þó fullviss, að mikið gott og gagnlegt muni af því leiða fyrir landbúnaðinn. Og þá er tilgangi mínum með þáltill. náð.