02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Jeg á hjer nokkrar brtt. við þennan kafla fjárlaganna og vil leyfa mjer að minnast á þær nokkrum orðum. Fyrsta brtt., sem jeg flyt ásamt hv. 2. þm. Reykv. (MJ), er á þskj. 284,X, við 14. gr., þess efnis, að verja megi alt að einum prestslaunum til þess að greiða ferðakostnað handa prestvígðum manni, einum eða fleirum, til eflingar andlegri samvinnu meðal presta og kristilegra áhrifa á söfnuði úti um land. Þessi aths. var sett inn í fjárlögin í fyrra, en hefir nú láðst að taka hana upp aftur. Eftir því, sem jeg hefi komist næst, mun það ef til vill hafa stafað af því, að búist var við, að veita mætti upphæðina áfram án þess að hún stæði í fjárlögum.

Þessi till. miðar í sjálfu sjer ekki að því að hækka fjárlögin neitt frá því sem er, heldur að verja nokkru af því fje, sem sparast á þessum lið nú, til andlegu stjettarinnar. Og úr því að Alþingi varð einu sinni svo vingjarnlegt í garð kirkjunnar að taka upp þessa upphæð, þá veit jeg, að það fer ekki þegar í stað að fella hana niður. Jeg vil leyfa mjer að ganga út frá því sem sjálfsögðu, að hv. þdm. geri það með ljúfu geði að taka þessa aths. upp í fjárlögin nú.

Næsta till. er námsstyrkur. Fyrst til Sigurkarls Stefánssonar, sem nú stundar stærðfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn. Nú í vetur tók hann annað aðalprófið með hæstu 1. einkunn. Þessi stúdent útskrifaðist hjeðan úr stærðfræðideild mentaskólans fyrir hjer um bil 5 árum með allra hæstu einkunn, hafði hjer um bil 7 út í meðaleinkunn. En eins og gefur að skilja, hefir hann haft mikin kostnað af námi sínu og sjer fram á mjög mikla erfiðleika á að ljúka því. Hinsvegar býst jeg við, ef hann fengi nokkurn styrk, að hann gæti lokið námi sínu í vor. Þessi stúdent hefir hin ágætustu meðmæli bæði frá kennurum sínum við háskólann í Danmörku og einnig frá dr. Ólafi Dan, sem lögð eru hjer fram. Hann telur hann með allra efnilegustu námsmönnum, sem hann hefir kent síðan hann kom að mentaskólanum, og mun með þeim orðum nokkuð mikið sagt. Það vill svo til, að það er mikil þörf vegna skóla okkar að fá góðan mann og vel lærðan í þessari grein. Vænti jeg því, að hv. þdm. geti ljeð þessum litla styrk, sem er lokastyrkur, atkvæði sitt.

Þá er undir sama lið styrkur til Kristjáns Einarssonar, til þess að nema rafmagnsfræði í Þýskalandi. Þessi piltur hefir stundað gagnfræðanám á Akureyri og einnig framhaldsnám, svo að hann átti ekki langt eftir til stúdentsprófs. En hugur hans horfði reyndar aldrei í þá átt, heldur miklu fremur að verklegum efnum. Nú hefir hann bráðum í heilt ár starfað hjá bræðrunum Ormsson hjer í Reykjavík, til þess að undirbúa sig verklega, áður en hann færi lengra út á þessa námsbraut. Auk þess nýtur hann líka bóklegrar tilsagnar í þessum fræðum. Jeg þekki vel þennan unga mann, hefi að nokkru leyti undirbúið hann til náms; og jeg get fullyrt það, að hann er með þeim allra efnilegustu námsmönnum, sem gerast, — ágætlega gefinn, iðjusamur og í alla staði reglusamur. Það, sem einkum vakir fyrir honum með námi sínu, er að beina síðar starfsemi sinni til rafmagnsvirkjunar á sveitabæjum.

