21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Við 2. umræðu þessa máls lýsti jeg allítarlega ókostum þess eins og stjórnin hafði borið það fram.

Jeg ljet í ljós, er jeg hafði hrakið allan vef hæstv. ráðh. (JÞ), að óhugsandi væri annað en að hann kæmi með brtt. við 3. umr., sem gerði málið forsvaranlegt. Þar sem jeg veit, hvað hæstv. ráðherra er seinn að hugsa, eins og nýlega kom fram í athugasemd hans við gerðabók Nd., fanst mjer vingjarnlegt af mjer að vænta þess, að honum nægðu 2 nætur til þess að snúast í þessu máli. Jeg gerði mjer vonir um, að hann mundi hætta við laumuspil sitt, og ef hann hefir í huga að taka 9 milj. kr. lán, þá mundi hann þora að segja þjóðinni frá því. Jeg bjóst við, að þegar hann liti yfir stjórnmálaferil sinn og sæi, að þrátt fyrir góðærið hefir honum tekist með stjórnarráðstöfunum sínum að verða orsök til gjaldþrota, vesældar og atvinnuleysis, þá mundi hann lýsa því yfir um leið og hann bæði um nýtt lán, að hann væri fallinn frá þeirri stjórnarstefnu, sem hefir borið þessa ávexti. En þó að jeg sýndi hæstv. ráðherra þetta traust og greiddi frv. atkvæði til 3. umræðu, í von um að stjórnin betraði sig, get jeg ekki fylgt því lengur. Jeg sje, að hæstv. ráðherra ætlar að halda áfram sömu óstjórninni og láta skeika að sköpuðu um, hve langt verður þar til aftur þarf að taka 9 milj. kr. lán til þess að borga vexti og töp af því, sem nú er tekið.

Jeg skal enn drepa á helstu galla þessa frv. í fyrsta lagi er það laumuspil, sem hjer hefir verið viðhaft, fordæmt af mörgum, m. a. hefir hv. 1. þm. G.-K. (BK) rjettilega tekið það fram á nefndarfundi, að hjer væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Þingið gæti ekki gefið heimild fyrir ótakmörkuðu láni án þess að brjóta stjórnarskrána. Jeg er samþykkur hv. þm. (BK) um þetta. Stjórnin hefir reynt að framkvæma stjórnarskrárbrot, og þó að hæstv. ráðh. hyggist að gera bragarbót með einhverri málamyndabókun, er það engin trygging gagnvart þjóðinni. Form laganna stendur, hvað sem hæstv. ráðh. krotar í gerðabækur einhverra nefnda hjer í þinginu.

