02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Jeg þarf ekki að halda langa ræðu, því að jeg heil engu að svara, hvorki hv. þm. S.-Þ. (IngB) eða hv. frsm. nefndarinnar (TrÞ). En það var þó dálítið atriði í ræðu hv. þm. S.-Þ., sem jeg hjó eftir og vildi fara um nokkrum orðum.

Jeg vil byrja á að taka það fram, að jeg tel það ekki rjett af Alþingi að styðja að því með ógætilegum fjárveitingum, að sýslusjóðum landsins sje stofnað í fjárhagslegan voða. Hv. þm. S.-Þ. veit eins vel og jeg, að sýslusjóðurinn í Þingeyjarsýslu er ekki svo vel stæður, meðfram sakir fjárframlaga til Laugaskólans og ábyrgðar fyrir hann, að á hann sje bætandi nýjum fjárframlögum til nýrra skóla og rekstrarkostnaði þeirra. Jeg býst við, að þeim, sem bera Laugaskólann mjög fyrir brjósti, ætti að koma það best, að sem minst væri um hann talað hvað fjárreiður hans og námsgreinir snertir. Jeg ætla aðeins að minnast á eitt atriði í ræðu hv. frsm. (TrÞ), þar sem hann taldi mig hafa sagt eitthvað í þá átt, að jeg áfeldi skólann eða öfundaði fyrir það, hve mikið hann væri sóttur. Þetta er misskilningur. Jeg játaði, að skólinn væri mikið sóttur, en vildi ekki jafnframt játa, að hann væri sjerlega eftirsóknarverður, og vil jeg í því sambandi spyrja hv. frsm., hvort hann álíti, að þessi mikli fólksstraumur, sem er úr sveitunum til Reykjavíkur og kaupstaðanna, sje sönnun þess, að þetta ástand sje til blessunar fyrir þjóðina. Jeg hygg, að það, sem dregur fólkið til Reykjavíkur, eins og til Laugaskólans, sje það, að þar er fyrst og fremst kostur meiri gleðskapar og skemtana en á fámennum sveitaheimilum. Mjer er kunnugt um, að í Laugaskólanum fær unga fólkið sannarlega að leika sjer. Þar er verið að læra sund, dans og eitthvað verið að káka við smíðar og bókleg fræði, og má vel vera, að sumt af þessu komi að einhverju gagni. En það hefir litið verið prófað, hvað fólkið kann eftir þennan lærdóm. Jeg vil, að það sje sýnt í verkinu, hvort þetta fólk hefir lært nokkuð það, sem getur orðið því að gagni í lífinu, en á meðan mjer er ekki grunlaust um, að þetta unga fólk læri þar sumt, sem góðir foreldrar vilja helst ekki láta börn sín læra heima hjá sjer, þá tel jeg þetta aðstreymi að skólanum til engra bóta. Hv. frsm. sagði, að jeg hefði verið að tala um skólana yfirleitt og notað þar orðið skólafargan. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm. Jeg taldi það skólafargan, þegar einstakar konur og menn úti um sveitir þessa lands heimta svo og svo mikið fje úr ríkissjóði til þess að koma á stofn skólum, fyrirhyggjulaust og skipulagslaust. Þetta skólafargan er að verða hreinasta landplága og veldur þjóðinni stórtjóni, ef ekki er við gert í tíma.

Núverandi fræðslumálastjóri kom einu sinni með drög til laga um slíkt skipulag inn á þing, og var það mjög virðingarvert af hv. þm. (ÁÁ), en að það rísi upp menn einhversstaðar á landinu, sem safna loforðum um fjárframlög til skóla, sem svo verður kannske seint og illa eða kannske aldrei borgað, og heimti svo stórkostleg tillög úr ríkissjóði, það er fargan, sem ekki á að líðast.

Að síðustu mintist háttv. frsm. á það, að jeg mundi bera það traust til hæstv. stjórnar, að jeg mundi treysta henni til þess að veita ekki fje til slíkra skólastofnana, nema því aðeins, að fulltrygg skilyrði væru fyrir, að fje yrði lagt fram annarsstaðar frá á móti. En nú hefir þessi hv. þm. sagt, að þessi stjórn yrði ekki langlíf, og ef hv. þm. reynist sannspár um það, að þessi stjórn sitji ekki að völdum árið 1928, þá verður það sjálfsagt flokkur hv. þm., og þá kanske hann sjálfur, sem fer með völdin, og verð jeg þá að segja, að jeg ber alls ekkert traust til þeirrar stjórnar. — Hjer stendur, að ríkissjóður eigi að leggja fram 2/5 kostnaðar, en ekkert um það, hvort það eigi að vera gegn 3/5 annarsstaðar frá, og heldur ekkert um það, hvort eigi að byrja á að borga þessa 2/5, áður en nokkuð er komið annarsstaðar frá. Nei, varist spor Laugaskólans; þau hræða! Mjer finst, að aldrei verði nógu varlega farið, þegar er að ræða um fjárveitingar, sem snerta Laugaskólann; og ef eitthvað þykir athugavert við þessi orð mín, þá er jeg reiðubúinn að gera frekari grein fyrir ummælum mínum með tölum, sem ekki verða hraktar.