12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) spurði, hvar túnið væri, sem skólinn gæti fengið. Það er í grend við Akureyri. En jeg sagði jafnframt, að staðurinn væri ekki ákveðinn ennþá og væri þá heldur ekki ákveðið, að skólinn yrði reistur þar. En áður en við förum lengra út í þetta vildi jeg, að hv. þm. gæfi mjer upplýsingar um það, hvað hann teldi sveit og hvað kaupstað. (BSt: Sveit telst utan lögsagnarumdæmis Akureyrar). Sje svo, þá þarf ekki lengra en út fyrir Glerá til þess að komast í sveit, en þar er, eins og kunnugt er, talsvert stórt þorp og aðeins nokkurra mínútna gangur til Akureyrar. Virðist mjer það eigi geta skift miklu máli, hvort skólinn stendur innan lögsagnarumdæmis Akureyrar eða ekki, ef skilyrði til landbúnaðar eru þar jafngóð og í sveit. Eins og kunnugt er liggja stór og góð lönd innan lögsagnarumdæmisins. Þótt gert sje ráð fyrir því í lögunum frá 1917, að fleiri stúlkur sæki skólann en eru þar í heimavist, þá er það engin sönnun þess, að skólinn eigi að vera of nærri Akureyri. Í frv. um húsmæðraskóla á Hallormsstað er gert ráð fyrir, að 10 stúlkur gangi heiman að frá sjer, og að skólinn rúmi 30 stúlkur í heimavist, en 40 stúlkur til náms. Jeg veit nú ekki, hvort hv. 2. þm. Eyf. vill halda því fram, að þetta sje sönnun fyrir því, að Hallormsstaður sje í kaupstað! Annars er þessi hræðsla við að hafa skólann á Akureyri mjer lítt skiljanleg. Það hefir orðið samkomulag milli kvenna í Eyjafirði og á Akureyri, að skólinn yrði reistur svo nærri Akureyri, að stúlkur þaðan gætu gengið á skólann heiman að frá sjer, svo að allmargar heimavistir gætu sparast og unt væri að sækja kenslukrafta þangað til skólans, ef á þyrfti að halda,

Jeg vil um leið benda á það, að í rauninni er meiri þörf húsmæðrafræðslu í kaupstöðum en sveitum. Að vísu er þörfin þar orðin mikil og eykst jafnvel með ári hverju, sakir þess að fyrirmyndar stórbýli eru nú óðum að hverfa úr sögunni og hugsunarhátturinn orðinn sá, að unga kvenfólkið vill nú helst alt annað heldur gera en eldhússtörf. En á þann hátt hafa ungar stúlkur á þessu landi til skamms tíma mest og best lært húsmóðurstörf, að gegna þessum störfum undir handleiðslu góðra fyrirmyndarhúsmæðra. En þótt þessu sje komið í óvænt efni í sveitum, þá er því þó komið í enn óvænna efni í kaupstöðum, því að í þeim er nú fjöldi ungra kvenna, sem sjaldan eða aldrei koma nálægt slíkum störfum. Þess vegna er ennþá meiri þörf á húsmæðrakenslu þar.

Það er í stuttu máli sagt hugsun norðlenskra kvenna að koma á fót sameiginlegum húsmæðraskóla fyrir sveita- og kaupstaðarstúlkur svo nærri Akureyri, að stúlkur þaðan geti með skaplegu móti sótt skólann.