02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

21. mál, fjárlög 1928

Bernharð Stefánsson:

Jeg á aðeins eina litla brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., undir XXII. lið á þskj. 284, um að styrkur til sundlauganna verði hækkaður úr 4 þús. upp í 5 þús. kr. í núgildandi fjárlögum eru veittar 5 þús. kr. í þessu skyni og mjer er kunnugt um það, að ekki veitir af þessari upphæð til þess að ríkissjóður geti greitt sinn hluta, 1/5 kostnaðar, við sundlaugar þær, sem áætlað er að bygðar muni verða á árinu. Það er því auðsætt, að þessi upphæð má ekki minka frá núgildandi fjárlögum. Til skýringar máli mínu skal jeg geta þess, að ungmennafjelög Svarfdæla í Eyjafjarðarsýslu hafa í hyggju að byggja sundlaug, helst á þessu ári. Þetta mál er nú allvel undirbúið. Jeg skal taka það fram, að teikning og kostnaðaráætlun hefir verið gerð, og jeg veit ekki betur en þær hafi legið hjer frammi á lestrarsal. Það er gert ráð fyrir, að sundlaugin muni kosta rúml. 12600 kr. Upp í þennan kostnað á fjelagið til í peningum og tryggum loforðum rúmar 4 þús. kr. En svo munu fjelögin leggja fram mikla vinnu við framkvæmd verksins. Það má því með sanni segja, að mál þetta sje vel undirbúið. Það stendur nú ekki á öðru en því, til þess að hafist verði handa, að vissa sje fyrir því, að 1/5, kostnaðar fáist hjá ríkissjóði. Þar sem hjer er um að ræða miklar framkvæmdir, en þeir, sem fyrir framkvæmdunum standa, eru aðeins tvö ungmennafjelög, þá er ekki von, að í þetta verði ráðist án þessarar litlu hjálpar. Styrkur sá, sem fyrirtæki þessu ber úr ríkissjóði, ef bygt er á kostnaðaráætluninni, er um 2500 kr. En nú hefir mjer skilist, bæði á hlutaðeigendum sjálfum og svo á stjórnarráðinu, að ekki muni vera hægt að láta svona mikið fje á þessu ári úr ríkissjóði til þessa fyrirtækis. Mjer hefir skilist, að hægt væri að fá nokkra upphæð, en ekki fyllilega 1/5 kostnaðar. En þó svo færi, að ekki væri hægt að greiða fult tillag úr ríkissjóði á þessu ári, þá mundi þó eigi að síður verða ráðist í þetta fyrirtæki, ef trygging væri fyrir því, að það, sem á vantar, fengist á næsta ári. Það kann að vera, að það yrði hægt að veita fjelögunum þetta af þessum 4 þús. kr., sem áætlaðar eru, svo ekki þyrfti þess vegna að samþykkja þessa brtt. mína. Það væri gott að fá að heyra álit hæstv. ráðherra um það. En þó kannske væri hægt að bjarga þessari sundlaug Svarfdælinga án breytinga á þessum lið, þá hygg jeg, að víðar sjeu brýnar þarfir í þessu efni og því rjett að veita sömu upphæð í þessu skyni og þá, sem er í núgildandi fjárlögum. Jeg geri ráð fyrir því, að allir geti verið sammála um það, að fáar íþróttir sjeu nauðsynlegri en sundið og því vert að styðja þá íþrótt, og það þótt meira væri en ráð er fyrir gert í brtt. minni. Sundið er fögur íþrótt og heilsusamleg og oft hafa menn bjargað lífi sínu og annara sakir kunnáttu sinnar í sundi. Jeg geri ráð fyrir því, að sá tími komi, og jeg vona að það verði sem fyrst, að það verði talið sjálfsagt, að að minsta kosti allir, sem nálægt sjó búa, kunni sund. En því aðeins er hægt að læra sund, að til sjeu einhver tæki til að kenna það. Jeg vænti því, að hv. deild verði fús á að samþykkja þessa brtt. mína, þar sem hjer er gott mál á ferðinni, en hinsvegar um litla fjárupphæð að ræða. Um brtt. annara hv. þm. ætla jeg ekki að tala, en mun með atkvæði mínu sýna, hvernig jeg lít á þær.