26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

126. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Menn munu ekki hafa ætlað það, eftir þeim sterku orðum, sem fjellu á þinginu 1924, um að þessi tollur ætti aðeins að vera til bráðabirgða, til þess að hægt væri að borga lausu skuldirnar, að hann yrði að 2 árum liðnum gerður að föstum skattstofni. Hið sama átti að gilda um gengisviðaukann, en nú er búið að festa hann í löggjöfinni og gera hann að föstum tekjustofni, og nú á að fara eina að með verðtollinn. Hv. nefnd hefir gengið inn á það að sleppa öllum tímaákvæðum um gildi laganna, og alt útlit virðist vera á því, að hv. deild ætli sjer að samþykkja þetta og gera verðtollinn að föstum tekjustofni líka. Og það á heldur ekki að nægja að halda tollinum við á þeim vörutegundum, sem tollaðar hafa verið, heldur á nú líka að leggja verðtoll, 10%, á þær ódýru vefnaðarvörutegundir, sem hingað til hafa ekki verið tollaðar, einmitt þær tegundir, sem fátækt fólk notar mest til fata. Það er talað um það, að það sje erfitt að gæta laganna, og miklu erfiðara, ef um undantekningar sje að ræða. Það er vitanlegt, að það þarf altaf nokkuð til að hafa tollgæsluna í góðu lagi, og ef hún er það ekki, álít jeg, að úr því eigi að bæta með því að auka eftirlitið; og jeg hygg, að það muni borga sig. Ef gæslan er í góðu lagi, gerir ekkert til, þó að varan sje flokkuð, því að þá er hægt að sjá um, að tollskyldar vörur fljóti ekki inn í skjóli hinna, með því að skoða alt. Nú þegar kominn er bæði þungatollur, verðtollur og gengisviðauki, er tolllöggjöfin orðin svo margþætt, að mjer finst, að ástæða væri til að athuga, hvort ekki væri rjett, áður en lengra er gengið, að setja milliþinganefnd til þess að athuga þetta mál í heild og gera till. um tollmálið í heild. Það virðist vera fyllsta ástæða til að endurskoða alla tolllöggjöf landsins, en það er svo mikið verk, að til þess hefir þingnefnd engan tíma. Að samþykkja nú áframhaldandi verðtoll og gengisviðauka álít jeg, að sje brigð gagnvart þjóðinni af hálfu þeirra hv. þm., sem beinlínis lofuðu því á þinginn 1924, að þessar álögur ættu aðeins að gilda um stundarsakir, meðan verið væri að rjetta við fjárhag ríkissjóðs. Jeg býst nú samt ekki við því, að mótmæli dugi mikið, en ætla að greiða atkvæði á móti frv. og þeirri breytingu að taka undir toll þessar vefnaðarvörutegundir, sem tollfrjálsar hafa verið. Með þeirri breytingu er ekki lítill skattur lagður á einmitt þá, sem síst mega við meiri álögum en áður eru fyrir; þær eru þegar ærið þung byrði.