26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

126. mál, verðtollur

Halldór Stefánsson:

Af því að jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, þykir mjer rjett að láta þess getið, í hverju hann er fólginn. Jeg met þetta mjög í sambandi við fjárhagsástæður ríkissjóðs og fjárþörf og hinsvegar við það, hverja afgreiðslu vörutollsfrv. fær, sem er næst á dagskránni, og snertir fyrirvari minn einkum till. nefndarinnar um að taka undir toll þær vefnaðarvörutegundir, sem áður hafa verið undanskildar verðtolli, og lækka þá um leið tollprósentuna. Jeg get skilið, að töluverðir annmarkar geti verið á því að hafa þessa undanþágu.

Jeg hefi hugsað mjer að bera fram brtt. við næsta málið á dagskránni, um að undanþiggja kornvörur vörutolli, og ef fallist verður á það, þá get jeg því frekar fallist á að taka þessar vefnaðarvörutegundir undir toll. Af þessu leiðir, að það er nokkuð undir því komið, hvernig fer um þessa till. mína, hvort jeg mun telja mig bundinn við till. nefndarinnar framvegis. Ef svo færi, að kornvörur gengju undan tolli, mundi jeg geta fallist á að taka undir verðtoll hinar ódýrari vefnaðarvörur, vegna þeirra annmarka, sem á því eru að hafa sumar vefnaðarvörur tollaðar, en aðrar ekki. Annars mun jeg gera frekari grein fyrir þessu við umr. um næsta mál á dagskránni, vörutollinn.