Þá flyt jeg á sama þskj. XVII. till. ásamt hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), þess efnis að hækka um 1 þús. kr. styrk til húsmæðraskóla á Staðarfelli, sem stendur til, að reistur verði nú í vor. Eins og gefur að skilja, er allmikill áhugi á því þarna vestra, að skólinn geti farið sem allra myndarlegast af stað. Á þingmálafundum í vetur komu fram eindregnar áskoranir um, að hlynt væri að honum sem best, svo að hann gæti náð sem best tilgangi sínum. Fyrir því er það, að við flytjum þessa tillögu, því að okkur er ljóst, hversu er mikilsvert, að skólinn geti notið sín þegar í byrjun. Og ekki mun honum veita af þessum styrk, því að byrjunarörðugleikarnir eru vissulega miklir og margvíslegir. Þótt að ýmsu leyti sje vel í garðinn búið á Staðarfelli, eftir því sem um er að gera um sveitaheimili, þá er það vitanlega margt, sem þarf að gera með tilliti til skólastofnunarinnar.

Það væri þá heldur ekki lítils vert fyrir stjórnina, þegar hún setur reglugerð fyrir þennan skóla, að geta sjeð, hvaða stefnu Alþingi ætlar að taka, svo að hún sníði ekki skólanum of þröngan stakk og geri of litlar kröfur til hans. Mjer virðist, að minni en 4 þús. kr. megi styrkurinn ekki vera, ef hann á að geta náð tilgangi sínum. Að minni hyggju væri skóli þessi í raun og veru alls ekki vel settur í samanburði við ýmsa aðra skóla, sem styrktir eru af almannafje, þótt hann fengi þennan styrk.

Þá er brtt. XXXII, um styrk til Eggerts Magnússonar, til dýralækninga. Þessi maður, sem nú er kominn á sextugsaldur, hefir reyndar frá því hann varð fulltíða maður altaf unnið nokkuð á þessu sviði, af því að hann hefir altaf verið einkar nákvæmur og umhyggjusamur að hjálpa skepnum, sem mikil þörf er fyrir í hans nágrenni, þar sem langt er til dýralæknis. Næstliðinn vetur hefir hann notið tilsagnar hjá Magnúsi Einarsyni dýralækni, bæði bóklegrar og verklegrar, og eðlilega kostað til þess allmiklu fje. Nú er það ósk bæði hans og hjeraðsbúa þarna vestra, að hann geti framvegis gefið sig enn meir að þessum störfum og honum verði gert það mögulegt með því að veita honum dálítinn styrk, eins og Alþingi hefir í mörg árstyrkt Hólmgeir Jensson dýralækni.

Jeg vil sjerstaklega taka það fram um þennan mann, að það, sem einkennir hann í þessu — eins og í öllu öðru — er framúrskarandi gætni og nákvæmni. Allir, sem þekkja hann, hafa mikla trú á hans hæfileikum í þessum efnum.

Þá er enn ein till. á sama þskj., XIII, sem jeg er nokkuð við riðinn. Hún er flutt af mentmn. og hefir hennar áður verið getið hjer í deildinni. Till. fer fram á, að háskólanum verði veittar 2 þús. kr. til þess að halda kennara í grísku, sökum þess að grískudósentsembættið verður lagt niður. Eins og hv. þdm. vita, hefir háskólinn lagt ríka áherslu á þetta, að slík kensla mætti alls ekki missa sig. En hinsvegar, eins og nú standa sakir, er ekki hægt að koma því til leiðar, að neinn af núverandi háskólakennurum taki að sjer þá kenslu fyrir ekki neitt.

Undir sama lið er önnur upphæð, sem minst var á í sambandi við dósentsembættið. Það er alt að 2000 kr. til þess að greiða kostnað við heimsóknir erlendra vísindamanna, sem halda fyrirlestra í háskólanum.

Þegar frv. um dósentsembættið var á ferð, var gerð grein fyrir þessari till., og get jeg vísað til þess, sem þá var sagt. Jeg vona, að hv. þdm. setji ekki fyrir sig að greiða atkvæði þessari litlu upphæð, svo mikið gagn sem má af henni leiða.

Fleiri brtt. er jeg ekki við riðinn. Um brtt. annara hv. þm. ætla jeg ekkert að fjölyrða. En það er ein till., frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), sem jeg vildi mæla mjög með. Þegar þess er gætt, hversu sund er holl og nauðsynleg íþrótt, þá finst mjer óhætt að segja, að of lítið er gert til þess að styrkja þá íþrótt af því opinbera, í samanburði við það, sem á sjer stað um aðrar greinir íþrótta og menta.