12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Ólafsson:

Jeg á hjer 3 brtt., og að tveimur þeirra er jeg meðflytjandi ásamt öðrum þingmönnum Reykvíkinga, og eru þær undir liðum LXI og LXIV á þskj. 336. Um þær þarf jeg ekki að fjölyrða, því að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) mun tala fyrir þeim. En jeg hefi orðið þess var, að háttv. fjvn. er vinveitt till. um að veita Sjúkrasamlagi Reykjavíkur styrk til að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga á landinu og stofna ný sjúkrasamlög. Er jeg henni þakklátur fyrir það.

Svo á jeg hjer eina brtt. á þskj. 345, undir tölulið IV við 16. gr., og þykir mjer ástæða til þess að fara um hana nokkrum orðum, því að þótt hv. þdm. muni hafa heyrt fjelagið „Landnám“ nefnt, þá mun þeim þó eigi kunnugt um, hvað það hefir afrekað. Fjelagið var stofnað fyrir 3 árum, og hefir fjöldi manna hjer og í Hafnarfirði gengið í það, og eru fjelagsmenn nú 80–100. Fjelagið hefir fengið Reykjavíkurbæ til þess að láta af hendi lönd hjer inni í Sogamýri og brjóta þau á sinn kostnað. Áður var sú hugmynd efst á baugi hjer, að bærinn skyldi sjálfur fara að braska í búskap og koma sjer upp kúabúi. Nú mun sú hugmynd úr sögunni, því að nú geta menn fengið brotin lönd til ræktunar og stundað þar búskap í hjáverkum sínum. Hefir verið mikil eftirsókn að löndum þessum, bæði af skrifstofumönnum og sjómönnum, eða þeim, sem hafa fyrir stórri fjölskyldu að sjá, en hafa ekki haft handtak handa henni að gera. Það er ekki von, að nein velmegun safnist þar, sem svo er ástatt, að fjöldi fólks verður að lifa á handafla húsbændanna einna, en úr þessu er mikið bætt með landnáminu hjer. Á þessum býlum má nota vinnukraft kvenna, unglinga og barna, sem annars hefðu lítið eða ekkert fyrir stafni.

Nýbýlin í Sogamýrinni eru svo stór, að það má framfleyta 3–4 kúm á hverju þeirra. Og þeir, sem þar hafa tekið lönd, hafa sagt mjer, að það borgi sig vel. Meiningin með þessari brtt. er því sú, að vekja áhuga manna víðar um land fyrir þessu þjóðþrifamáli.

Fjelagið „Landnám“ á nú um 5000 kr. í sjóði, og á að verja fje úr honum til verðlauna handa þeim, sem fram úr öðrum skara í nýbýlarækt, og til að greiða kostnað við fyrirlestra, sem haldnir eru til þess að vekja áhuga manna á nýbýlamálinu.

Jeg vona, að hv. þdm. taki brtt. vel. Það er að vísu að bera í bakkafullan lækinn að koma fram með hækkunartill. við fjárlagafrv., en hjer er ekki um nein ósköp að ræða, einar 3000 kr.

Þá vil jeg víkja að ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem er frsm. hv. sjútvn. Jeg er honum sammála um það, að það er síst of mikið, sem sjútvn. fer fram á, og margt af því hefði verið hægt að gera áður. En till. hv. nefndar eru allar með einu marki brendar. Hún vill káfa á öllu í einu, en ganga hvergi hreint til verks. Skal jeg þá fyrst minnast á 1. lið í brtt. LV á þskj. 336, um að veita 12000 kr. til markaðsleitar í Suður-Ameríku. Það er vitanlega styrkur þessu markaðsleitarmáli, að stofnað hefir verið fjelag til að fara með þetta starf. Vil jeg hjer um leið upplýsa hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um það, að fjelag þetta er stofnað af nokkrum útgerðarfjelögum, og hygg jeg, að það sje hæfara til þess að opna okkur markað fyrir saltfisk okkar heldur en sá maður, sem hv. sjútvn. hefir í huga. Jeg veit ekki, hvort henni er kunnugt um það að hann er skinnakaupmaður og hefir aldrei fengist við fiskverslun. En það tel jeg óhæfu, ef á að fara að launa mann til þess að taka að sjer að reyna að útvega okkur markað fyrir fisk, og hann hefir ekki eins mikið vit á fiski eins og Íslendingar sjálfir. Tel jeg víst, að það yrði miklu farsælla fyrir okkur að senda okkar eigin menn til Suður-Ameríku í þessum erindagerðum heldur en þennan Þjóðverja.

