12.03.1926
Efri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Það er búið að þrátta heilmikið um þessa brtt., og ekki hefi jeg tölu á, til hvað margra manna hefir verið vitnað, en báðir aðiljar hafa þóst hafa mikið til síns máls. En fyrir mjer er málið mjög ljóst og mjer finst brtt. hv. 1. þm. Eyf. miklu betri en brtt. nefndarinnar. Það getur vel farið svo, að kostnaðurinn verði svo tilfinnanlegur, að ekki sje hægt að láta folöldin ein bera hann. (EP: Jú). Það dugir nú ekki að segja jú, án þess að færa nein rök fyrir sínu máli. Ef brtt. háttv. 1. þm. Eyf. er samþykt, þá eru menn ekki neyddir til að gera neinar samþyktir, og tel jeg það fremur til bóta. Það liggur í hlutarins eðli, að það geta verið svo fá folöld og gjaldið svo hátt, að menn vilji ekki vinna til þess, að nokkurt folald komi.

Hv. 1. þm. Eyf. áætlar kostnaðinn við hvern kynbótafola 200 kr. árlega, en þetta er alt of lágt reiknað. Kostnaðurinn hlýtur að verða miklu meiri. (EÁ: Jeg vildi ekki fara of hátt). Því að gera verður ráð fyrir, að sæmilega sje farið með hestinn. Það var minst á 3. gr. frv., og mjer finst hún hreinasta athlægi. Hún byrjar svona: „Á hverjum vetri skal hrossakynbótanefnd. með samkomulagi við eigendur“ o. s. frv.

Hvaða eigendur? (EÁ: Það var að mjer komið að spyrja líka). Þessu frv. veitir ekki af að vera á ferðinni á nokkrum þingum enn, áður en það verður ógallað. T. d. í sjávarþorpi, þótt engin hryssa sje þar til, eiga að vera til hæfilega margir kynbótahestar. Svo segir hv. frsm. (EP), að það gæti viljað til, að í hreppi væru margar hryssur, en enginn hestur — en þá hreppa þekki jeg ekki.

Mjer finst, að hv. 1. þm. Eyf. hafi farið nokkuð á bak við hv. deild með brtt. sína við 2. gr. frv., þótt máske sje það óviljandi gert, þar sem nokkrir hv. þm. eru fjarstaddir, og þar á meðal sá háttv. þm., sem mest hjelt fram rjetti og skyldum kvenfólksins í svipuðu máli fyrir skömmu. (JóhJóh: Hann tekur brtt. aftur til 3. umr.). Það þykja mjer ekki ósanngjörn tilmæli, og vona jeg, að hv. nefnd athugi tillöguna, og eins að hún taki 3. gr. til rækilegrar yfirvegunar, því að eins og hún er orðuð, má hún varla heita vansalaus.