Í öðru lagi er hjer verið að taka lán handa banka, sem ekkert hefir með það að gera. Landsbankinn hefir nú 4 miljónir af handbæru fje erlendis. Fyrir sjálfan sig hefir hann ekkert við þessa viðbót að gera. Má vera, að stjórnin hafi misnotað aðstöðu sína gagnvart bankanum með því að skjóta honum fram fyrir sig. Hæstv. ráðh. hefir ekki reynt að fóðra það, enda ekki hægt, að þegar Íslandsbanki biður hann um hjálp, fer hann ekki beint til þingsins, heldur hygst hann að ýta Landsbankanum fram fyrir sig til að taka lán, sem ráðh. telur sig þurfa handa öðrum banka. Stjórnin tekur sjer vald, sem hún ekki hefir, og ætlar ekki að láta þingið vita um þessa ráðstöfun, þótt það sje starfandi. Það var útlendum mönnum að þakka, að þingið fjekk að vita hvað var á seiði. Stjórnin veit, að þetta er lán aðeins til eins árs. Hún veit, að í landinu, sem lánið er tekið, eru það lög, að ekki megi lána fje til annara ríkja nema til eins árs. Hún veit, að vel gætu þau atvik orðið, að lánið yrði að greiða eftir eitt ár. Þrátt fyrir það ráðstafar hún hluta af láninu til banka, sem engar líkur eru til, að geti endurgreitt það eftir eitt ár. Íslandsbanki hefir reikningslán í Englandi, svipað því, sem hjer er um að ræða. Þetta lán mun hann nú hafa notað upp að fullu og eitthvað meira. Hvaða líkur eru þá til þess, að Íslandsbanki geti staðið í skilum 1927, þegar hann getur ekki nú staðið í skilum við viðskiftabanka sinn í Englandi, sakir fjárkreppu þeirrar, sem hæstv. ráðherra hefir búið til, auk þess sem hann þarf að standa í skilum við viðskiftabanka sína í Danmörku og víðar? Að vísu hafa gerst kraftaverk, en jeg býst tæplega við að þau verði hjer. Í þessu sambandi má og minna á það, að ennþá hefir Íslandsbanki ekki greitt Landsbankanum lán það, sem hann fjekk í fyrra og hæstv. forsrh. beitti sjer svo mjög fyrir á einkafundi í sameinuðu þingi. Ennþá hefir hæstv. ráðherra ekki gert hina minstu tilraun til að verja, hvernig komið er fyrir atvinnuvegum landsins fyrir hans tilstilli. Á honum þó að vera það fyllilega ljóst, fyrst og fremst af hans eigin blaði, og ennfremur hefir einn úr miðstjórn Íhaldsflokksins lýst því, hvernig komið er fyrir þeim sökum hinnar miklu gengishækkunar, sem hæstv. ráðherra á mesta sökina á. Honum er og kunnugt um, hvernig komið er fyrir sumum útgerðarfjelögunum. Eitt getur hvorki greitt tekjuskatt eða útsvar, eftir því, sem framkvæmdarstjórinn segir, og mörg eru svo lömuð, að þau bíða þess seint eða aldrei bætur. Þannig telur t. d. maður nákominn „Kára“-fjelaginu, að það fjelag hafi tapað 80 þús. króna fyrir gengishækkunarráðstafanir hæstv. stjórnar. Þetta meðal annars sýnir átakanlega, hver áhrif gengishækkunin hefir haft á afkomu atvinnuveganna. Þá er þess ekki að vænta, að ástandið hjá hinum aðalatvinnuveginum sje betra, því hann hefir engu síður orðið fyrir böli gengishækkunarinnar. Enda mun nú þröngt fyrir dyrum hjá mörgum bóndanum. En jeg býst við, að það gleðji hæstv. forsrh., að bændur í fæðingarsýslu hans, Vestur-Húnavatnssýslunni, eru þegar orðnir þroskaðri í þessum gengismálum og skilja þau betur en hann og hans fylgifiskar, því að síðastl. vetur samþyktu þeir — að viðstöddum íhaldsþingmanninum Þórarni Jónssyni — tillögu, sem var fullkomið vantraust á gengispólitík hæstv. ráðherra. Þetta gerðu þeir þrátt fyrir mótmæli þingmannsins, stuðningsmanns hæstv. ráðherra bæði í þessu máli sem öðrum.

Mjer er kunnugt um, að síðan jeg skrifaði nefndarálit mitt í máli því, sem hjer er til umræðu, og lýsti, hvernig skuldamálunum er nú komið, hvílíkt dýpi þau eru að verða, þá hefir um fátt verið tíðræddara í herbúðum Íhaldsins, og er það síst að undra, því flest lán ríkisins og ábyrgðir eru undirskrifuð af ráðherrum íhaldsins. Og það virðist undarleg rás viðburðanna, að núverandi hæstv. forsrh. og fjrh. skuli, þegar fram á þetta ár kemur, verða kominn fram úr stjettarbróður sínum, hæstv. atvrh. (MG), með lántökur og skuldbindingar fyrir ríkisins hönd, þeim hinum sama manni, sem hann hefir áður hirt og flett ofan af fyrir ógætilega fjármálastjórn.

Þetta ástand er þegar orðið mikið áhyggjuefni öllum hugsandi mönnum. Menn hjeldu ekki, að viðreisnfjárhagsins, sem hæstv. forsrh. hefir svo mjög gumað af og haft fyrir slagorð á síðustu árum, væri fólgin í því að sökkva landi og þjóð dýpra og dýpra niður í hyldýpi skulda og volæðis, eins og reynslan virðist ætla að staðfesta í þessu tilfelli.

