26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það getur verið, að þessi umrædda breyting hafi í för með sjer einhverja verðhækkun á þessum ódýrari vefnaðarvörutegundum, en jeg býst þó við, að hún verði; lítil eða jafnvel engin. Það er nefnilega þess að gæta, að um leið og lög þessi ganga í gildi lækkar tollurinn yfirleitt, og jeg held, að það sje nokkurnveginn algild regla hjá vefnaðarvörukaupmönnum nú að jafna þeim tolli, sem þeir greiða hlutfallslega jafnt niður á tollskyldar og ótollskyldar vörur. Með því móti skilst mjer, að þessi breyting muni frekar hafa í för með sjer verðlækkun en hækkun, því að tollprósentan lækkar. Það hefir aldrei verið kvartað yfir því, að eftirlitið með greiðslu vörutollsins væri ekki í lagi; það er misskilningur hjá hv. þm., að hægt sje að flytja inn vörur án þess að greiða af þeim toll. Þess er gætt bæði af lögreglustjórum og með endurskoðun, sem fer fram í stjórnarráðinu, að tollur sje greiddur af öllum vörum, sem eru á farmskrám skipanna. Það væri þá helst í farþegaflutningi, að brögð gætu verið að því, en það er svo lítið, sem þannig er hægt að flytja inn, í samanburði við það, sem flyst í lestarúmum skipanna, að þess hlýtur að gæta lítið. Það er einnig þetta, að framkvæmd vörutollslaganna er í tiltölulega góðu lagi, sem gerir það að verkum, að það er leiðinlegt, ef misbrestur verður á hliðstæðri framkvæmd verðtollslaganna, vegna þess að sundurgreining laganna á tollskyldum og ótollskyldum vörum er óljós. Það getur verið satt, að tollalöggjöfin sje flókin og sje ekki hægt fyrir aðra að átta sig á henni en þá, sem hafa haft tækifæri til þess að fást við slíkt. En úr þessu er hægt að bæta, og jeg hefi hugsað mjer að gera það, en jeg hefi ekki viljað byrja á því fyr en útsjeð er um forlög þessarar löggjafar núna á þessu þingi. Jeg hefi hugsað mjer að láta gera vöruskrá til afnota fyrir lögreglustjóra og innflytjendur, þar sem tilgreint er við hverja vörutegund, undir hvaða tollflokk hún heyrir. Þó að þetta geti ekki orðið tæmandi, sjerstaklega að því er snertir 7. flokk, ætti það þó að geta verið mjög viðunandi leiðbeining. Jeg hefi ekki trú á því, að þessi löggjöf verði bætt nokkuð að ráði að svo stöddu með skipun milliþinganefndar. Þá get jeg ekki kannast við það, að það sje brigðmælgi gagnvart þjóðinni að lögleiða þennan verðtoll. 20% verðtollurinn, sem settur var á þinginu 1924, var að vísu bráðabirgðaráðstöfun, en það þing gat ekki bundið hendur komandi þinga um skattalöggjöfina. En menn hafa yfirleitt verið ánægðir með verðtollinn, sem vel er skiljanlegt, því að hann er mest lagður á vörur, sem ekki er óeðlilegt að tolla hærra en gert var með vörutollslögunum.