15.05.1926
Sameinað þing: 8. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (3441)

Þinglausnir

forseti (JóhJóh):

Þá er nú störfum þessa 38. löggjafarþings íslensku þjóðarinnar lokið, eftir að þingið hefir átt setu í 99 daga. Á þessu þingi hefir verið unnið mikið, deildafundir verið margir og langir og nefndstörf ærin.

Þinginu auðnaðist ekki að binda enda á seðlaútgáfumálið. Hinsvegar hefir það sett lög um nýjan banka, samþykt fjárlög, sem kalla má sæmileg, og ljett sköttum, sjerstaklega af framleiðslunni.

Af öðrum lögum, sem þingið hefir samþykt, vil jeg sjerstaklega nefna hin nýju fræðslulög, lögin um skipströnd og vogrek, lögin um útsvör og lögin um kosningar í málefnum sveita og bæja, sem alt eru allmiklir lagabálkar, og loks lögin um framlag til kæliskipskaupa, sem þegar má segja, að komin sjeu til framkvæmdar.

Að svo mæltu vil jeg leyfa mjer að óska öllum utanbæjarþingmönnum góðrar heimferðar og gleðilegrar heimkomu.

Þeim tveimur háttvirtu landskjörnu þingmönnum, er setið hafa á þessu þingi, en auðsætt er, að ekki muni eiga setu á næsta Alþingi, vil jeg sjerstaklega leyfa mjer að færa þakkir fyrir samstarfið og samveruna í vetur.

Þá stóð upp forsætisráðherra Jón Magnússon og las upp konungsumboð sjer til handa til þess að segja Alþingi slitið, þá er það hefði lokið störfum sínum.

Samkvæmt því umboði lýsti forsætisráðherra yfir því í nafni konungs, að þessu 38. löggjafarþingi Íslendinga væri slitið.

Stóð þá upp Klemens Jónsson, 2. þm. Rang., og mælti :

„Lengi lifi konungur vor, Kristján hinn tíundi!“

Tóku þingmenn undir þau orð með níföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.