15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Jón Baldvinsson:

Jeg skil ekki, hvers vegna hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) dregur frv. um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða inn í þessar umræður. Af því jeg vil veita 21 árs gömlu fólki kosningarrjett, þá ályktar hann af því, að ósamræmi sje milli þeirrar tillögu minnar og þessarar, um að banna unglingum innan 18 ára aldurs aðgang að billiardstofum. Eftir þessu að dæma lítur hv. þm. (ÁJ) svo á, að þessar stofur sjeu uppeldisstofnanir, sem þroski menn og geri þá betur hæfa til að fara með kosningarrjett sinn. En jeg er þarna alveg á gagnstæðri skoðun við hv. þm. (ÁJ). Jeg álít það ekkert þroskavænlegt fyrir unglinga að hafast við á þessum billiardstofum. Að bægja þeim þaðan er síður en svo í ósamræmi við kosningarrjettartillögur mínar.

Út af hinni brtt. vil jeg benda hv. þm. (ÁJ) á það, að það er hart ef veitingamenn og gistihúsaeigendur eru undir vægari ákvæðum að því er snertir brot á bannlögunum heldur en læknar, og það er þetta, sem tillaga okkar fer fram á að leiðrjetta í frv.