Aðalverkefni þjóðarinnar eins og nú er komið verður fyrst og fremst það, að reyna að losna við þá mjög óhæfu menn, sem að þarflausu hafa sökt landinu í botnlausar skuldir og komið atvinnuvegunum í þá kreppu, sem þeir seint komast úr.

Í sambandi við þau slagorð hæstv. forsrh., að hann ætli að vinna að því, að landið verði orðið skuldlaust 1943, vil jeg minna hann á frv. um síldarsölu, sem samþykt var í fyrra. Frv. það var borið fram af tveimur Íhaldsmönnum og fjekk þegar nokkurn stuðning hjá Framsóknarflokknum. En til þess að koma frv. þessu gegnum þingið, urðu ráðherrarnir og samherjar þeirra að snúa baki við ársgamalli fortíð frá síðasta snúningi, að láta ekki ríkisvaldið grípa inn í til þess að laga verslun. Við Framsóknarmenn rjettum þeim hjálparhönd og glöddumst af því, að þessar villuráfandi sálir voru þar komnar inn á rjetta braut. En heimild sú, sem felst í lögum þessum, liggur ónotuð enn, og eftir því, sem heyrst hefir, vegna skuldabyrðanna erlendis. Er þá svo komið, að útlendar þjóðir hafa það vald yfir málum okkar, að þær setja hnefann framan í landsstjórnina og segja: Þetta viljum við hafa og þetta viljum við ekki hafa. Hæstv. stjórn hefir því verið hrædd frá að nota heimild þessa.

Þetta er nú alls ekki annað en það, sem búast má við, að fari að koma yfir „þessa þjóð“, eins og svo margar aðrar þjóðir, þegar þær eru kreptar svo í skuldafjötrana, að þeir lykja um þær eins og ósýnilegir hlekkir. Svo er t. d. um Kínverja nú.

Ef hæstv. forsrh. skyldi nú, mót trú minni, öðlast þá dirfsku að bera á móti því, að hjer sje um útlent kúgunarvald að ræða, þá skora jeg á hann að skýra frá því, hvers vegna síldarsölulögin frá síðasta þingi hafa ekki verið notuð ennþá.

Að vísu er það hæstv. atvrh. (MG), sem hjer hefir orðið fórnardýr fyrir íhaldið, og hefi jeg heyrt, að hann segist ætla að gefa leyfi til að nota heimildarlög þessi eftir næstu áramót. Hvort þetta er satt, veit jeg ekki. En sje svo, þá býst jeg við, að það stafi af því, að hæstv. stjórn búist ekki við að kemba lengi hærurnar eftir næstu kosningar, og sje því sama, á hverju veltur úr því. Þetta er því aðeins dæmi, sem sýnir, hvernig stjórnin veltur undan brekkunni, eins og allar þær stjórnir, sem reyna að fleyta skakkaföllunum yfir á eftirkomendurna.

Nú ekki alls fyrir löngu var hæstv. forsrh. á ferð á Austurlandi; var þá sól og sumar bæði yfir landi og þjóð. Hjelt hann þá fram, að stefna sín væri sú, að vinna að því, að landið yrði skuldlaust 1943. Um þetta er ekkert að segja, ef það hefði verið annað en slagorð. Jeg lít nú svo á, að þær umræður, sem hjer hafa orðið um þetta mál, sjeu sú fyrsta aðvarandi rödd móti stefnuskiftingu hæstvirtrar stjórnar í þessum málum, rödd, sem sýnir, að þjóðin vill ekki þá stefnu, sem stjórnin hefir tekið.