Þá hefir hv. sjútvn. ætlast til þess, að veittar verði 10 þús. kr. til síldarsölu í Mið-Evrópu og Finnlandi. Þetta hefir nú áður verið reynt, en ekki borið neinn árangur, vegna þess að menn fengust ekki til þess að hafa síldina til sýnis og sölu í búðum sínum. Það, sem vantar, er að koma með síldina og láta fólkið jeta hana. Það, sem veikir þetta, er það, að það er tekið á öllu í einu, í stað þess að taka hvert atriði fyrir sig, og verða þetta þannig hálfgerð vetlingatök.

Þá hefir hv. nefnd lagt til, að veittar yrðu 8 þús. kr. til þess að útvega markað í Portúgal, — eða mjer skildist svo, að það væri í Portúgal, sem ætlast er til að leitað yrði markaðs, því að það standa til tilraunir annarsstaðar. Íslendingar hafa athugað markaðinn þar, en það hefir reynst, að ekki er hægt að koma þangað fiski, nema með því móti að selja hann lægra verði en á Spáni, auk þess sem hann þarf að vera þurrari. Það þarf engar meiri upplýsingar um markaðinn í Portúgal. Þar strandar alt á því, að varan er of dýr. Jeg geri ekki ráð fyrir því, enda þótt fjárhæðin verði notuð, að sendur verði maður til Portúgals, enda ætti erindrekinn á Spáni að geta skroppið þangað, ef svo bæri undir. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.

Hv. sami þm. (SvÓ) vjek að brtt. sinni á þskj. 336 undir tölulið LI, um að fella niður 20 þús. kr. styrk til Vestmannaeyjavegar. Það er auðvitað gott að geta komist hjá ýmsu, sem menn hafa lofað. En jeg veit ekki betur en að það hafi verið samþykt á þingi í fyrra að veita 46 þús. kr. t.il vegagerðar í Vestmannaeyjum, sem áttu að skiftast á tvö ár. 26 þús. kr. átti að leggja fram á þessu yfirstandandi ári, og eru þær sennilega komnar í verkið. Þegar hv. Alþingi er búið að fara höndum um málið og samþykkja það, þá er hæpið að ætla sjer að fara þá leið, sem hv. þm. vill fara, að draga til baka gefið loforð. Hygg jeg, hann hafi aldrei gert það í „privat“-lífi sínu, en hafi aðeins ekki athugað þetta nú. Hann færði það máli sínu til stuðnings, að Vestmannaeyjar væru hrjóstrugar og lítt til ræktunar fallnar. Er svo víðar hjer á landi. En í Vestmannaeyjum er þó töluvert land vel ræktanlegt. Eftir skýrslum Búnaðarfjelagsins, þá eru 108 ha. ræktað land í Vestmannaeyjum, en alls er land það, sem hæft er til ræktunar, 264 ha. Nú er land það, sem vegur þessi á að fara í gegnum, um 230 ha. Vegurinn á að liggja í gegn um landið milli Helgafells, fyrir sunnan, og Stórhöfða, fyrir norðan. Jeg hefi sjálfur sjeð þetta land, og get jeg sagt það með sanni, að að mínu viti lítur það út fyrir að vera vel til ræktunar fallið. Það er þykt moldarlag og grasi gróið, eitt hið besta land til túnræktar, að því er segir í Búnaðarfjelagsskýrslunni. Með því að leggja veginn greiðir Alþingi fyrir því að fá sína eigin eign í blóma, því að borgarana í Vestmannaeyjum vantar ekki áræði til þess að brjóta landið. Aðalannatími þeirra er á vetrarvertíðinni, svo að þeir mundu geta unnið að þessu þann tíma, sem minna væri um annir. Ef vegurinn á að ná takmarki sínu, þá verður hann að vera 6 km. langur. Jeg get ekki með neinni vissu sagt, hversu dýr þessi vegur muni verða. En samanborið við aðra vegi hygg jeg, að hann muni ekki fara mikið fram úr fjárveitingunni. Jeg þarf svo ekki að taka meira fram um þetta atriði, en skal aðeins að endingu geta þess, að það verður ekki komist að landinu til þess að brjóta það og koma þangað verkfærum og áburði, nema með því móti, að vegur verði lagður um það. Jeg vænti því, að hv. deild hrófli ekki við fjárveitingunni.