11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki vera langorður að þessu sinni, en ætla þó að segja nokkur orð viðvíkjandi brtt. á þskj. 336,X. Jeg tók svo eftir, að hv. frsm. (ÞórJ) segði fyrir hönd nefndarinnar, að henni væri ekki nægilega kunnugt um þetta mál. Jeg skal fúslega játa, að jeg hefi ekki skrifað hv. fjvn. um það, hvað fjelagið í Flatey ætlaði sjer að gera við þessa peninga. En jeg talaði við nefndina og sagði henni, að hugmyndin væri að byggja sjúkraskýli í sambandi við hinn væntanlega læknisbústað. Jeg hafði tjáð nefndinni, að fjelagið ætti í sjóði 3400 kr. og áætlað væri af smiði í Flatey, að fyrirtækið mundi kosta um 6500 kr. Mjer var falið af fjelaginu að fara fram á, að því yrði veittur 2000 kr. styrkur. Brtt. í þá átt flutti jeg svo við 2. umr. fjárlagafrv. og fór þá um hana nokkrum orðum, sem jeg hefi nú að nokkru orðið að endurtaka. Þessa brtt. tók jeg aftur til 3. umr. Jeg er alls ekki að setja neitt út á afstöðu nefndarinnar til þessarar hóflegu till., en mjer þykir aðeins leitt, að hún skuli hafa gleymt því samtali, sem jeg átti við hana um þetta efni. Þegar þess er gætt, að hjer er ekki nema um örlítinn hluta af þeirri upphæð að ræða, sem jeg fullyrði að byggingin muni koma til að kosta, þá vænti jeg þess, að hv. þdm. taki vel í þessa málaleitun. Mjer þætti ekki illa fara á því, að nefndin gerði slíkt hið sama, ef hún þá tekur orð mín trúanleg. Annars ætla jeg ekki að fara frekar út í umr. um þennan kafla fjárlagafrv. Jeg vildi aðeins gefa stutta skýringu, ef það gæti orðið til þess, að hv. þm. vildu frekar ljá till. þessari fylgi. En ef hún verður feld, þá er óhætt að slá því föstu, að það er algerlega móti allri venju um slíkar fjárveitingar í flestum öðrum tilfellum, þar sem svo mikill hluti fjárins kemur annarsstaðar frá.