09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Eins og hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) mun hafa tekið fram, þá fóru fjárlögin frá 2. umr. hjer með 58 þús. kr. tekjuhalla. Hjer liggja nú fyrir á þskj. 336 80 brtt., sem yfirleitt eru til hækkunar, og ef mikið af þeim verður samþykt, þá fer tekjuhallinn að nálgast miljón króna.

Jeg vil aðeins endurtaka það, sem sagt var við 2. umr. málsins, að jeg álít það alveg óhjákvæmilegt, að reynt sje að standa á móti þessum útgjaldahækkunum, og það er gott að heyra á hv. frsm. fjvn., að hv. fjvn. muni hafa hug á því. Það er að vísu svo, að það liggja fyrir hækkunartill. frá sjálfri nefndinni, en sumar þeirra, og máske þær stærstu, má segja um, að sjeu leiðrjettingar á áætlunum fjárlaganna samkvæmt upplýsingum, sem ekki hafa legið fyrir áður, svo að það er í sjálfu sjer ekki hægt að tala um það, þótt af því komi nokkur hækkun á tekjuhallanum. En mjer er sagt, að hv. fjvn. sje enn ekki búin að taka afstöðu til þess aragrúa af brtt. frá einstökum þm., sem eru á þskj. 336, og sagt er, að von sje á fleiri brtt., sem gangi í sömu átt. Vildi jeg beina þeim tilmælum til hv. nefndar, að hún, áður en nokkuð af þessum brtt. kemur til atkvæða, hjeldi fund með sjer til þess að taka afstöðu til þeirra; því ef þessu heldur áfram, að tekjuhallinn fari vaxandi eftir að sá litli tekjuafgangur, sem stjfrv. sýndi, er eyddur, þá sje jeg ekki annað en að taka verði til einhverra sjerstakra ráðstafana á seinna stigi fjárlaganna, t. d. með því að sjá fyrir nýrri tekjulöggjöf, sem þó er sannarlega ekki skemtilegt að þurfa að gera; því að jeg býst við, að mönnum þyki gjöldin til ríkissjóðs svo há, að það sje varhugavert að bæta þar við. Og það verður náttúrlega ekki annað sagt en að þau eru há. eftir því sem nú horfist á um atvinnuvegi landsmanna.

Það hefir nú orðið svo síðastliðið ár, að útfluttar vörur hafa ekki náð 50 milj. króna, og það má búast við því hvenær sem er, að þær verði ekki nema eitthvað yfir 40 miljónir króna. en þá eru tekjur til ríkissjóðs, eftir 2. gr. fjárlaganna, fram undir 1/4 hluti af andvirði útfluttu vörunnar, og það er ekki æskilegt að þurfa enn að auka álögurnar, þegar svo er komið.

Hin leiðin, sem þá er um að ræða, er að ráðast á þá liði fjárlaganna, sem ekki eru lögbundnir, og færa þá niður frá því sem stjórnin hefir stungið upp á. En þó vil jeg segja yfirleitt, án þess að vilja gera einstakar tillögur að umtalsefni, að jeg sje ekki, að að fráskildum nauðsynlegum leiðrjettingum, sem hv. fjvn. hefir borið fram, sje neinar aðrar tillögur fram komnar, sem eigi meiri rjett á sjer en þær, sem voru til verklegra framkvæmda í stjfrv. Svo að jafnvel þótt ná mætti rjettingu á fjárlögunum með því að skera niður uppástungur stjórnarinnar, þá er það mín skoðun, að fjárlögin sjeu þá verri eftir heldur en áður.

Að svo stöddu set jeg þá traust mitt til hv. fjvn., um að hún taki þessar brtt. til athugunar og gangist fyrir því að safna atkvæðamagni hjer í þessari hv. deild, til þess að ekki verði meira samþykt af þessum hækkunartillögum heldur en það, sem á skýlausan rjett á sjer að komast í fjárlögin.