15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Frsm. (Árni Jónsson):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) undraðist yfir því, að bannlagabrjótar sættu of vægri meðferð. En jeg vil benda. hv. þm. á það, að til eru miklu svívirðilegri afbrot en bannlagabrot, afbrot, sem einmitt getur komið fyrir, að framin sjeu á gistihúsum. Jeg skal t. d. benda á eitt slíkt mál, sem kom upp hjer í bæ fyrir nokkrum árum. Þar var um hvíta þrælasölu að ræða. En frv. þetta, sem hjer er um að ræða, tel jeg vera nægilega yfirgripsmikið.

Háttv. þm. læst ekki skilja, hvað það komi málinu við, sem jeg tók fram um skoðun hans á 18 ára unglingum og tvítugum unglingum. Háttv. þm. mun varla geta talið nokkrum þm. trú um, að unglingar, sem eru svo óþroskaðir 18 ára að aldri, að ekki megi treysta þeim til að koma inn í billiardstofu án þess þeir líði tjón á sálu sinni, sjeu orðnir svo þroskaðir 21 árs, að þeim sje vel treystandi til að fara með kosningarrjett og vera í ráðum um öll helstu vandamál þjóðarinnar.