29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg held, að engin ástæða sje til þess að samþykkja varatill. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 445, af því að jeg held, að hv. deild verði að gera sjer það ljóst, að í þessum tollmálum er komið inn á þá braut, með breytingum þeim, sem gerðar voru á vörutollslögunum við 2. umr. nýlega, að óhugsandi er, að verðtollurinn megi falla niður 1. maí 1928. Svo að það er aðeins til þess að gera þingstörfin erfiðari og auka vafstur við endurnýjun verðtollslaganna að vera að koma með þetta ákvæði.

Þegar vörutollurinn var lækkaður, áleit jeg, að þingið hefði í raun og veru valið á milli hans og verðtollsins, og þar sem það var framkvæmt í gær að lækka vörutollinn, þá álít jeg, að hv. þm. verði að taka fult tillit til þess við afgreiðslu verðtollsins hjer í þessari hv. deild.