04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

8. mál, skipströnd og vogrek

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, vil jeg segja nokkur orð, í viðbót við það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði. Vil jeg í allri vinsemd beina því til hv. þm. N.-Ísf., að hann getur slegið striki yfir öll sín ummæli um, að hjer sje verið að beita eigendur skipa misrjetti, ef hann vill gera svo vel að lesa 7. gr. vandlega og viðbót allshn. við 1. gr.

Þessi viðbót er um það, að tilkynna skuli eigendum og vátryggjendum skips og farms, ef vitað er, hverjir eru, svo fljótt sem auðið er, hvar komið sje með skipið. Þegar þeir hafa fengið tilkynningu, eiga þeir kost á að koma sjálfir á strandstaðinn, eða senda sinn umboðsmann, og ráða þeir þá alveg sjálfir, hve með er farið. Jeg veit satt að segja ekki, hvernig hægt er að tryggja rjett þeirra betur. Það, sem menn verða að skilja, er, að aðalefni þessa frv. er að segja fyrir um, hve með skuli farið, ef eigendur taka ekki sjálfir að sjer björgunina. Má jeg nú spyrja, — hvað meinar þeim góðu mönnum að taka að sjer björgunina? Jeg fæ ekki sjeð, hvað það getur verið. Ef ekki næst til þeirra, verða íslensk stjórnarvöld að taka málið í sínar hendur. Jeg get ekki skilið, að mönnum þurfi að blandast hugur um það, að meiru verður bjargað, ef björgunarlaunin eru sæmileg.

Get jeg ekki heldur sjeð neitt ósamræmi í ákvæðum frv., nje að neitt hærra sje hossað þeim kjördæmum, sem við hv. þm. V.-Sk. erum fulltrúar fyrir, en hverjum öðrum landshlutum. Hvað eigingjarnir og ásælnir sem við hefðum verið, held jeg, að ómögulegt hefði verið fyrir okkur að þjóna lund okkar í þessu máli. — Ef hv. þm. vill gæta betur að, hlýtur hann líka að sjá, að þetta er hrein og bein fjarstæða. Eitt, sem sýnir, hve lítt yfirveguð þessi orð hv. þm. hafa verið, er, að hann segir, að bæði innlend og útlend skip verði fyrir ýmislegum halla, sem hann nefndi, af ákvæðum frv., ef að lögum verða. Til þess að hrekja þetta er nóg að benda hv. þm. (JAJ) á að lesa 21. gr. frv. Þar er skýrt tekið fram, að mikið af ákvæðunum nær ekki til íslenskra skipa. — Jeg held, að jeg hafi tekið það fram áðan, að til nefndarinnar kom forstjóri Samábyrgðarinnar, og varð hann að viðurkenna, að óánægja hans með þau ákvæði, sem hann hafði mest á móti, væri þegar fallin burtu.