Hv. 4. landsk. (MK) var meðal þeirra, sem fyrstir sáu vítin. Hann sá þegar, að við þurftum að tryggja verslun landsmanna með því að safna í varasjóð, og sem forstjóri landsverslunarinnar byrjaði hann á því. En svo var hann ofurliði borinn af fylgismönnum núverandi stjórnar. Virki það, sem hann hafði komið upp til þess að gera okkur fjárhagslega sjálfstæða, var rifið niður. Verður sú ráðstöfun vart til sóma þeim, sem fyrir henni stóðu, því með henni brutu þeir á bak aftur þá einu af þeim stofnunum, sem hugsanlegt var, að gæti bjargað okkur frá skuldafjötrum erlendra þjóða, En nú er svo komið, að hv. 4. landsk. sjer sig neyddan til að greiða atkvæði með þessari lántöku, því honum sýnist, að hag landsins sje svo komið, að undan slíkri lántöku verði ekki flúið, þar sem fjármálapostulinn, hæstv. forsrh. (JÞ), hefir komið hag landsmanna í slíkt óefni, að slíks eru ekki dæmi áður.

Jeg veitti því eftirtekt, að háttv. 6. landsk. (JKr) kvaddi sjer hljóðs við 2. umr. þessa máls, en stóð aldrei upp, sem jeg hygg, að hafi verið sakir þess, að hann var í forsetastól. En nú hefir hann látið ljós sitt skína, og þó að ræða hans hefði lítið að innihalda af viti, var þar þó nóg af fjarstæðum og fáfræðikenningum. Hann fortók, að stjórnin bæri ábyrgð á þeirri leynd, sem altaf hefir verið yfir þessu máli. En slíkt nær engri átt, því að það er upplýst, að Landsbankinn hefir ekki þörf á að fá þetta fje. Hann hefir ennþá handbærar erlendis 4 milj. kr. frá f. á. Ennfremur vil jeg benda honum á, að stjórn Landsbankans hefir lýst því yfir skýrt og skorinort, að þessi launung hefði ekkert að þýða erlendis, því að þar væri þetta öllum kunnugt, sem viðskifti hafa við Ísland.

Þá sagði háttv. 6. landsk. ennfremur, að það væri flokksafstaða, sem kæmi fram í því að vera ekki með þessu máli, og jafnframt ráðlagði hann að láta flokksfylgi ekki leiða sig í gönur. Jeg verð nú að segja, að þessi áminning kemur úr hörðustu átt, þar sem hún kemur frá þessum hv. þm., því eins og kunnugt er, varð atburður hjer í deildinni fyrir fáum dögum, sem þegar er orðinn landfleygur, að þessi sami þingmaður, sem kosinn var á þing einungis til að vinna að bindindismálunum, skyldi vera með því að fella frá 2. umr. frv., sem gekk í þá átt að hafa hemil á ofdrykkju embættismanna. Þegar hv. þm. greiðir atkv. á móti því, að ölvaðir embættismenn sjeu sektaðir, þegar það kemur fyrir, að hann í fyrsta skifti, sem hann greiðir atkvæði um þessi mál, er leiddur til þess að greiða atkvæði á móti útrýmingu áfengisins, þá má segja, að það sje af flokksofstæki og engu öðru. Jeg get sagt hv. þm. það, að þetta atvik vekur langmesta athygli úti um land, vegna þess að það er yngsti maður þingsins, sem lætur hafa sig til að gera það, sem er rangt og skammarlegt. Það er flokksofstækinu að kenna, að hv. þm. hefir látið draga sig niður í saurinn. En sá, sem svo er fallinn, ætti ekki tilefnislaust að áfella aðra fyrir sína eigin yfirsjón.

Hv. 2. þm. Rang. (EJ) þarf jeg ekki að svara, þar sem hann hefir samviskubit og segist greiða atkvæði öðruvísi en sjer þætti skemtilegt. En þessi hv. þm. sagði eina setningu, sem er móðgandi fyrir mig. Hann nefndi mig sem einn af þeim, sem væru að brjótast út úr Íhaldsflokknum á þingi. Jeg mótmæli því, að háttv. þm. hafi nokkurn rjett til að ætla mjer svo lágar og lítilfjörlegar hvatir, að jeg sje fylgjandi Íhaldsflokknum.